Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Pælt í Hávamálum og Njálssögu í heimspekikaffi

Pælt í Hávamálum og Njálssögu í heimspekikaffi

Lífsspekin sem birtist í Hávamálum hafði áhrif um aldir og enn má setja hana í samhengi við líferni og viðhorf nútímafólks á Norðurlöndum. 

Gestaþáttur Hávamála er a.m.k. frá 12. öld en einstök erindi eða ljóðlínur geta átt sér miklu eldri rætur. Spekin hefur borist á milli kynslóða með margvíslegum hætti m.a. með menningararfinum og uppeldi. Það sem telst lofsvert í fari nútímafólks á Norðurlöndum rímar oft við þá mannkosti sem nefndir eru í Hávamálum og það sem fólki er ráðlagt að sækjast eftir.

Þekkingarleit og forvitni

Meginstef Hávamála eru sæla og hófsemd sem einnig má kalla hamingju og jafnvægi. þetta eru sígild meginstef á Norðurlöndum. Þá eru vinátta, frelsi, ábyrgð, jöfnuður, gleði og fjölskyldubönd ofarlega á baugi í kvæðunum. Segja má að þessi gildi hafði einnig verið íslenskri þjóð efst í huga á þjóðfundum 2009 og 2010 eftir efnahagslegt hrun. Einnig má nefna úr kvæðunum: visku, kurteisi, gestrisni, þolgæði, víðförli, hugrekki, vináttu og forvitni. Hávamál hvetja forvitna áfram í þekkingarleit sinni.

Mannlegir gallar sem greina má í Hávamálum eru enn á svarta listanum: heimska, áleitni, ámæli, ættarhroki, græðgi, níska, ofdrykkja, ofmælgi, sviksemi. Hávamál eru kennd í grunn- og framhaldsskólum og það er vinsælt að vitna í þau í ræðu og riti: Maður er manns gaman er til að mynda sígilt. Það merkir að heillavænlegra sé að eiga förunaut heldur en að vera einn, það bæði eykur ánægju og minnkar líkur á að farið sé villur vega

Orðstír deyr aldrei hveim er sér góðan getur. Góður orðstír hefur ævinlega verið hátt skrifaður á Íslandi. Ekki er hann þó metinn til fjár því hann er um heiður og mannorð sérhvers manns. Að þegja þunnu hljóði er úr Hávamálum og merkir að vera þögull en fylgjast þó vel með. Margur verður að aurum api er úr þessari lífsspeki og merkir að sá sem auðgast er líklegur til að vinna einhver heimskupör.

Fjársjóður til að spegla sig í 

Er hægt að gera eitthvað nýtt um Hávamál, norræna goðafræði eða efni bókar eins og Njálu? Eða er það þess virði að rifja lífspekina upp og pæla í henni? Kristín Ragna Gunnarsdóttir hefur svo sannarlega gert það. Hún hefur gert myndir við Hávamál og Völuspá í endursögn Þórarins Eldjárns. Hún hefur einnig unnið bókina Örlög guðanna með Ingunni Ásdísardóttur og skrifað bækurnar Úlfur og Edda sem byggja á norrænum goðsögnum. Hún hönnuður Njálurefilsins sem er 90 metra langur og nú síðast gerði hún myndir í sýningunni Ertu alveg viss? sem er í Borgarbókasafninu í Grófinni.

Við Kristín Ragna ætlum að vera með heimspekikaffi í tvígang og spá m.a. í goðafræði, Hávamál og í valdar persónur í Brennu-Njálssögu út frá lífsgildum,  fyrirmyndum og verkum Kristínar. Henni finnst að við ættum að draga þennan fjársjóð fram sem oftast og spegla okkur í honum. 

Efri myndin með þessum pistli sýnir Gunnhildi drottningu og Hrút en hún var seiðkona og sætti sig ekki við svik hans í ástarmálum (KRG/Brennu-Njálssaga).

Tenglar

Heimspekikaffi miðvikudaginn 27. febrúar í Gerðubergi í Breiðholti kl. 20

Heimspekikaffi og innlit á sýningu sunnudaginn 3. mars í Grófinni kl. 14.

Sýningin Ertu alveg viss? í Borgarbókasafninu Grófinni. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni