Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Landslagsljósmyndir færa okkur fegurð og þekkingu

Landslagsljósmyndir færa okkur fegurð og þekkingu

Mynd ársins 2021 er birt hér með leyfi höfundar Vilhelms Gunnarssonar.

Ég flutti nýlega erindi á sýningunni Myndir ársins 2021 í Ljósmyndasafni Reykjavíkur í Tryggvagötu. Markmiðið var að tengja landslagsljósmyndir, siðfræði og fagurfræði í leit okkar að þekkingu. Erindið fellur innan siðfræði náttúrunnar sem hefur verið eitt af meginþemum íslenskrar heimspeki síðustu áratuga, en þar hefur verið gerð tilraun til að orða fegurðarreynslu.

Ég vildi varpa ljósi á hlut landslagsljósmyndarinnar í því að kalla fram fegurðarreynslu með áhorfendum og studdist við landslagsljósmyndir sem eru á sýningunni í Grófarhúsinu og sem ég hvet fólk eindregið til að skoða núna í maí.

Innsýn í djúpan heim

Við hrífumst, andinn lyftist óvænt og við öðlumst innsæi inn í eitthvað sem orð fá ekki á fest nema þá helst í ljóðum eða á ljósmynd. Við höfum þó öll orðið fyrir því að hrein fölskvalaus tjáning og fegurðarreynsla okkar af náttúrunni, hafi verið afskrifuð sem ómarktækur smekkur. Slíkt er verulega óheppilegt og rænir töfrunum sem við urðum fyrir og sækjumst eftir.

Landslagsljósmyndir geta tekið þátt í því að færa okkur leyndardóma náttúrunnar aftur og veitt okkur mikilvæga þekkingu. Ljósmynd eins og ljóðið getur opnað dyr huga og ímyndunarafls og veitt okkur innsýn í heim sem er víður og djúpur. Ljósmynd getur hjálpað okkur til að sjá það sem við sjáum ekki.

Fegurðarreynsla við skoðun á ljósmyndum

Fyrsta tækifæri Davids Guttenfleder formanns dómnefndar Mynda ársins, til að skoða Ísland var að meta þær ljósmyndir sem bárust í samkeppnina Ljósmyndir ársins 2021. Hann skrifar „Þegar ég fór yfir árs afrakstur af atburðum og ljósmyndum fékk ég strax vissa tilfinningu fyrir Íslandi og þeim sem segja sögu þess með myndum. Ég sá hvernig þær lofsungu hrikalegt og einstakt landslag Íslands.“ David öðlaðist fegurðarreynslu af Íslandi strax við fyrstu skoðun ljósmyndanna.

Danski prófessorinn Dorthe Jørgensen fjallar m.a. um fagurfræði í ritinu Hvers vegna hræðumst við ímyndunaraflið? Hún telur að reynsla af náttúrufegurð sé ekki fyrirsjáanleg, einfaldlega vegna þess að hún er ekki alfarið á okkar valdi heldur er hún samspil milli þátta í okkur og í umheiminum. Hún er samstilling huga, tilfinninga, skynjunar og náttúrunnar á ákveðnum tímapunkti og í þessari reynslu öðlast einstaklingurinn innsæi í víðfeðma veröld lífsins. Það er rétt hjá Dorthe, reynsla af slíkri náttúrufegurð er ekki eitthvað sem hægt er að kalla fram eða stjórna, fremur er rétt að segja að hún hendi okkur. Jafnvel þótt við séum á ferð á hálendinu, í skógi eða að veiðum við vatn þá gæti hugurinn verið annars staðar og við yrðum ósnert eftir ferðalagið – en á góðum stundum gerist eitthvað óvænt.

Ímyndunaraflið getur leitað sannrar þekkingar alveg eins og aðrar sálargáfur. Ljósmyndarinn í landslaginu er í góðu sambandi við ímyndunaraflið og hefur gáfu og þjálfun til að festa á filmu það sem ferðalangurinn tekur ekki endilega eftir.

Við höfum ekki gefið fegurðarupplifun og -reynslu næga athygli heldur einblítt um of á afurðir skynseminnar. Fegurðin var jaðarsett í umræðunni, „þótti lengi svo listrænt léttvæg og heimspekilega merkingarlítil,“ skrifar  Guðbjörg R. Jóhannesdóttir sem rekur sögu fagurfræðinnar í þessu samhengi og hvernig hún endurheimtist loks inn í umræðuna og fræðin á 20. öldinni í bókinni Vá! (2020).

Náttúrureynsla handan orða

Sköpunargáfa ljóðskáldsins getur milliliðalaust snert sannleikann um samband manns og náttúru, jafnvel með hversdagslegum orðum. Ljóðskáldið nemur sterkt samband fólks og náttúru án þess að flokka það sem gott eða vont, aðeins sem óhjákvæmilegt. Jafnvel þótt áin sé hrikaleg þá streymir hún eins og ljóð í hugum fólks en „Þegar hið ljóðræna víkur fyrir skynseminni er heimurinn sviptur töfrum sínum“ samkvæmt skrifum Max Weber. Það er staðreynd sem ekki mælist með hefðbundnum mælitækjum.

Nákvæmlega þarna sé ég landslagsljósmyndarann að störfum, í leit að hinu ljóðræna og myndin færir okkur töfrana - aftur. Nútímavæðingin og krafan um nytsemd gerði það að verkum að augu okkar lokuðust fyrir því að hið fagra hefði gildi í sjálfu sér, við hættum að virða hið ómælanlega.

Íslenskir ljósmyndarar hafa lagt mikið fram til að miðla íslensku landslagi og náttúrufegurð til annarra. 19. júní 1999 öðlaðist ég slíka reynslu af náttúrufegurð í leiðangri með þremur ljósmyndurum en okkar hlutur var þáttur í stærra verkefni - eða ferð niður Jöklu á tveimur gúmmíbátum um ofurþröng gjúfur. Þetta var upplifun sem vandasamt var að átta sig á, koma í orð, hvað þá að setja mælistiku á sem tekið yrði mark á. Náttúrureynslan varð enn áhrifameiri vegna vitundarinnar um að á þessum stað var ráðgert að byggja hæstu stíflu Evrópu. Hvar var þetta?

Ein hrikalegustu árgljúfur á Íslandi eru undir Kárahnjúkum. Þau nefnast Dimmugljúfur og Hamrahvammagljúfur. Við í þessum leiðangri upplifðum náttúruást sem einkennist af innlifun og barnslegri undrun. Hún spratt af gnótt og hrikafegurð og hún streymdi um æðar sem gjöf jarðar. Ég kom til baka með dýrð í hjarta, eitthvað fágætt, eitthvað handan verðmæta, eitthvað sem er ekki á mannlegu valdi. Ég skrifaði textann en þeir völdu myndirnar, saman fannst okkur að við hefðum miðlað einhverju mikilvægu.

Eftir að hafa orðið uppnumin sökum mikilfengleika í víðerni langar okkur vonandi til að deila reynslunni með öðrum og til að vernda svæðið. Fjölmargir lista- og fræðimenn fundu fyrir þessari knýjandi þörf til að miðla þeirri fegurð sem var að hverfa, þau fundu þessa verndunarþörf eftir að hafa öðlast fegurðarreynslu, m.a. Guðmundur Páll Ólafsson sem skrifaði bókina Um víðerni Snæfells (2003) fyrir Íslendinga sem fengu öræfin í vöggugjöf en kunnu ekki með gjöfina að fara.

Margslungið tengslanet við náttúruna

Reynsla sem á sér stað í víðerni styrkir óbeint viljann til að skapa samfélag fólks sem ber virðingu fyrir náttúrunni. Við rennum saman við víðáttuna og verðum eitt með henni, hugur og líkami verða einasta eitt og fyllast aðdáun og væntumþykju. Í uppljómun í víðerni finnum við fyrir hinu óræða og ósegjanlega. Hið ónafngreinda verður ekki tekið frá þeim sem nemur það, þótt ekkert nafn tolli við það.

Listafólk eins og ljóðskáld, myndlistarmenn og ljósmyndarar þróa með sér fagurferðilega næmni fyrir ákveðnum stöðum. Lýsingar þeirra og verk skipta máli fyrir ímyndunarafl okkar. (Orðið fagurferði sem notað í bókinni Vá! rýmar við orðið siðferði). Fegurðarupplifun – og reynsla varpar ljósi á margslungið tengslanet okkar við aðra, náttúruna og jörðina sem við byggjum.

Ljósmyndarinn Vilhelm Gunnarsson varð hugfanginn af eldgosinu í Geldingadölum við Fagradalsfjall. Miðlun hans á myndum til okkar bætir við þekkingu okkar á gosinu og nærir ímyndunarafl okkar. Fagurferðileg upplifin okkar og reynsla hvílir ekki aðeins á því sem jarðfræðingar og vísindafólk segir heldur einnig á verkum landslagsljósmyndarans. Ein mynda Vilhelms á sýningunni var valin Mynd ársins 2021 og um hana segir m.a. „Frumleg mynd … sjónarhornið frábært, formið óvænt …ótrúlega kraftmikil … mynd sem segir ótal sögur.“ 

Vísindaleg þekking er ekki nóg til að vernda

Vísindaleg þekking dugar okkur ekki til að vernda náttúruna. Fleiri sálargáfur en skynsemi eru nefnilega næmar á veruleikann og geta veitt okkur upplýsingar, jafnvel um eitthvað órætt sem kallað er fegurð.

Við þurfum að leita þekkingar með hjálp ímyndunaraflsins og fagurfræði náttúrunnar og öðlast fagurferðilega reynslu til að þessi þekking verði okkur eiginleg. Þessi þekking sprettur fram þegar skynjun, ímyndunarafl og dómgreind smella saman.

Staðir hafa mismikil áhrif og opnast á mismunandi hátt. Hrikafegurð Dettifoss er ágeng, hún gleypir fólk umsvifalaust með húð og hári og það stendur orðlaust andspænis kraftinum. Undrun vaknar yfir dulúðlegum sköpunarkraftinum.

Umhverfismynd ársins sem Sigtryggur Ari tók sýnir aftur á móti falda fegurð sem opnast hægt. Hún sýnir hina hliðina á gosinu í Geldingadölum. Um hana segir: „Marglaga en einstaklega falleg og friðsæl mynd þar sem rammíslensk kyrrðin sogar áhorfandann til sín.“ Hún er ekki frek og sýnir látlausan stað sem býr yfir fegurð sem fólk þarf að dvelja í. Undrun vaknar svo yfir tengslunum við hamfarirnar.

Landslagsljósmyndir færa okkur þekkingu, ekki aðeins sem hluta af heimildum heldur færa þær okkur sjónarhorn sem við getum ekki aflað okkur með hefðbundnum lærdómi og opna okkar heim fyrir því sem er stærra en við.

Mynd ársins 2021 er birt hér með leyfi höfundar Vilhelms Gunnarssonar. Takk fyrir.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni