Glötuð tækifæri til að gera rétt
Tómið vex á Íslandi í hvert sinn sem mannúðlegri meðferð er hafnað, t.d. á forsendum smásmugulegra stafkrókafræða eins og oft er gert gagnvart hælisleitendum. Íslendingar þurfa að horfa upp á það með reglulegu millibili, að foreldrar, konur, karlar og börn eru send til Grikklands eða Ítalíu, eða hvaðan sem þau komu, í algjöra óvissu þrátt fyrir að vera komin hingað, jafnvel byrjuð í skóla og vinnu á leikskóla, jafnvel byrjuð nýtt líf.
Mannúð og harmræn saga víkja fyrir stafkrókum regluverksins. Allir vita að bæði Grikkland og Ítalía eru ekki fær um að taka við fleirum. Það er útilokað að fara eftir öllum reglunum sem settar hafa verið sem hindrun, og því dofnar samkenndin sem veit hvað rétt er að gera gagnvart manneskju sem biður ásjár.
Tómið vex og samkenndin dofnar
Við megum ekki glatast í þessu tómarúmi. Við lærðum að meta staðreyndir, lífsgildi og fólk óháð mismunun og út frá því að við öll erum borin frjáls og jöfn með kröfu um mannréttindi. Við öðluðumst innsýn í hugsjón mannréttinda. Við viljum sjálf fá efnislega meðferð út frá henni – en getum við komið fram við aðra á annan veg? Brýtur það ekki siðaboðið sem allir eru sammála um óháð trúarbrögðum: að góðvild sé umhyggja fyrir ókunnugum, mannleg meginregla og miðjan í allri mannúð.
Fullyrða má að Íslendingar séu að gera rangt þegar þeir endursenda hælisleitendur úr landi jafnvel þótt það sé gert með þeim orðum (þeirra sjálfra) að það feli ekki í sér ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð. Það er margfalt mannúðlegra og fleira sem mælir með því að samþykkja beiðni þeirra um landvist hér. Hvers vegna að nota mannúð sem rök ef það á ekki að taka ákvörðun sem skorar hæst á skala mannúðar?
Margt fólk sem er endursent frá Íslandi sem hælisleitendur þolir ranglæti af okkar hálfu og um leið komumst við sjálf ekki hjá því að hafa breytt af ranglæti gagnvart þeim. Við glötum tækifæri til að gera rétt og tómið eykst í veruleika okkar. Tækifæri til að láta gott af sér leiða glatast með því að senda börn í tjaldbúðir í Grikklandi í stað þess að veita þeim skólavist á Íslandi. Stefna þeim í tvísýnu að óþörfu og gegn vilja þeirra.
„Það er betra að þola ranglæti en breyta af ranglæti.“ Íslendingar mættu gjarnan íhuga þessa staðhæfingu Sókratesar í þessu samhengi – en hún varðar mannlega breytni, hefur pólitískar afleiðingar og er upphaf vestrænnar siðfræðilegrar hugsunar.
Athugasemdir