Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Framúrskarandi fantasía um Lýru silfurtungu

Framúrskarandi fantasía um Lýru silfurtungu

PHILIP Pullman (f. 1946) komst með einhverju móti yfir töfraformúluna að ævintýrabók og skrifaði þríleik (His Dark Materials) um Lýru sifurtungu í bókunum Gyllti áttavitinn, Lúmski hnífurinn og Skuggasjónaukinn sem þýddar voru af Önnu Heiðu Pálsdóttur (MM. 2000-2002).

Bækurnar um Lýru eru til í kiljum á íslensku en þær náðu hægri útbreiðslu í skugga bókanna um Harry Potter. Harðlínumenn og bókstafstrúarmenn börðust gegn þeim galdraheimi sem J.K. Rowling lýsti og sneru sér síðar að Lýru silfurtungu í yfirgangi sínum. Það kom í ljós þegar Gyllti áttavitinn (The Golden Compass) var kvikmynduð í Hollywood og áform voru gerð um að filma allar bækurnar þrjár. Sú veröld sem Pullman hafði skapaði féll þá í ónáð í Vatikaninu og valdamiklir trúmenn í Bandaríkjunum lýstu bækurnar hættulegar börnum.

Eftir að grein valdamikils kardínála birtist í tímariti Páfagarðs þar sem bækurnar um Lýru silfurtungu voru fordæmdar fyrir guðleysi hófst harkaleg herferð í Bandaríkjunum gegn kvikmyndinni um Gyllta áttavitann (2007) og bækurnar voru fjarlægðar úr hillum skólabókasafnanna. Áróðurinn hræddi auglýsendur og kostunaraðila og kvikmyndin fékk ekki næga aðsókn í Bandaríkjunum. Framleiðendur óttuðust að lenda á svarta listanum og hættu við næstu tvær myndir um Lýru. Nú er von, eftir öll þessi ár, á sjónvarpsþáttaröð á vegum BBC sem verður væntanlega frumsýnd á þessu ári - ef guð lofar.

„Þeir höfðu sigur í Bandaríkjunum,“ sagði Pullman en var þó óbugaður að sjá eftir slaginn við klerkana. Sögur geta augljóslega enn á 21. öldinni vakið ótta valdamanna á andlegum og veraldlegum sviðum, ótta um að þær grafi undan valdi þeirra og tangarhaldi.

Pullman gaf út nýja bók um Lýru silfurtungu árið 2017 sem kom út í íslenskri þýðingu Guðna Kolbeinssonar haustið 2018. Þetta verður þriggja bóka bálkur og nefnist fyrsta bókin Villimærin fagra (La Belle Sauvage).

Fyrri bækurnar um Lýru voru skelfilega spennandi og féllu í flokk með Hringadróttinssögu Tolkiens. Þær rjúfa múra lesenda m.t.t. aldurs, tíma og flokkunar. Aðdáendur létu sig dreyma um framhald en Pullman sagði að sú saga hefði endað en hægt væri að skapa nýtt upphaf með áður ósögðum sögum og það hefur reynist jafnspennandi og nautnin sem felst í að lesa bókina er jafn góð og eftirsóknarverð og áður.

Í þessari bók er Lýra einungis hálfs árs en það er ævinlega einhver sem vill hremma hana. Aðalsöguhetjur bókarinnar eru Malcolm Polstead 11 ára og Alice sem þurfa að beita hugkvæmi og leysa á svipstundu úr öllum hættulegum aðstæðum sem þau lenda í. Þá leika fylgjur stórt hlutverk en í þessum heimi eru allir með fylgju sem jafnframt er einskonar gæludýr en þó hluti af persónuleikanum. 

Sagan gerist að hluta til í miklum flóðum sem eiga sér stað. Það er töluvert um áhugaverðar persónur og í hverjum kafla þarf að leysa úr flóknum aðstæðum. Alræðisvaldið birtist í formi kirkjunnar og atburðir sem gerast í tengslum við það vald eru þekktir úr mannskynssögunni - að breyttu breytanda. Pullman lætur t.d. þætti úr menningarbyltingunni í Kína á tímum Maó formanns eiga sér stað í skólastarfinu í bókinni með fulltingi kirkjunnar. Þessar bækur hafa af þeim sökum ekki verið vinsælar meðal bókstafstrúarfólks og valdamanna þar en þær veita innsýn í valdið.

En fyrir óbreytta lesendur er bókin í hæsta flokki lesgleðinnar og óhætt að mæla með. Fylgist með frá byrjun! Heimurinn leynir á sér. 

[Þess má einnig geta að MM hefur gefið út Grimmsævintýri  sögð upp á nýtt af Philip Pullman í þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur - en þessi ævintýri eru mun fjölbreytilegri en margir ætla.] 


Villimærin fagra. 505 bls.
Philip Pullman. Guðni Kolbeinsson þýddi. Mál og menning 2018

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni