Næsti tíðarandi – ef við viljum
Umskipti milli tíðaranda eru vandasöm og viðkvæm og tíminn er skrykkjóttur. Vorið ætti að bruma og sumarið að blómstra en veturinn vill ekki víkja.
Það er þolinmæðisverk að vinna að nýjum tíðaranda því hann er seinn til, jafnvel þótt búið sé að plægja moldina og sá og vökva. Hann er ekki líkur því sem er og ekki heldur því sem var. Gamli tíðarandinn berst fyrir sig og sína með kjafti og klóm og fær ýmsa í lið með sér. Skuggi hans tefur vöxt annarra.
Nýr tíðarandi óskar til að mynda eindregið eftir gagnrýnni hugsun í stað leiðinda karps, það er ögrandi nýbreytni. Samræða og rökræða er æfð með því að skiptast skoðunum og greina kosti og galla hugmynda. Það má greina vísi að nýju valdi um þessar mundir og það vekur mörgum ugg í brjósti.
Vissulega er holóttur vegur framundan í þeirri viðleitni að skapa lýðræði með nýrri stjórnarskrá. Ríkjandi tíðarandi krafsar í bakkann, kemst aftur upp á veginn og reynir að níða niður af sporgöngufólki skóinn.
Hefðbundin, vanabundin hugsun bregst iðulega illa við við nýjungum og tilraunum. Fólki er oft stillt upp við vegg til taka afstöðu með eða á móti, segja umhugsunar- og umbúðalaust já eða nei eins og ekkert sé á milli. Ekki er gert ráð fyrir samtali, samráði eða visku, aðeins einni beinni línu. Meira af fávisku, minna af visku. Það getur vissulega verið hættulegt að hugsa málið, því efinn er upphaf af breytingu.
Allt hefur sinn tíma
Hver tíðarandi líður óhjákvæmilega undir lok. Næsti tíðarandi hér verður, ef við viljum, fjölhyggjusamur. Hann lyftir því sem hefur gildi, teflir ekki fram einni lausn, heldur mörgum samofnum. Hann er ekki átakasækinn heldur mildur, friðsamur og víðsýnn. Aðferðin felst í því að beita uppbyggilegri gagnrýni, greina, skýra og miðla á faglegan hátt. Aðferðin er ekki ný heldur felst nýjungin í því að læra hana og að beita henni til frambúðar.
Tíðarandi fjölhyggju velur það sem hefur gildi hvaðan sem það kemur, setur í samhengi og tekur tillit til hagsmuna næstu kynslóðar.
Úrtölufólk verður eflaust hrætt og telur kjarkinn úr þjóðinni. Tálmar verða reistir, gryfjur grafnar, hindranir strengdar, fótakefli og fyrirstöður, torfæri og torveldi. En umskiptin eru á næsta leiti.
Ný tíð – hvernig er hún? Hún kýs gildi fremur en stjórnmálastefnur, hvetur fólk til að sameinist um valin þjóðgildi og setja sér markmið út frá þeim í stað þess að karpa út frá misgóðum hagfræði-, og stjórnmálakenningum og hagsmunum sem vilja láta fáa sitja skör hærra en almenning.
Nýr tíðarandi þarf nýja stjórnarskrá sem eflir friðsæld, öryggi, heill og hamingju almennings og jöfnuð, réttlæti, virðingu, samábyrgð og lýðræði komandi kynslóða og dýpkar ábyrgðina á landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.
Gamli tíðarandinn vek ekki úr vegi 2008, ekki 2010, ekki 2012 og ekki heldur 2013 en hann er samt „feigur og farinn á taugum“ og valdið stendur taugaveiklað á tánum, „gagnslaust og gisið“. Ný tíð svífur enn yfir vötnum … eins og fugl sem hikar við að setjast á tjörnina.
Framtíðin er val, hún er mótuð af hugrekki þeirra sem stíga lífsgönguna á hverjum tíma. Hún er ýmist fram eða aftur, í hring eða spíral í meðvindi eða mótvindi tíðarandans. Gangan á milli þess sem er og þess sem verður tekur á, hún þarfnast þolinmæði og úthalds göngufólks.
Tíminn er afstæður en gamli tíðarandinn mun loks hopa á fæti og næsti tíðarandi verður fjölhyggjusamur – ef við viljum. Biðin varð lengri en búast mátti við en engin ástæða er til að missa vonina.
Veturinn vill ekki víkja – en mun að lokum bresta - í grát.
Athugasemdir