Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Miðflokksmenn á orkudrykkjum - eyða orkunni til einskis

Miðflokksmenn á orkudrykkjum - eyða orkunni til einskis

Að horfa Miðflokksmenn fjalla um 3ja orkupakka ESB er eins og að horfa á lélegustu tegund af sápuóperu.

Undanfarið hafa Miðflokksmenn, sem allir fara væntanlega fram í skjóli ,,skynsemishyggju" leiðtogans, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, bókstaflega tekið Alþingi í gíslingu og talað linnulaust í nokkra sólahringa.

Dettur manni í hug að þeir séu allir í einhverri hvínandi orkudrykkjavímu, jafnvel í bullandi koffínfráhvarfi!

En þeir eru að eyða orku sinni, sem og orku þingsins til einskis. Einfaldlega vegna þess að það er yfirgnæfandi þingmeirihluti fyrir málinu.

Umræðuformið er líka einstaklega skemmtilegt, þar sem þeir sjálfir flytja ræður, svara svo hver öðrum, vitna hver í annan og svo framvegis.

Í umæðunni þann 22.maí komst Bjarni Benediktsson skemmtilega að orði, en efnislega sagði hann að Miðflokksmenn væru mjög ,,rakalausir" þegar menn kæmust í alvöru umræður við þá um þetta mál.

Einnigi má nefna að umræða Miðflokksmanna hefur nánast ekkert skemmtigildi, hér eru engir skemmtilegir hagyrðingar á ferð, engar gamansögur, stökur eða þjóðlegur fróðleikur (sem er skrýtið frá landsbyggðaflokki eins og Miðflokknum), en það kannski kemur, enda þingmenn flokksins væntanlega ekki hættir að tala.

En að öllu gamni slepptu, þá er sennlegasta skýringin á þessu málþófi Miðflokksmanna,  einfaldlega sú að hér eru athyglissjúkir þjóðernispópúlistar á ferð, sem vilja vekja athygli á sjálfum sér og tala niður Evrópusambandið í leiðinni.

Þeir virðast líka illa haldnir af vænissýki, halda því statt og stöðugt fram að ESB sé að seilast eftir auðlindum okkar. Sem er einmitt rakalaust bull, eins og Bjarni Benediktsson sagði. ESB hefur ENGAR auðlindir tekið af Íslandi og leggur ekki i vana sinn að hrifsa auðlindir af aðildarþjóðum.

Það er enginn að hlusta, þingsalurinn er tómur, en Miðflokksmenn mala og mala og mala um þetta mál, sem verður afgreitt með yfirgnæfandi meirihluta, þegar þessari vitleysu og orkusóun linnir.

Það þyrfti kannski (og væri skynsamlegt = í anda skynsemishyggju) að ræða það af fullri alvöru hvort ekki ætti að breyta þingsköpum, til að koma í veg fyrir í framtíðnni, farsa, eins og þann sem Miðflokksmenn bjóða nú upp á. Þetta er hreinlega sóun á almannafé!

Þetta hefur ekkert með upplýsta umræðu að gera, hér býr eitthvað allt annað (og  aðrar hvatir að baki), jafnvel að leiðtogi flokksins sé mögulega með svokallaðan Messíasarkomplex.

Ps. Bendi svo áhugasömum á góða grein í nýjasta hefti Þjóðmála eftir Björn Bjarnason, fyrrum ráðherra, þar sem hann jarðar málið og málflutning andstæðinga þess.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni