Þessi færsla er meira en ársgömul.

Svarti bletturinn á sögu Rússlands

Svarti bletturinn á sögu Rússlands

Mánudaginn 9.maí verður Vladimír Pútín á Rauða torginu í Moskvu að fagna og sýna sig. Þá mun hann fagna sigrinum yfir nasistum í seinni heimsstyrjöld. Hinum alvöru nasistum, Adolf Hitler og félögum.

Sigurdagurinn er sennilega einn heilagasti dagur rússneskrar sögu, en af nógu er að taka.

Dagurinn er eiginlega risastór goðsögn, þar sem ættingjar þeirra sem féllu ganga um götur Moskvu með myndir af þeim, því sagt er að þeir lifi með okkur áfram.

Sigurdagurinn teygir sig ofan í dýpstu rætur rússnesku þjóðarsálarinnar. Sigurfáninn, sem hermenn Rússa flögguðu á frægri ljósmynd þegar þeir höfðu náð Berlín, er nánast heilagri en allt heilagt í Rússlandi og er gjarnan notaður á 9.maí.

Rússar misstu allt að 27 milljónir manna í baráttunni við nasista og án þeirra framlags hefði stríðinu kannski ekki lokið árið 1945. Barátta Rússa og fórnir þeirra eru einn merkasti kaflinn í sögu seinni heimsstyrjaldarinnar, þeir komu eins og stormur úr austri.

En dagurinn í ár stendur mun standa í skugganum á því sem sennilega verður einn svartasti bletturinn á rússneskri sögu; hin grimmilega innrás ,,eilífðarforsetans“ (óhætt að kalla hann það) Vladimírs Pútíns.

Ljótari eftirskrift er varla hægt að hugsa sér, þ.e.a.s að vera maðurinn sem vegna hræðslu um eigin völd réðist á bræðraþjóð sína og framdi þar hroðaleg grimmdarverk. Allt í nafni lyga og uppspuna. Og til að hindra það að Úkraínumenn fengju að þróast og þroskast sem lýðræðisþjóð. Þá tilhugsun þoldi ekki forseti Rússlands, sem nú er einræði undir stjórn ,,hins flokkslausa“ Pútíns. Því enginn er kommúnistaflokkurinn (á tímum Sovétríkjanna) eða annar flokkur sem getur veitt aðhald. Hann er raunverulegur einvaldur.

Pútín er smám saman að breyta Úkraínu í eina risastóra Dresden, sem er að kaldhæðnislegt í ljósi þeirrar staðreyndar að hann var sjálfur staðsettur sem KGB-maður í þeirri borg.

Dresden var nánast jöfnuð við jörðu af Bandamönnum í seinna stríði, ásamt borgum eins og Leipzig, en báðar höfðu ekki afgerandi hernaðarlegt gildi. Engu að síður voru þær  svo til þurrkaðar út af landakortinu. Fleiri mætti nefna, t.d. Köln og Hamborg, en í raun var allt Þýskaland rjúkandi rúst eftir seinna stríð.

Það sama er uppi á teningnum í hinum ýmsu borgum Úkraínu, t.d. Kharkiv, Mariupol og Irpin. Rússneski herinn fer um Úkraínu um eins og ,,maðurinn með ljáinn“ og eirir engu; konur, börn, gamalmenni, og aðrir óbreyttir borgarar liggja eins og hráviði á götum borga landsins. Margir teknir af lífi án dóms og laga. Stríðsglæpir eru staðreynd og verða því enn einn smánarbletturinn á ferli Vladimírs Pútíns.

Aðfaranótt áttunda maí sprengdu Rússar upp skóla í bænum Bilohorivka í Luhansk-héraðinu í A-Úkraínu, talið að um 60 hafi látist. Óbreyttir borgarar höfðu leitað sér skjóls í skólanum. Þetta er stríðsglæpur. Hvað gengur Rússum eiginlega til?

Eitthvað til að halda upp á þann níunda maí, eða hitt þó heldur.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu