Þessi færsla er meira en ársgömul.

Hálft ár frá innrás Rússa í Úkraínu - ítarleg umfjöllun í Stundinni

Hálft ár frá innrás Rússa í Úkraínu -  ítarleg umfjöllun í Stundinni

Um þessar mundir er hálft ár frá því að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, skipaði her sínum að ráðast inn í Úkraínu og hefja þar með mesta stríð í Evrópu sem geisað hefur þar síðan seinni heimsstyrjöld lauk.

Í nýjasta hefti Stundarinnar er ítarleg umfjöllun eftir undirritaðan um málið og meðal annars er þar að finna viðtal við tvo af helstu sérfræðingum Svíþjóðar um málið, sagnfræðiprófessorinn Kristian Gerner og Martin Kragh, sem er Rússlandssérfræðingur hjá Utanríkimálastofnuninni í Stokkhólmi (Utrikespoitiska Institutet). Hann gaf nýlega út bók um Rússland; ,,Hið fallna heimsveldi: Rússland og Vestrið á tíma Vladimírs Pútín."

Hér eru nokkrar tilvitnanir úr grein minni:

,,Innrásarstríð Vladimírs Pútins inn í Úkraínu hefur nú staðið í hálft ár. Það hófst þann 24.febrúar síðastliðinn þegar hann skipaði her sínum að ráðast inn í eitt stærsta ríki Evrópu, sem bæði er sjálfstætt og fullvalda. Á þeim tíma hafa herir Rússlands valdið gríðarlegri eyðileggingu, sem líkja má við að risastór skemmdarvargur gangi laus í landinu."

,,Stríðið hefur leitt til gríðarlegra verðhækkana um allan heim á ýmsum vörum og sérfræðingar tala um stríðið sem ,,hinn fullkomna storm“ (e.perfect storm), þar sem saman fara áhrif loftslagsbreytinga, afleiðingar kóvid-heimsfaraldurs og svo stríðið sjálft."

,,Stríðið í Úkraínu er ekki borgarastríð, þar sem ein þjóð er að berjast innbyrðis, að halda öðru fram er sögufölsun. Stríð Pútíns gegn Úkraínu eru hreinræktað innrásar og landvinningastríð upp á gamla mátann. Tvær þjóðir berjast, þjóðir sem þó eiga um margt sameiginlegar rætur og sögu, sem nær í raun aftur til 10.aldar."

,,Innrás Rússlands í Úkraínu hefur sett allt á annan endann í Evrópu, með hrikalegum hækkunum á meðal annars matvæla og eldsneytisverði og gríðarlegri verðbólgu. Í Tyrklandi hefur hún mælst allt að 80%. Á Evrusvæðinu var verðbólga um 9% í júní, sem er það mesta sem mælst hefur. Svipaða sögu eru að segja bæði héðan frá Íslandi og í Bandaríkjunum."

Úr viðtali við sænska sérfræðinga: 

,,Stundin spurði um stöðuna í Donbass, austurhéruðum Úkrainu (sem Rússar ráða nú nánast) og um hana sagði Kristian Gerner: ,,Rússar eru á góðri leið með að eyðileggja risastórt iðnaðarsvæði, sem gerir það í raun að byrði á rússneska ríkinu. Í raun er þetta hjarta iðnaðar í landinu. Síðan þarf að byggja þetta allt upp. Rússland fær ekki neinn alþjóðlegan stuðning til þess, en Úkraína mun að öllum líkindum fá stuðning. Aðfarir Rússa eru í raun mjög heimskulegar,“ sagði Gerner."

Mynd: Wikmedia Commons

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni