Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Blóði drifinn draumur - fyrri hluti: Stóra stökkið

Blóði drifinn draumur - fyrri hluti: Stóra stökkið

Í byrjun júlí birti sendiherra Kína á Íslandi grein í tilefni af aldarafmæli Kommúnistaflokks Kína, sem hefur stjórnað landinu frá byltingunni sem Maó og félagar gerðu árið 1949. Þá komst Kína undir stjórn kommúnista og alræðis þeirra og er þar enn.

Grein sendiherra Kína, Jin Zhijian, er ein allsherjar lofrulla um um ,,afrek“ flokksins við að stjórna og halda landinu saman. Vissulega hefur það verið gert, en með ógurlegum tilkostnaði.

Í þessari grein mun ég fjalla lítillega um þá hræðilegu glæpi sem framdir hafa verið í nafni kínverska kommúnistaflokksins og kostað hafa tugi milljóna mannslífa, en Kínverjar eru um 1,4 milljarður manna. Aðalpersónan er einn helsti einræðisherra 20.aldarinnar, Mao Zedong, einnig skrifað Mao Tse-tung. Draumur hans var að koma á kommúnísku samfélagi. Þetta er fyrri hluti umfjöllunar minnar.

Í borgarastríðinu í Kína börðust kommúnistar undir stjórn Maó gegn þjóðernissinnum undir stjór Chiang kai-Shek, en sá hafði stjórna lýðveldinu Kína frá 1928. Hann barðist einnig gegn Japönum í seinni heimsstyrjöldinni. Að henni lokinni barðist flokkur hans, Kuomintang gegn Maó og félögum í fjögur ár og talið er að um 2,5 milljónir manna hafi fallið í þessum átökum, sem sem kallað er Kínverska borgarastíðið. Því lauk með að þjóðernissinnar flúðu og stofnuðu ríki á eyjunni Taiwan (Tævan), sem stjórnvöld í Peking segja enn að tilheyri Kína.

Undir stjórn Maó var sett á fót alþýðulýðveldið Kína, samkvæmt marxískri hugmyndafræði um eign ríkisins á öllum framleiðslutækjum og alræði flokksins. Á þessum tíma var Kína bláfátækt landbúnaðarsamfélag, nokkuð sem hefur breyst verulega, komum kannski að því síðar.

Um Maó hefur verið sagt að hann hafi ekki treyst neinum nema einkalækni sínum, Li Zhisui, sem reyndar gaf út mjög áhugaverða bók um Maó, bók sem að sumra mati er ein besta bók sem skrifuð hefur verið um nokkurn einræðisherra.

,,Stóra stökkið“

Maó gerði sig sekan um hrikaleg mistök og glæpi gegn kínversku þjóðinni á þeim tæpu 30 árum sem hann var einvaldur í Kína. Byrjum á því sem kallast ,,Stóra stökkið“ ( ,,The Great Leap Forward“) frá 1958 til 1962. Það var í raun efnhagsaðgerð, eða efnahagsherferð (,,campaign“) sem miðaði að því að koma á kommúnísku samfélagi og stórauka framleiðslu á landbúnaðarafurðum.

Bæði Kína og Sovétríkin höfðu á undanförnum áratugum ávallt verið að reyna að ná að jafna og helst fara fram úr andstæðingum sínum, vestrænum kapítalískum samfélögum, er varðaði framleiðslu, t.d. á stáli og öðru slíku. Til þess voru notaðar svokallaðar ,,fimm-ára-áætlanir“.

Stóra stökkið var í raun ein allsherja samyrkjuvæðing landbúnaðarins í Kína, þar sem bændur þurftu að láta framleiðslu sína í hendur ríksins og héldu því nánast engu fyrir sig sjálfa. Gerðar voru kröfur í Peking (les: frá Maó) um síaukna framleiðslu og því voru menn fljótir að grípa til lyginnar og falsa tölur um raunverulega framleiðslu á risastórum samyrkjubúum og í ,,kommúnum“ (,,kommúnismi“!) þar sem fólk lifði og starfaði.

Þetta fyrirkomulag var líka notað með slökum árangri í Sovétríkjunum sálugu (1922-1991), en þau náðu aldrei álíka þróun í framleiðslu neysluvara eins og Vesturlönd og ríkti viðvarandi skortur á fjölmörgum neyslumvörum og biðraðir í búðum algeng sjón allt fram að falli þeirra.

Afleiðingar Stóra stökksins í Kína voru ekki stórt stökk, heldur risastór hungursneyð, þar sem talið er að tugir milljóna manna hafi látist, hófsamar tölur eru á bilinu 25-30 milljónir, en hærri tölur hafa nefndar, allt að 50 milljónir.

Þá er talið er að um 2,5 milljónir hafi verið myrtar og allt að 3 milljónir manna hafi svipt sig lífi á þeim fjórum árum sem þessi hrikalega aðgerð stóð yfir. Stór hluti þess korns sem ræktað var á þessum tíma var flutt út til Sovétríkjanna, til að borga skuldir Kína.

Hungursneyðin var meðal annars tilkomin vegna þess að kornframleiðslan var undir væntingum og skellti Maó skuldinni á spörfugla landsins, sem og rottur. Því var blásið til ,,stríðsins gegn spörfuglunum“ (og líka rottum). Milljónir, jafnvel tugmilljónir fugla voru drepnir, en afleiðing þess var að þá áttu sníkjudýr (sem fuglarnir annars átu) áttu nú greiðan aðgang að uppskerunni. Því versnaði bara vandinn og er þetta auðvitað bara dæmi um þegar fáfræðin og fákunnátta fá að stjórna.

,,Stór stökkið“ er talið vera stærsta manngerða hungursneyð í sögu mannkyns. Í bók Liu kemur fram að Maó hafi vitað af dauða milljóna manna en hafi lítt gefið því gaum og í raun verið sama. Árið 1954 á Maó að hafa sagt í ræðu í Moskvu að Kína gæti alveg misst 300 milljónir í stríðsátökum, eftir það væri samt sem áður fullt af fólki eftir! Sama á hann að hafa endurtekið í samræðum við sendifulltrúa frá Júgóslavíu í Peking árið 1957, en þá með kjarnorkusprengju í huga.

Á tíma ,,stóra stökksins“ átti einnig að koma á iðnvæðingu og sýna fram á gríðarlega framleiðslu á málmum. Því var allur tiltækur málmur í Kína bræddur og út um allt landið var almenningur að bræða málma á víðavangi og í bakgörðum, t.d. öll áhöld sem það átti til matargerðar. Þessu lýsir einkalæknir Maós meðal annars í áðurnefndri bók og þar kemur einnig fram að allar þessar aðgerðir hafi í raun verið til einskis, málmurinn var ónothæfur. Til að kynda ofnana notaði fólk t.d. húsgögnin sín sem eldivið, nánast allt sem gat brunnið, var brennt. Tök Maós á fólkinu voru nánast alger og persónudýrkunin botnlaus og hann tilbeðinn eins og guð.

Þetta var fyrri hluti umfjöllunar minnar um glæpi kínverska Kommúnistaflokksins gegn kínversku þjóðinni. Í seinni hlutanum verður meðal annars fjallað um það sem kallað var ,,Menningarbyltingin.“

Helstu heimildir:

The Private Life of Chairman Mao, eftir li Zhisui.

Svartbók kommúnismans, ýmsir höfundar.

Governing China (vol.2) eftir Xi Jinping.

Fréttavefur BBC.

Wikipedia.

Fréttablaðið.

Mynd: Wikimedia Commons.

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Nýtt efni