Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Almenningur í öðru sæti?

Almenningur í öðru sæti?

Heimurinn glímir við kóvid19 sem aldrei fyrr, hún er þrautseig þessi fjandans veira (afsakið orðbragðið). Þegar þessi orð eru skrifuð bárust fréttir þess efnis frá Brasilíu að um 4000 manns hefði látist á einum degi. Það er álíka og allir íbúar Vestmannaeyja. Á einum degi!

En það er ólga í umræðunni um kóvid hér á landi og nú þegar sól hækkar á lofti getur maður ekki varist þeirri tilhugsun að nú sé verið í raun að fórna almannahagsmunum á kostnað sérhagsmuna, þ.e.a.s ferðaþjónustunnar, með aðgerðum yfirvalda.

Frasinn ,,smit á landamærnum" heyrist æ meir og búið er boða komu um 140 skemmtiferðaskipa í sumar. Er það ráðlegt?

Það vita allir að hagsmunir ferðaþjónustunnar eru miklir, en hvað með hagsmuni hins almenna borgara, hins almenna Íslendings? Maður hefur það virkilega á tilfinningunni að þeir séu í öðru sæti í þessu samhengi.

Það er að mínu mati einfaldlega ekki í boði að hér verði opnað með þeim hætti að það tefli hagsmunum almennings í hættu. Það VERÐUR að sýna hörku á landamærunum og teppa fyrir þau eins og kostur er. 

Það muna allir hvað gerðist þegar "Frakkarnir tveir" komu hingað síðsumars í fyrra. Þá fór allt í bál og brand. Vegna tveggja einstaklinga!

Gerum bara eins og í fyrra; græjum nýja ferðagjöf og látum Íslendinga sjálfa um að halda hjólum hagkerfisins gangandi. Við erum jú svakaleg neysluþjóð og alveg til að halda því áfram - innanlands og ósmituð!

Glutrum sumrinu ekki niður!

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni