Ég er að eldast. Mig hefur lengi dreymt um að fá áhuga á garðrækt. Þótt ekki sé nema til að hugsa um nokkur blóm. Ég hef haft nokkur inniblóm, en þau hafa öll drepist. Ég hef horft á þau og hugsað „nú þyrfti ég að vökva“ en ég gerði það ekki og á endanum drápust blómin auðvitað. Furðuleg framkoma verð ég að segja. En núna er eitthvað að gerast. Ég er með nokkur pottablóm úti á svölum og mér þykir svo gaman að horfa á þau og fylgjast með þeim. Ég annast þau. Gef þeim að drekka og færi þau til og frá svo þau geti fengið nóg af sólargeislum. Um daginn hafði dúkurinn úti á svölum lagst yfir tvær plöntur og þegar ég lyfti honum af þeim, lágu þær máttlausar og daufar í pottinum. Þetta fannst mér agalegt. Ég gaf þeim vatn og kom við þær á nærgætinn hátt. Ég fór svo inn að bardúsa í smá tíma en þegar ég kom aftur út höfðu þær þá ekki reist sig við og voru eiturhressar. „Oh, hvað þið eruð duglegar“ kom ósjálfrátt út úr mér, þannig að ég varð sjálf hissa. Þetta gladdi mig alveg ægilega.
Á Íslandi búa 6.107 börn við fátækt og þar af um 1500 sem lifa í sárri fátækt. Það er alltaf verið að taka út hve margir lifa í fátækt. Birta nýjustu tölur. En hvað er gert?
Jú, það er alveg verið að gera fullt, en ekki nóg greinilega. Obbinn af Íslendingum er gott og hjálpsamt fólk. Hver einasta söfnun gengur vel og fólk er til í að taka þátt í alls konar viðburðum og styrkja í leiðinni gott málefni. Og hér eru hvað margar hjálparstofnanir? Mæðrastyrksnefnd, Hjálparstofnun kirkjunnar, Fjölskylduhjálpin, Rauði krossinn, Hjálpræðisherinn, Samhjálp, að ég tali nú ekki um öll kvenfélögin, sem láta gott af sér leiða, já og einhver karlafélög líka. Svo er þjónustumiðstöð í hverju hverfi sem fólk getur leitað til. Það er líka fullt af ríku fólki sem gefur pening án þess að það beri á því og einnig fyrirtæki. En samt er ástandið svona? Hmm ...? (dvöl)
„Peningarnir eru svo frekir. Það virðist vera að þeir ráði alltaf ferðinni“
Það er af því að það eru of margir með alltof lág laun. Húsnæðismarkaðurinn er ógeð og það er ekki nema von að ástandið sé svona þegar stór hópur af fólki þarf að borga 2/3 af laununum sínum í húsnæðið. Ef þú hefur ekki bakland, ef þú átt ekki fjölskyldu sem getur stutt við þig, þá nærðu þér ekki út úr fátækragildrunni (dvöl). Peningarnir eru svo frekir. Það virðist vera að þeir ráði alltaf ferðinni. Í stað þess að hugsað sé um hagsmuni fjöldans. Það var einn hagfræðingur sem orðaði það svona, „við verðum alltaf að láta hagfræðina ráða, hvort sem það er fyrir einstaklinginn eða fjöldann.“ (þögn)
Það er erfitt að eiga mikla peninga. Það er svo mikil hætta á að þeir rýrni. Það verður að gera allt til þess að þeir dafni og stækki. Þetta er mikið álag. Og svo hvað? Þú hverfur af þessari jörðu og skilur allt eftir? Það er fátækur maður sem á ekkert annað en peninga.
Mig langar í lokin á þessum pisli að leyfa ykkur að lesa bréf sem ég skrifaði níu ára til foreldra minna. Ég fór í sumarbúðir að Eiðum, og ekki man ég annað en að það hafi verið mjög gaman. Svo fann ég þetta bréf bara í gær og þar er pínu annað hljóð í strokknum. Ég fór að hugsa, „bréf segja ekki endilega alltaf satt.“
Svona er bréfið stafrétt:
Komið þið öll blessuð og sæl. Mér líður bara vel. Það er ekkert sérlega gaman hér við komu firstar á eiðar. Dagarnir eru allir eins við förum að sofa kl.11.3o og vöknu kl 8.3o þá er tekið upp fánan og svo er drukið morgunkaffi ég þarf að borða 5 sinum á da það er kvöldvaka á hverju kvöldi ég er með 4 öðrum stelpum í herbergi þær heita Anna Kata Magga og Helga við föru í íþróttir á hverjum degi íþróttakennarin heitir Laufei við höfum 1 sinni farið á báta og líka 1 sinni í sund við löbbuðum upp að lagafljóti á fimtudagin á leiðinni sáum við hreiður með 5 ungum þega við vorum komin að lagfljti sáum við 6 hreindír
nú hef ég bara að hætta veriði nú öll blessuð og sæl
Lolla
Athugasemdir