Klukkan er 03:14 á aðfararnótt laugardags og ég ligg upp í rúmi andvaka. Hvað getur mögulega svæft mig einmitt núna? Tvennt um að velja: Hlusta á youtube myndband sem heitir ‘’Deep Sleep Meditation 2 Hours - Inner Peace Music To Help You Sleep’’ eða lesa hinn nýfallna Hæstaréttardóm nr. 478/2014 í BK-málinu.
Erfitt val en auðvitað vel ég BK-málið. Umboðssvika-, markaðsmisnotkunar- og ársreikningahugtök ættu að svæfa mig innan nokkurra mínútna. Lestur hefst. Eitthvað allt annað en þreyta tekur þó því miður óvænt yfir þar sem að geðshræring og tilfinningaólga heldur mér vakandi út nóttina.
BK-44 seldi bankanum 120.000.000 hluti á genginu 14,95 fyrir 1.794.000.000 kr. Sama dag seldi bankinn Glitnir hf. BK-44 aftur 120.000.000 hluti á genginu 14,95 og keypti síðan bréfin strax á ný á genginu 31,82 fyrir 3.818.400.000 kr.
Ég stend upp og labba um gamla æskuherbergið eins og taugaveiklaður Woody Allen. Já, ég er staðsett út á Álftanesi í foreldrahúsum svo ég get sem betur fer skriðið upp í til mömmu þegar ég klára loksins þennan 75 blaðsíðna lestur. Ég leggst aftur upp í rúm og held áfram að lesa. Ástandið sem ég er komin í minnir mig á tilfinningarnar sem vakna þegar ég les eða horfi á hryllingsmyndir. Gæsahúð, kaldur sviti og hræðsla. Ég horfi ekki á hryllingsmyndir en þegar ég er plötuð til að horfa á hryllingsmyndir næ ég yfirleitt að sannfæra sjálfa mig um að heimur hryllingsmyndarinnar er gerviheimur sem ég bý ekki í.
Ég laumast inn í svefnherbergi til foreldra minna, færi pabba til hliðar og treð mér á milli þeirra, djúpt inn í fang mömmu. Fæ flashback til stingandi æskuminningar þar sem ég lá á nákvæmlega sama stað, líklega 7 ára og starði upp í loftið andvaka. Þar sem ég var ekki lítill baby Einstein eða Mozart í æsku, lá ég ekki andvaka yfir virkni og fúnksjóni bankakerfa, heldur var ég að upplifa eitt af þessum klassísku æsku mómentum sem börn ganga í gegnum á ákveðnum tímapunkti í lífinu þegar þau eru að uppgötva stærð heimsins. Ég var búin að læra örlítið um geiminn og átta mig á því hvað við mannfólkið erum óendanlega lítil í samanburði við þetta allt saman. Ég skildi ekki út á hvað lífið gengi. Ég mun alltaf muna eftir þessu því þetta var svo myndræn upplifun, eins og myndavél sem færðist hratt frá andliti mínu og upp, upp, upp, upp, upp þar til hún gat ekki mögulega farið lengra. Jörðin sást ekki lengur og þegar myndavélin var komin á kolbika svartan stað skaust hún aftur tilbaka til mín, liggjandi upp í rúmi á milli foreldra minna.
Ég er að upplifa nákvæmlega sömu tilfinningar og ég fann þarna 7 ára gömul. Kaldur sviti, gæsahúð og hræðsla. Hausinn að hringsnúast, velta fyrir mér tilgangi alls og hvað margt meikar bara einfaldlega ekki sens. Burtséð frá því hvort niðurstaða og refsing í BK- málinu hafi verið réttlát eða ekki, þá gefur þessi dómur áhugaverða innsýn inn í brenglaða viðskiptahætti. Rétt eins og alheimurinn, þá er þetta peningakerfi sturlað, óáþreifanlegt og svo yfirgrips mikið að það varla nær áttum. Líkt og með alheiminn, þá er ég pínulítil í samanburði við hið það. Annað en með hryllingsmyndir, þá bý ég í þessum heimi.
Athugasemdir