Á leið minni í skólann á sjöunda áratugnum, mætti ég Bjarna Benediktssyni, þáverandi forsætisráðherra, í Stakkahlíðinni. Hann tók mig tali, kynnti sig og spurði mig að nafni. Við spjölluðum um daginn og veginn. Þessi frjálslega aðferð við að kynnast var algeng í þá daga, kannski af því að andrúmsloftið var rólegra. Í dag göngum við ekki upp að hverjum sem er í verslunarmiðstöð og heilsum upp úr þurru. Við mættum samt vera duglegri við að bjóða ókunnugu fólki góðan dag, brosa eða kinka kolli glaðlega. Það auðveldar samskipti og gerir okkur léttari í lund. Stundum umgöngumst við fólk eins og það sé framliðið. Trúlega er þar feimni um að kenna, ég er til dæmis alltaf að þjálfa mig í að brjótast út úr skelinni.
Ég spurði mann, sem hefur einstaklega frjálslegt yfirbragð, hvort hann hefði fæðst svona. Það var öðru nær, hann sagðist hafa kvalist af feimni á unglingsárum. Hann eignaðist vin sem var alltaf kominn í hrókasamræður hvar sem er, í bankanum, á göngum, á stoppistöðinni.
Hann ákvað að fylgjast með því hvernig vinur hans færi að og taka hann sér til fyrirmyndar.
Hann ákvað að fylgjast með því hvernig vinur hans færi að og taka hann sér til fyrirmyndar. Hann byrjaði smátt, einsetti sér að bjóða alltaf góðan dag í lyftum og í heita pottinum. Það tók á í fyrstu, en hann fann að það léttist á mörgum brúnin. Auk þess varð hann svolítið upp með sér að hafa yfirstigið þennan þröskuld; sjálfsmyndin styrktist. Smátt og smátt óx honum ásmegin og frelsið færðist yfir á önnur svið hversdagsins.
Í viðskiptum og í formlegum boðum eru til gamlar (sumir myndu kannski segja úreltar) reglur um hvernig á að kynna sjálfan sig og aðra, en þó er ekkert vitlaust að hafa þær í huga, það auðveldar málið að eiga ákveðna aðferð í pokahorninu og við getum alveg verið frjálsleg þrátt fyrir það.
1. Segjum nafn viðskiptavinar fyrst þegar við kynnum hann fyrir fólki í fyrirtækinu
„Bjarni, þetta er forstjórinn okkar, hann Ólafur,“ eða ef við erum formleg: „Bjarni Guðmundsson (með uppsveiflu í röddinni) – Ólafur Guðbjartsson, forstjórinn okkar (með niðursveiflu í röddinni)“. Þetta er eiginlega eins og að halda dyrum opnum, konan gengur á undan karlinum, eldri fer á undan yngri og svo framvegis „Jónína, þetta er yfirkennarinn okkar, hann Sveinn.“ „Arnar, þetta er nýútskrifaður leikari, hann Jónas Freyr.“
2. Stöndum upp til að heilsa
Brosum, tölum skýrt, horfum í augu. Albert sambýlismaður minn virðist þekkja alla. Einu sinni heilsaði hann manni á bílakynningu. Síðan tók maðurinn í höndina á mér, en horfði áfram á Albert. Það var einkennileg tilfinning.
Svo er gott ráð að biðja einhvern sem maður treystir að taka í höndina á manni og segja hreinskilnislega hvað honum finnst. Sum handabönd eru dálítið skrýtin, til dæmis þegar höndin er máttlaus eins og volgt pasta, eða þegar maður er kraminn þannig að hringar skerast inn í fingur. Sumir ætla aldrei að losa takið og aðrir taka aðeins í fingurna...
3. Verum hreinskilin ef við munum ekki
Ég er ekki sá besti í að muna eftir andlitum eða nöfnum í seinni tíð. Þegar maður kannast við einhvern, en er ekki viss, er um að gera að höggva á hnútinn og spyrja strax.
Ef við munum eftir einhverjum sem virðist ekki kveikja, er best að hjálpa honum strax með því að segja frá sér. Aftur á móti eru athugasemdir eins og: „Þú manst greinilega ekki eftir mér“ eða „Manstu hvar við hittumst fyrst?“ ekki líklegar til að auðvelda samtalið.
„Takk fyrir síðast“ getur sett mann í bobba ef maður segir: „Sömuleiðis“, án þess að muna neitt. Best er að spyrja strax: „Já, hvar var það nú aftur?“ Þetta getur komið fyrir alla og allir taka því vel.
4. Kynnum fólk sem dregst inn í samtal
Stundum stendur maður á tali við einhvern þegar einhver annar kunnugur gengur framhjá og maður ávarpar hann. Þá kemur hann oft inn í samræðurnar, þótt hann viti engin deili á þeim sem maður var að tala við. Þægilegast er að kynna þá fljótlega eða strax, svo að þeir lendi ekki í að hittast og spjalla saman í bíó eða á bílaþvottastöð, en kunni ekki við að spyrja hver hinn sé eiginlega.
5. „Hafið þið hist?“ bjargar gleymnum
Ef maður man aldrei nein nöfn, er hægt að bjarga málunum með þessari spurningu. Þá heilsast þeir ókunnugu og kynna sig sjálfir. Ef þeir segjast þekkjast, verður bara að hafa það þótt maður haldi áfram að vera sá eini sem man ekki neitt!
Verum frjáls og sveigjanleg, verum eins við alla, háa sem lága, og umfram allt til í hlátur og grín eftir aðstæðum. Það er heilsubætandi! Gangi okkur vel.
Athugasemdir