Eftirfarandi er aðsend grein frá Einari Val Ingimundarsyni sem hefur verið stefnt af Landsbankanum til greiðslu á láni sem hann segir að hafi verið tekið með veði í hlutabréfum, sem starfsmenn bankans hafi boðið honum í stað þess að hann seldi hlutabréfin, eins og hann segist hafa viljað áður en hann fylgdi ráðgjöf þeirra.
Í haust verða liðin 7 ár frá hruni Landsbankans.
Þetta hafa verið mögur ár fyrir þá landsmenn sem treystu bankanum fyrir sparifé sínu.
Þúsundir íslendinga töpuðu óheyrilegum fjármunum hjá bankanum svo hleypur á miljörðum.
Fréttir hafa nú borist af því að slitastjórn gamla Landsbankans krefst hárra skaðabóta af þeim sem stjórnuðu bankanum 2008.
Hinn 16. nóvember nk. verður fyrirtaka í Héraðsdómi Reykjavíkur í skaðabótamáli slitastjórnar gamla Landsbankans gegn fyrrverandi bankastjórum bankans, fyrrverandi bankaráðsmönnum og sjö erlendum tryggingafélögum sem bankinn keypti stjórnendatryggingar af.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hljóða skaðabótakröfur slitastjórnarinnar upp á tugi miljarða króna og snúast aðallega um útstreymi fjár úr bankanum á síðasta starfsdegi bankans fyrir hrun, í októberbyrjun 2008.
Í umfjöllun blaðsins um mál þetta kemur fram, að hinir stefndu eru Sigurjón Þ. Árnason og Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjórar,
Jón Þ. Oddleifsson, fyrrverandi forstöðumaður fjárstýringar bankans og fyrrverandi bankaráðsmennirnir Kjartan Gunnarsson, Andri Sveinsson,
Þorgeir Baldursson og Svafa Grönfeldt. Loks er sjö erlendum tryggingafélögum stefnt, en fjárkröfur slitastjórnar beinast einkum að þeim.
Strax 2009 þegar starfsemi hinna einkavæddu banka var rannsökuð á vegum Alþingis kom margt gruggugt í ljós.
Í málaferlum sérstaks saksóknara undanfarin ár hafa verið dregin fram gögn um falsanir á skráðu gengi bankanna og hvers kyns önnur bókhaldsbrot
sem banksterarnir nefndu „creative accounting“ og glottu út í annað.
Á mæltu máli heitir þetta stórfelld glæpastarfsemi. Peningum venjulegra viðskiptavina var stolið með klækjum og flækjum sem mörg ár hefur tekið að vinda ofan af.
Viðskiptamenn bankans hafa verið furðu þolinmóðir (eða lamaðir) í þessi sjö ár. Kannski hafa menn farið hjá sér að láta plata sig svo illa og farið í felur.
Það lifnaði þó aðeins yfir um mitt sumar þegar Málsóknafélags hluthafa Landsbanka Íslands var stofnað á vegum Jóhannesar B. Björnssonar hjá Landslögum. Með hópmálsókn skal látið reyna á yfirtökuskyldu stærstu hluthafanna á árunum fyrir hrun.
Í þrotabú bankans gerðu margir kröfur sem hafa síðan gengið kaupum og sölum. Þeir sem djarfastir voru í kröfukaupum voru fljótlega kallaðir
„hrægammar“ og þóttu hið versta fólk - sem jafnvel ætti að ógna með haglabyssum til skelfingar!
Margir hafa þrifist vel á viðskiptum við þessa fugla, ekki hvað síst skilanefndir bankanna og vinir þeirra.
Neyðarlögin sem Geir Haarde skildi eftir sig reyndust hans besta stjórnarathöfn og bara að menn hefðu staðið við að borga ekki skuldir óreiðumanna!
Steingrími J. Sigfússyni fannst hann endilega þurfa að bæta um betur og fór að krafla í bankahaugunum. Þar gerðust myrkraverk sem þoldu ekki
dagsljósið í ein 110 ár. Óreiðumennirnir vörpuðu öndinni léttar og ráðherrann sem söng gjarnan um þjáða menn í þúsund löndum á tyllidögum tók að sér að varpa tvöföldu skuldaoki á þessa þjáðu vini sína. Snilld hans reis þó hæst þegar hann réð fyrrum fjármálasnilling Alþýðubandalagsins sáluga til að semja við Breta og Hollendinga um Icesave.
Bara að íslenskir sparifjáreigendur hefðu nú átt menn eins og Brown eða Darling á þessum tíma.
Eigendur íslenskra peningamarkaðssjóða þurftu að sætta sig við stórar afskriftir eigna sinna á meðan Icesave reikningseigendur fengu allt sitt innan árs.
Breskir bankar hafa nú sjálfviljugir greitt miljarða punda í skaðabætur vegna fjármálaglæpa í sinn ríkissjóð á meðan íslenskir ráðamenn hreykja sér af því
að skattleggja íslensk þrotabú. Þar með eru eignir og sparnaður Íslendinga í búunum gerðar upptækar en skuldugum landslýð greiddir smánarlegir 40 milljarðar til skuldalækkunar.
Nýr Landsbanki var stofnaður á rústum hins gamla og sérhannað gulrótakerfi fyrir „duglega starfsmenn“ - sem ætti ekki síður að kalla hrægamma.
Þeir skyldu eignast prósentur í hinum nýja ríkisbanka ef þeim tækist vel upp að kreista síðustu blóðdropana úr gömlum viðskiptamönnum þrotabúsins.
Þetta reyndist mjög hagkvæmt því flestir starfsmennirnir störfuðu líka í gamla bankanum og mundu vel eftir öllum slæmu ráðunum sem þeir gáfu og
vissu vel í hvaða ógöngum menn mundu lenda.
Á sama tíma og útibúum bankans er nú lokað blæs lögfræðideildin út og þarf brátt stærra húsnæði.
Gamlar kröfur eru sóttar í þrotabúið með 35 til 50 prósent afslætti (sjá skýrslu Alþingis að beiðni Guðlaugs Þórs).
Allt er innheimt á fullu og afkoma bankans ræðst fyrst og fremst af þessari okurstarfsemi. Hins vegar hefur salan á Borgun - án útboðs og niðurfelling
skulda vildarvina vart þótt gagnrýni verð í hugum stjórnenda.
Bankinn er náttúrlega að gera sér mat úr kennitöluflakki
Bankinn er náttúrlega að gera sér mat úr kennitöluflakki, þjóðaríþrótt íslenskra svindlara!
Eignir okkar eru gerðar upptækar í þrotabúum en skuldir rukkaðar á nýrri kennitölu í sjálfum ríkisbankanum!
Það er nú samt eitthvað til sem heitir „Siðasáttmáli Landsbankans“. Síðasta útgáfan frá 2013 og sennilega allir búnir að gleyma.
Þúsundir Íslendinga hafa orðið fyrir tjóni vegna starfsemi Landsbankans, bæði þess einkavædda og nú ríkisvædda.
Lærdómurinn af hruninu er aukin tortryggni í garð banka og stjórnvalda. Menn hafa þó haft nokkra trú á dómsvaldinu.
Jú, margir hafa verið dæmdir sekir en viðurlögin eru ekki mikil.
Því skyldu bankastjórar sem komið hafa tugum þúsunda á vonarvöl dvelja skemur innan múranna en Lalli Jóns?
Höfundur er verkfræðingur og ver sig sjálfur í skuldamáli Landsbankans gegn honum.
Athugasemdir