Helstu fjölmiðlar heims tóku sér fyrir hendur í gær að sýna fram á að það væri tómt rugl og þvættingur sem Trump Bandaríkjaforseti fullyrti fyrir nokkrum dægrum - að fjölmiðlar hefðu gert of lítið úr hryðjuverkum sem framin hefðu verið að undanförnu - og lá milli línanna hjá forsetanum að fjölmiðlarnir væru í reynd stuðningsmenn hryðjuverkmannanna.
Auðvitað var létt verk og löðurmannlegt að sýna fram að þetta væri bara þvæla. Þó hafði til dæmis einn Íslendingur - sem vill að tekið sé mark á honum í þjóðmálaumræðu - tekið að nokkru undir þetta, þótt hann segði að vísu að í þessum fullyrðingum væri „sannleikskorn“ og vildi brátt ekki kannast við að meira en einn prósent gæti hafa verið satt í þessu.
En að fjölmiðlar og málsmetandi fólk þurfi í fullri alvöru að standa í að ræða það hvort fjölmiðlar hafi vísvitandi gert of lítið úr hryðjuverkum - það er þvílíkur súrrandi galskapur að það er eiginlega hrollvekjandi í sjálfu sér.
En svona hefur þetta verið síðan maður þessi kom fram á sjónarsviðið sem stjórnmálamaður. Hann slær fram rugli, þvælu og hreinni og útspekúleraðri lygi, og allt í einu eru hugtök eins og „alternatífur sannleikur“ komin í alvöru í umræðuna.
Ég skil vel að fjölmiðlar vilji reka lygina ofan í Trump. Það er ekki annað hægt, því ef það er ekki gert, þá festir hún rætur í hugum furðu margra. Og aðrir fara að diskútera hvað sé nú annars sannleikur.
Það er skelfilegt að sjá og heyra þegar fólk veður uppi með lygar og vitleysu, en það má aldrei gefast upp fyrir slíku - þótt manni fallist stundum hendur yfir þvælu eins og þeirri sem berst nú frá Washington - og víðar.
Ég hef sagt það áður, og segi það enn: Trump er ekki hér. En við hér á Íslandi þurfum eins og fólk annars staðar að vera mjög á varðbergi gagnvart þeirri tilhneigingu að það sé allt í lagi að stjórnmálamenn ljúgi - það megi halda áfram að diskútera við þá eins og ekkert sé, einmitt eins og lygin sé bara alternatífur sannleikur.
Það var það sem var athugavert við viðtal við forsætisráðherra Íslands í Silfrinu á sunnudaginn var; hann var ekki látinn horfast í augu við eigin lygar.
Ég er ekki að biðja um að stjórnmálamönnum sé sýndur dónaskapur. Það á einmitt að spyrja stjórnmálamenn út úr af algjörri kurteisi. En hafi þeir logið, þá á að spyrja það um það hreint út.
Athugasemdir