Sjálfstæðisflokkurinn stendur líklega uppi sem stærsti stjórnmálaflokkurinn á Alþingi þegar talið verður upp úr kjörkössunum.
Þegar litið er til aðgerða og áherslna flokksins á liðnu kjörtímabili og þeirrar framtíðarsýnar sem hann boðar, þá sýnist mér atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum fela í sér nokkuð afgerandi skilaboð, til dæmis um eftirfarandi tíu atriði:
1. Það er allt í lagi – að minnsta kosti engin afsagnarsök – að skattamálaráðherra hafi átt aflandsfélag án þess að greina frá því í hagsmunaskrá Alþingis. Það er líka í lagi að skattamálaráðherra hafi gefið skattayfirvöldum rangar upplýsingar um aflandsfélagið sitt, ef það voru mistök af hans hálfu og hann gleymdi því bara hvar í heiminum 40 milljónirnar sínar væru geymdar.
2. Það er jákvæð og lofsverð þróun að skattbyrði lágtekju- og millitekjufólks þyngist meðan skattbyrði þeirra tekjuhæstu dregst saman.
3. Það er meira forgangsatriði að létta sköttum af útgerðarfyrirtækjum, stóreignafólki og ferðamönnum heldur en að tryggja að ný spítalabygging rúmist innan fjármálaáætlana hins opinbera.
4. Það er í lagi að svíkja kosningaloforð um grundvallarmál sem varða framtíð landsmanna ef hætta er á pólitískum ómöguleika.
5. Það er skynsamlegt að hið opinbera haldi fjárfestingarstigi hins opinbera áfram í sögulegu lágmarki næstu fimm árin, þrátt fyrir uppsafnaða framkvæmdaþörf, skemmda vegi og stórkostlega fjölgun ferðamanna.
6. Það er æskilegra að framlög hins opinbera til heilbrigðiskerfisins lækki sem hlutfall af vergri landsframleiðslu heldur en að þau hækki í samræmi við kröfu um 90 þúsunda landsmanna.
7. Það stríðir ekki gegn góðu stjórnmálasiðferði að stjórnmálaflokkar þiggi tugi milljóna í kosningasjóði sína frá útgerðinni á sama tíma og þeir lækka veiðigjöld sömu fyrirtækja og reyna að úthluta þeim drjúgan hluta alls makrílkvóta í landinu endurgjaldslaust til sex ára.
8. Það er góð hugmynd að leggja sérstakan skatt á sjúklinga með því að taka upp legugjöld á spítölum.
9. Það er æskilegt að halda íslensku háskólakerfi undirfjármögnuðu næstu fimm árin, þrátt fyrir þungar áhyggjur og viðvörunarraddir allra háskólarektora landsins.
10. Það er eðlilegt að fjármálaráðherra fundi með skattrannsóknarstjóra og eigi beina aðkomu að máli er varðar kaup embættisins á gögnum sem hafa að geyma upplýsingar um hans eigin aflandsfélag og félög föður hans og viðskiptafélaga, og dragi jafnframt upp þá mynd að það sé skattrannsóknarstjóri sjálfur sem tefji kaupin.

Skilaboð Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda kosninga hafa verið einföld og einkum snúist um tvennt. Í fyrsta lagi segist flokkurinn vilja lækka skatta á fólkið í landinu og í öðru lagi er því heitið að tryggður verði áframhaldandi stöðugleiki með ábyrgri efnahagsstjórn. Hvort tveggja hljómar ágætlega eitt og sér en virkar hins vegar eins og brandari þegar litið er til upplýsinga, sem allir kjósendur hafa greiðan aðgang að, um aðgerðir flokksins á kjörtímabilinu sem leið og framtíðarsýn hans fyrir hið næsta.
Að boða skattalækkanir en vilja þyngri
skattbyrði fyrir alla nema þá ríkustu
Eins og Stundin hefur fjallað ítarlega um undanfarna daga hefur skattbyrði lágtekju- og millitekjufólks, eða um 80 prósenta framteljenda, þyngst á árunum 2012 til 2015. Með öðrum orðum: álagðir beinir skattar hafa hækkað hlutfallslega meira en tekjur hjá flestum landsmönnum.

Einungis 20 prósent landsmanna njóta þeirra forréttinda að skattbyrði þeirra lækki. Á sama tímabili hefur virðisaukaskattur á mat verið hækkaður, en slík hækkun leggst eðli málsins samkvæmt þyngst á tekjulægstu heimilin, fólkið sem ver hæstu hlutfalli tekna sinna í kaup á nauðsynjavöru.
Einhver hefði kannski haldið að formaður flokksins sem talar hvað mest fyrir lægri sköttum hefði áhyggjur af þyngri skattbyrði venjulegs fólks. Hann brást hins vegar við umræðunni um skattastefnu ríkisstjórnarinnar með því að láta eins og hærri skattbyrði 80 prósenta landsmanna væri einhvers konar náttúrulögmál frekar en afleiðing pólitískra ákvarðana.
Indriði H. Þorláksson fyrrverandi ríkisskattstjóri og Stefán Ólafsson, félagsfræðiprófessor, bentu strax á gloppur í málflutningi Bjarna. Tengdasonur Bjarna birti þá pistil undir titlinum „Indriði jarðálfur“ sem Indriði svaraði svo í gærkvöldi.

Andsvar Bjarna sjálfs var furðulegra. Hann skellti fram línuriti á Facebook og fullyrti að í raun væru það „aðeins tekjuhæstu 30% framteljenda sem standa undir tekjum ríkissjóðs af tekjuskattskerfinu“.
Kvennablaðið birti frétt um Facebook-færsluna með groddalegri fyrirsögn: „Bjarni segir 70% fólks í raun bagga á ríkinu að því er varðar tekjuskatt“. Margir gagnrýndu framsetninguna og fullyrtu að Bjarni væri bara að „benda á staðreyndir“. En eins og sýnt hefur verið fram á var Bjarni ekki að benda á staðreyndir heldur misskildi hann línurit fjármálaráðuneytisins og gaf þannig ranglega til kynna að mun lægra hlutfall launþega greiði til samneyslunnar í gegnum tekjuskattskerfið en raun ber vitni. Það er auðvitað vanvirðing við vinnandi fólk og vandræðalegt fyrir mann sem er ráðherra skattamála á Íslandi.
Flumbrugangurinn og rangfærslurnar eru afhjúpandi og hjálpa kannski okkur kjósendum að skilja hvað kosningaloforðin þýða í raun og veru. Þegar sjálfstæðismenn segja „við viljum lækka skatta“ þá virðast þeir ekki vera að tala til allra heldur aðeins til sumra.
Auk þess hefur það lengi verið yfirlýst stefna hjá flokknum að afnema þrepaskiptingu tekjuskattsins (tilhögun í anda þess sem tíðkast í flestum vestrænum ríkjum), lækka fjármagnstekjuskatt og draga úr tekjujöfnunaráhrifum skattkerfisins. Ef skattastefna Sjálfstæðisflokksins fær að ráða för á næsta kjörtímabili verður skattbyrðinni áfram létt af hinum ríku og velt yfir á þá sem hafa minna milli handanna.

Hinn óbærilegi stöðugleiki tilverunnar
Hin mantra Sjálfstæðisflokksins í kosningabaráttunni hverfist um áframhaldandi stöðugleika og engar kollsteypur.
Verðbólga hefur mælst lítil á kjörtímabilinu, einkum vegna óvenjulítillar innfluttrar verðbólgu sem stafar m.a. af verðlækkun olíu og annarrar hrávöru. Hagvöxtinn má ekki síst þakka örum vexti ferðaþjónustunnar. Með öðrum orðum er stöðugleikinn að miklu leyti til kominn vegna utanaðkomandi þátta. Það ríkir vissulega góðæri í efnahagslegum skilningi, en þetta er góðæri sem margir taka varla eftir og fá ekki að vera með í.

Sumar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa verið til þess fallnar að tryggja stöðugleika. Aðrar alls ekki. Það að dæla út 80 milljörðum til að lækka verðtryggðar skuldir fasteignaeigenda – mest þeirra tekjuhæstu – er t.d. ekki aðgerð sem stuðlar að efnahagslegum stöðugleika.
Það sama gildir um skattalækkanir; þær auka peningamagn í umferð og þar með þensluna í hagkerfinu. Í þessu samhengi má rifja upp að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið var fundið sérstaklega að því að stjórnvöld hefðu ákveðið að lækka skatta á þenslutímanum í trássi við ráðleggingar sérfræðinga.

Á liðnu kjörtímabili hefur hið sama verið uppi á teningnum. Og um leið og skattalækkanir í þágu hátekjuhópa, stóreignafólks, útgerðarfyrirtækja, álframleiðenda og ferðamanna valda ríkissjóði tekjutapi hafa þær átt þátt í að auka við þensluna í hagkerfinu – sömu þenslu og ríkisstjórnin notar sem réttlætingu fyrir því að hið opinbera skuli halda að sér höndum í innviðafjárfestingum og fjármögnun grunnþjónustu næstu árin til að hagkerfið ofhitni ekki (reyndar er ástin á efnahagslegum stöðugleika ekki meiri en svo að þegar Seðlabankinn varaði við „sérlega bagalegu“ fyrirkomulagi og „innbyggðri sveifluaukandi reglu“ í ríkisfjármálaáætlun Bjarna Benediktssonar voru viðvörunarraddirnar hunsaðar).
Kannski mun ný ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins tryggja stöðugleika. En þá óttast ég að það verði stöðugleiki þar sem stöðugar fréttir berast af fjársveltu heilbrigðiskerfi; stöðugleiki þar sem innviðir grotna niður og vegir molna undan straumi ferðamanna vegna þess að stjórnarherrum finnst mikilvægara að létta sköttum af hinum efnameiri heldur en að halda grunnstoðum samfélagsins í lagi; stöðugleiki fjársveltrar lögreglu og undirfjármagnaðra háskóla, stöðugleiki klíkuráðninga og hneykslismála. Stöðugleiki hins stöðuga samkrulls stjórnmála og útgerðarvalds.
Í dag getum við breytt til.
Athugasemdir