Þjálfarinn skipaði okkur að sleppa skíðastöfunum og fara af stað í brautina. Um mig fór ískaldur hrollur. Ég var nokkuð viss um að ég myndi detta og jafnvel meiða mig. En ég hlýddi. Eftir að hafa riðað á fótunum dálitla stund náði ég jafnvæginu og rann rólega af stað inn í brautina og eftir förum sem höfðu verið mörkuð fyrir viðvaningana. Þetta var ekki merkilegt rennsli á heimsmælikvarða. En fyrir mig var þetta risastórt skref. Brjóst mitt fylltist sigurvímu. 50 ára gamalli bölvun hafði verið aflétt. Ég hafði horfst í augu við minn eigin ótta og að þessu sinni ekki litið undan. En það vóg einnig þungt á vogarskálinni að gönguskíði eru í tísku og sannkallað æði ríkir í landinu. Maður vill jú tolla í tískunni.
Óttinn
Ég var mættur á gönguskíðanámskeið í Bláfjöllum. Ástæðan var sú að gönguklúbbur minn, Sófistar, hafði fengið þá flugu í höfuðið að fara á gönguskíðum yfir jökul. Tilhugsunin ein skelfdi mig en svo lét ég tilleiðast og mætti til að læra undirstöðuatriðin. Þetta var í annað sinn á ævinni sem ég kom í Bláfjöll. Í fyrra skiptið var ég í hópi göngufólks Ferðafélags Íslands að læra um snjóflóð og það hvernig maður stöðvar sig í brattri hlíð með ísöxi. En skíði höfðu ekki verið á dagskrá þá fremur en áratugina á undan. Það var fátt í þessu lífi sem ég óttaðist meira. Og það var full ástæða til. Skíðaíþróttin hafði kostað mig meira en allt annað sport.
Nístandi sársauki
Bölvunin hafði dunið yfir fyrir hálfri öld. Eins og aðrir púkar á Vestfjörðum hafði ég stundað skíði af kappi. Og það hafði gengið á ýmsu í snarbröttum hlíðum fjallanna í Önundarfirði. Ég hafði dottið án teljandi skaða og jafnan risið upp aftur. En svo dundi ógæfan yfir á sólríkum degi. Ég var ásamt félögum mínum á skíðum við bæinn Garða, nokkru innan við Flateyri. Það var puðað upp brekkurnar og síðan renndi maður sér niður á miklum hraða. Lífið var dásamlegt. Erfiðið var verðlaunað með hraðri keyrslu og sælutilfinningu. En svo hafði ógæfan dunið yfir. Eftir öll þessi ár man ég ekki lengur öll atriði síðustu bununnar niður hlíðina. En ég man endalokin. Skyndilega skall ég á ójöfnu þar sem ég rann á miklum hraða niður fjallið. Og ég tókst bókstaflega á loft og skall svo í jörðina. Nístandi sársaukinn í hægri sköflungi var skýr vísbending um það sem hafði gerst. Ég veinaði af kvölum.
Skakkur fótur
Félagarnir hópuðust í kringum mig. Skakkur fóturinn undirstrikaði alvöruna. Sóttar voru sjúkrabörur og ég fluttur á sjúkraskýlið á Flateyri. Enginn læknir var á staðnum og ákveðið var að flytja mig til Þingeyrar, um 50 kílómetra leið og undir læknishendur. Mér var komið fyrir aftur í Landrover-jeppa og ekið af stað. Fljúgandi hálka var á veginum og bílinn á keðjum. Bíllinn hristist og skalf á leiðinni. Þrátt fyrir að ég hefði fengið sterk lyf var sársaukinn yfirþyrmandi. Þrátt fyrir að ég vissi að karlmenn ættu ekki að gráta réði ég ekki við mig. Tárin streymdu. Ferðalagið tók örugglega tvo klukkutíma og þjáningin á leiðinni hefur fylgt mér alla tíð síðan. Á Þingeyri fékk ég morfínsprautu sem fleytti mér í gegnum nóttina. Skoðun læknisins hafði leitt í ljós að sköflungurinn hafði kubbast í sundur. Það var ákveðið að ég yrði fluttur til Reykjavíkur morguninn eftir. Og það varð. Skíðaferðin endaði á Landspítalanum þar sem ég var skorinn upp og beinin skrúfuð saman. Tveimur mánuðum seinna kom ég heim á hækjum og með annan fótinn styttri.
Bugaður
Haustið eftir slysið var ég gróinn sára minna og beina og ætlaði ég að reyna aftur við skíðin. Sú stund er minnisstæð þar sem ég stóð 13 ára efst í brekkunni á skíðunum mínum og ætlaði að sigra minn eigin ótta. En ég gafst upp og klöngraðist varfærnislega niður á skíðunum. Ég gat ekki rennt mér. Kjarkurinn var enginn. Ég var bugaður af ótta. Skíðin enduðu í geymslu. Árin liðu og urðu að áratugum. Það lengsta sem ég gekk í vetraríþróttum var að renna mér niður Goðahólinn á snjóþotu. Stundum hugsaði ég til þess að fara á skíði en minningin um fótbrotið dugði til þess að ég hætti við. Ég lét stjórnast af eigin ótta.
Allt breyttist
Þrjátíu árum eftir slysið ákvað ég að skora óttann á hólm. Ég keypti mér rándýr gönguskíði og tilheyrandi græjur. Eftir að hafa dáðst að þeim um hríð lentu þau í geymslunni. Og þar eru þau enn og hafa aldrei verið notuð að neinu gagni. Mín skíðalausa tilvera hélt áfram í gegnum aðra tvo áratugi. Styttri fóturinn var mér stöðug áminnig um að ég og skíði ættum ekki samleið. En svo breyttist allt.
Á þeim tímamótum þegar 50 ár eru liðin frá slysinu á Görðum ákvað ég að það væri nóg komið. Ég gat ekki verið þekktur fyrir það að sitja eftir þegar félagar mínir í Sófistum færu um jökla og hjarnbreiður á gönguskíðum. Drangjökull og Vatnajökull eru á ferðaplaninu og þangað vil ég líka geta farið. Ég skráði mig á námskeið hjá skíðafélaginu Ulli og leigði utanbrautarskíði. Fimmtíu ára martröð var að baki. Eftir fyrsta tímann var ég alsæll. Ég hafði brunað óttalaus á skíðunum undir stjörnubjörtum himni. Tveir þjálfarar kenndu mér að beita skíðunum og stöfunum rétt og svífa áfram með sem minnstri fyrirhöfn. Gömlu, ónotuðu göngskíðin mín eru löngu úrelt. Á næstu dögum mun ég hugsanlega kaupa mér ný gönguskíði og halda á vit ævintýranna. 12 ára drengurinn sem fótbrotnaði á síðustu öld hefur sigrast á óttanum.
Athugasemdir