Ég þekki mann sem stundaði nám um tíma í Leníngrad. Þetta var á verstu árum Brésnéftímans. Kaldhæðni gagnvart samfélaginu og jafnvel lífinu sjálfu var algeng, drykkjuskapur hroðalegur og lifnaður á stúdentagörðum skrautlegur á köflum. Til að stemma stigu við ólifnaði var starfrækt nokkurs konar siðferðislögregla, sjálfboðaliðar sem fóru um stúdentagarðana á nóttunni, ruddust inn á herbergi til fólks að gá hvort það lægi saman eða væri að gera eitthvað annað en það sem góður kommúnisti átti að gera á nóttunni – sofa.
Þessi maður hugsar til siðalögreglunnar í Leníngrad þegar hann heyrir talað um siðareglur og um hann fer hrollur. Hann þolir ekki siðareglur – og ég verð að segja að ég skil hann að mörgu leyti. Það er eitthvað mannfjandsamlegt við þá hugmynd að við eigum hvert um sig að vera að vasast í málum annarra. Skipta okkur af því hvað náunginn gerir heima hjá sér eða á nóttunni eða að vera að hafa áhyggjur af lifnaði þeirra sem hafa aðrar þarfir og langanir en meðalgóðborgarinn. En þess vegna er svo mikilvægt að skilja að siðareglur, þrátt fyrir þetta vandræðalega nafn, ganga alls ekki út á slíka hluti, eins og ég hef stundum reynt að útskýra fyrir þessum sovétbrennda samstarfsmanni mínum, því miður án árangurs fram að þessu, að ég held.
Um þessar mundir er þingið að setja sér siðareglur og Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd stendur í ströngu við að fjalla um þingsályktunartillögu sem kveður á um slíkar reglur og sérstaka nefnd til að úrskurða um möguleg brot á þeim. Það hefur tekið þingið langan tíma að komast svo langt að leggja fram tillögu um þetta, en ætlunin var að klára málið fljótt loksins þegar það væri komið af stað. Til þess að vera ekki að finna upp hjólið var ákveðið að þýða bara og staðfæra reglur Evrópuráðsþingsins sem setti sér einfaldar og ágætar siðareglur fyrir einhverjum árum. Gott mál – finnst líklega flestum en þó vaknar augljós spurning: Til hvers? Hvað er það nákvæmlega sem þessar ágætu staðfærðu Evrópuráðsreglur eiga að gera fyrir þingið og þjóðina?
Ég held að ástæðan fyrir því að það lendir neðarlega á forgangslista stjórnmálamanna (og reyndar iðulega embættismanna líka) að setja sér og nota siðareglur sé sú að þeim finnst slíkar reglur annað hvort gera of mikið eða of lítið. Ýmist sjá þeir fyrir sér þefvísa siðapostula sem stöðugt eru að fitja upp á trýnið og finna að öllum sköpuðum hlutum, eða þeir skilja ekki hvernig í ósköpunum hægt er að beita reglum sem eru svo almennar að erfitt er að skera úr um hvort þær hafi verið brotnar í einstökum tilfellum.
„Á endanum er þetta spurning um forgangsröðun. Sé eitthvað mjög neðarlega í forgangsröðinni þýðir það bara að manni er sama um það.“
Þetta er dálítil synd, vegna þess að það lýsir blindu gagnvart því sem er lykilatriði fyrir allt stjórnmálafólk: Samskiptum við almenning. Við vitum ósköp vel að samskipti eru illmöguleg nema lágmarkstraust sé til staðar. Í persónulegum samskiptum er oft erfitt að lýsa því nákvæmlega sem í þessu trausti felst. Það er tilfinningalegt, jafnvel efnafræðilegt. En í opinberum samskiptum byggist traust á áreiðanleika, ábyrgð og fyrirsegjanlegum afleiðingum aðstæðna og atvika. Til þess eru lög að móta samskipti á ákveðinn hátt og gefa kost á viðurlögum þegar farið er út fyrir vel skilgreindan ramma. Siðareglur hjálpa bæði þeim sem þurfa að hlíta þeim og hinum sem þurfa að treysta á fagmennsku og heilindi í stofnunum samfélagsins til láta hlutina ganga rétt og eðlilega fyrir sig. Þær eru samskiptatæki, eitt af mörgum.
Þess vegna er í senn skondið og dapurlegt að horfa upp á ríkjandi stjórnmálaforystu misskilja hvert málið á fætur öðru. Einn ráðherra hrökklast frá vegna fullkominnar vanhæfni við að höndla samskipti við fjölmiðla og almenning í aðstæðum þar sem fullra heilinda var þörf. Sýnt er fram á það með einföldum og skýrum hætti að annar ráðherra hefur verið háður einkafyrirtæki fjárhagslega og greitt götu þess af sérstakri velvild á sama tíma. Á meðan flokkur hans og samstarfsflokkurinn leiðir málið hjá sér getur hann setið rólegur í sínu embætti þrátt fyrir það. Hrakfarir þessara ráðherra hafa ekkert að gera með þeirra persónulegu eiginleika. Þær varða opinber samskipti og traust og að til séu reglur, viðmið eða venjur sem setja skýra og metnaðarfulla mælikvarða um skilyrðin sem fólk þarf að uppfylla til að geta gegnt jafn ábyrgðarmiklu starfi og ráðherraembætti. Slík viðmið geta heitað siðareglur, en það má vel kalla þau eitthvað annað ef það hentar betur.
Málið er nefnilega það, að á meðan stjórnmálaleiðtogum þykir ekki taka því að setja markið hátt í þessum efnum, mun þeim líka reynast erfitt að byggja upp traust á stjórnmálum almennt. Það breytir engu hvort siðareglur eru þýddar og staðfærðar, eða hvort þingið segist vilja auka traust á sér eða stjórnmálum almennt. Á meðan prívatmetnaður einstaklinga ræður ferðinni og mestu skiptir að þessi eða hinn sé góður strákur, mun aðhlátur almennings að stjórnmálum og stjórnmálamönnum bara aukast.
Stundum dettur mér í hug (samlíkingin er án efa óviðeigandi) að ástandið í okkar íslensku pólitík í dag sé ekki ósvipað kaldhæðnisástandi Brésnéftímans. Við vitum að það er kjánalegt að siga siðferðislögreglu á liðið. En á sama tíma virðist undarlega út í hött að telja sig geta breytt vantrausti í traust með því að þýða reglur Evrópusambandsþingsins og gera úr þingsályktunartillögu. Vilji er allt sem þarf sagði einhver. Á endanum er þetta spurning um forgangsröðun. Sé eitthvað mjög neðarlega í forgangsröðinni þýðir það bara að manni er sama um það.
Athugasemdir