Sagt er að upplifanir barna í æsku komi til með að marka líf þeirra til frambúðar. Í janúar síðastliðnum setti ég mér óraunhæft markmið. Ég ákvað að hlaupa hálfmaraþon í næstkomandi Maraþoni Íslandsbanka. Til að safna pening fyrir líknarfélag, að sjálfsögðu. Enginn myndi annars með heilum hug taka slíka ákvörðun nema haldinn illri sjálfseyðingarhvöt. Í janúar var líkamlegt þol mitt á við nýgotinn kettling. Ég bý í tíu mínútna göngufæri við vinnustað minn, Landspítala. Í þau þrjú skipti sem ég hef rifið mig í gang og labbað í vinnuna hef ég mætt inn á vakt, lafmóð, perlusveitt og beðið hreinlega um að láta leggja mig inn. Þannig að vissulega var stórt verkefni framundan sem myndi krefjast sjálfsaga, þjáningar og skipulagshæfni. Í þessu ferli, sem gengur ágætlega, hef ég leitt hugann til grunnskólaáranna, nánar tiltekið leikfimikennslu.
Ég var barn í yfirvigt, með blæðandi magasár af streitu einn dag í viku, daginn sem var leikfimitími. Orð fengju því líklega aldrei lýst fyrirlitningu minni á íþróttum. Þessi klukkutími í helvíti, þar sem maður var látinn hlunkast nokkra hringi í kringum salinn, og svo hoppa yfir hest og labba á fimleikaslá án þess að hrasa með fæturna til hliðar og stórskaða á sér æxlunarfærin. Íþróttakennarar voru fyrir mér holdgervingar illsku. Röltandi um í Don Cano-göllunum sínum, með buxurnar gyrtar upp í herðablöð. Ég heyri enn skrjáfið í buxunum þeirra þar sem þeir stikuðu ákveðið þvers og kruss um salinn að garga á mann að hlaupa hraðar. Hoppa hærra. Ná boltanum og skora mark. Ég vissi fljótt að þetta yrði ekki mín sterka hlið í lífinu. Það lærðist snemma. Sást skýrt á einkunnaspjöldum. Ég var alltaf langt aftur úr í hlaupunum, kom síðust í mark og eyðilagði vonina um sigur fyrir boðhlaupsliðinu mínu. Var alltaf klukkuð fyrst í stórfiskaleik. En þetta eru ekki hlutir sem sitja í mér í dag.
„Margir minnast líklega ógeðslega píp-hljóðsins og „START LEVEL ONE“ með hryllingi og blæðandi tárum.“
Það tíðkaðist í þá daga einu sinni á misseri hverju að hafa svokallað Píp-test. PÍP-TEST. Ég veit að þessi orð leggja hroll niður bakið á fleirum en mér. Margir minnast líklega ógeðslega píp-hljóðsins og „START LEVEL ONE“ með hryllingi og blæðandi tárum. Ég þekki nokkra íþróttakennara sem allir verða vandræðalegir og fara undan í flæmingi þegar ég spyr hvort þessi pynting á börnum sé enn í dag hluti að skólagöngu barna. Píp-test gengur út á í stuttu máli að segulbandsspóla er sett í gang og börn hlaupa þvert yfir salinn og til baka, áður en næsta píp heyrist. Svo styttist tíminn milli pípanna og þá er eins gott að hlaupa hraðar. Hlaupin voru í lotum, þar sem tíminn milli pípa styttist eftir hverja og eina. Loturnar voru númeraðar. Þessir spretthörðustu komust oftar en ekki upp í lotu 10–15. Við hlunkarnir máttum heita duglegir að komast í lotu 4–5. Hefði ég vitað hvað útrýmingarbúðir væru á þessum tíma hefði ég haldið að þær væru einmitt svona. Það er ekki óvitlaus pæling. Þeir bestu standa eftir, hinir lélegustu heltast úr lestinni hver af öðrum. Ég minnist þess að hafa í eitt skiptið gefist upp í lotu 3 og logið að kennaranum að ég væri með langvinna lungnaþembu, sem ég vissi þó ekki hvað væri. Sest svo lafmóð á bekkinn og horft á alla mjóu krakkana, þeysast lotu eftir lotu án þess að blása úr nös. Allt var þetta nú í góðum tilgangi gert og íþróttakennarar allir af velvild sinni og metnaði að stuðla að heilsu og hreysti barna, vonandi til frambúðar.
Í dag þegar ég reyni að þrjóskast eftir götunum í átt að vegalengd hálfmaraþons vona ég í mínu svarta hjarta að börnin mín komist áfallalaust í gegnum öll hestahoppin, hástökkin og píp-testin sem bíða þeirra. Ég vona líka að sem fullorðnir einstaklingar, í hvaða líkamsformi sem þau verða, að þau setji sér líka óraunhæf markmið eins og ég. Við vitum öll að raunhæf markmið eru ekkert skemmtileg. Það er ekkert gaman að klára eitthvað sem þú veist að þú getur. Óraunhæfu markmiðin eru svo dýrindis meira hvetjandi að maður leggur allt í sölurnar til að ná þeim. Það er ekkert verra að vera með gott líknarfélag á bakvið sig sem treystir á þitt framlag.
Athugasemdir