Alveg frá því að rússnesk stjórnvöld svöruðu viðskiptabanni með viðskiptabanni—sögðu Vesturlöndum að úr því vestræn ríki beittu sig efnahagsþvingunum myndu þau bara ganga ennþá lengra og banna allskonar innflutning þeirra til sín—hefur útgerðin reynt að fá stjórnvöld hér á landi til að skilja sig frá Evrópuríkjum í því skyni að koma í veg fyrir að bannið næði um síðir til Íslands. Það kemur því varla á óvart þótt þessu sé haldið áfram af hálfu meiri krafti nú þegar Íslandi hefur verið bætt á bannlistann og Rússar eru hættir að kaupa síld, makríl og sitthvað fleira af íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.
Íslendingar hafa þegar orðið að athlægi í Rússlandi vegna örvæntingar útgerðarinnar yfir því að lenda á listanum: „Medvedev neyddist til að útskýra fyrir Íslandi afhverju það lenti á bannlistanum“ segir einn fjölmiðill og lýsir samtali forsætisráðherra landanna eftir þessa ákvörðun rússneskra stjórnvalda. Þar er líka vitnað í Kolbein Árnason um að „ekkert land“ hafa orðið fyrir jafn þungum búsifjum og Íslendingar vegna bannsins.
Frá sjónarmiði þeirrar utanríkisstefnu sem hér hefur ríkt nokkurn veginn óslitið frá stríðslokum eru þó engin rök fyrir annarri afstöðu en þeirri sem núverandi stjórnvöld hafa tekið um stuðning við aðgerðir Evrópusambandsins og Bandaríkjanna gagnvart Rússlandi. Það segir sína sögu um óbilgirni og þvergirðingshátt forystumanna útgerðarinnar hér að í stað þess að hvetja stjórnvöld til að búa sig undir bann (úr því að menn óttuðust að að því kæmi) og vinna með þeim að viðeigandi ráðstöfunum skuli útgerðin hafa legið í stjórnvöldum að segja skilið við Vesturlönd og gerast Rússadindlar: ganga í lið með þeim ríkjum sem telja að yfirgangur Rússlands gagnvart Úkraínu eigi sér „sögulegar ástæður“ eða sé að minnsta kosti flókið mál sem engin leið sé að bregðast við með þvingunaraðgerðum. Þessa freistingu hefur ríkisstjórnin staðist, enn sem komið er.
En deilan öll og vandræðalegur málatilbúnaður útgerðarinnar (sem þótt ótrúlegt megi virðast finnur hljómgrunn hér og þar í samfélaginu) á sér ýmsar sögulegar hliðstæður. Staðreyndin er sú að hér á landi er löng hefð fyrir því að leika tveim skjöldum gagnvart Rússum. Vera vestanmegin í orði en nýta sér til hins ítrasta þá möguleika á hagstæðum viðskiptum sem lega Íslands og sérkennileg pólitísk flóra innanlands gat getið af sér. Magna upp Rússagrýluna um leið og Rússagullið flóir í kistur útgerðarinnar. Er nema von að Medvedev þurfi að skýra þetta fyrir Íslendingum sem voru vanir því að geta verið bestu vinir Rússa en samt í NATO áratugum saman?
„Íslendingar hafa þegar orðið að athlægi í Rússlandi vegna örvæntingar útgerðarinnar yfir því að lenda á listanum“
Ein þeirra raka sem efasemdamenn um þátttöku Íslands í viðskiptaþvingunum bregða fyrir sig eru á þá leið að þvinganir af þessu tagi hafi engin áhrif. Rússar lifi góðu lífi hvort sem þeir versla við Vesturlönd eða ekki. Innflutningsbann þeirra sjálfra sýni þetta best. Ekki aðeins láti þeir sig einu gilda að Vesturlönd beiti þá þvingunum. Þetta skipti ekki meira máli en svo að þeir geti gengið ennþá lengra með eigin innflutningsbanni. Þess vegna eigi að grípa til einhverra annarra ráðstafana vegna deilnanna um Krím og hernaðaraðgerðir í Austur-Úkraínu.
Þetta held ég sé fullkominn misskilningur á stöðu mála. Viðskiptaþvinganir Vesturlanda gagnvart Rússlandi hafa umtalsverð áhrif á atvinnulíf, efnahag og viðgang fyrirtækja þar í landi. Þetta er sérstaklega bagalegt fyrir alla tækniþróun en hún er eins og öllum ætti að vera ljóst, algjört lykilatriði í hagþróun framtíðarinnar. Viðbót Rússa sjálfra veldur ekki matarskorti í Rússlandi, en hefur áhrif á neyslumynstur og gefur þeim langt nef sem hafa tamið sér ýmsar vestrænar venjur, eða þurfa á vörum að halda sem ekki fást lengur af einhverjum ástæðum. Auk þess hækkar matarverð væntanlega til lengri tíma við minnkað vöruframboð (það öfuga kann reyndar að gerast í fyrstu, þar sem lækkun rúblunnar myndi hækka verð á þeim innfluttu matvælum sem nú eru ekki lengur í boði). Þegar upp er staðið er hvorttveggja, viðskiptaþvinganir Vesturlanda og svar rússneskra stjórnvalda við þeim, mikið högg fyrir þá menntuðu miðstétt sem hefur verið að vaxa í Rússlandi undanfarin ár – ekki síður en hörkulegar aðgerðir gegn andstæðingum stjórnvalda hafa á síðustu árum gert öllum ljóst að rússnesk stjórnvöld ætla ekki að sækja stuðning til frjálslyndrar, menntaðrar og pólitískt virkrar miðstéttar í landinu, heldur styrkja sig með orðræðu þjóðrembings og „sögulegs réttar“ Rússa gagnvart nágrönnum sínum – sem hvort eð er hafi eiginlega alltaf verið hluti af Rússaveldi.
Vandinn við þvinganir Vesturlanda gagnvart Rússum og svo þvinganir Rússa gagnvart sjálfum sér (sem íslenskir útgerðarmenn halda að séu efnhagsþvinganir Rússa gagnvart Íslandi) er ekki sá að þær hafi engin áhrif. Vandinn birtist frekar í að þær bitna á þeim hópum sem helst gætu veitt stjórnvöldum mótspyrnu innan Rússlands – þeim 15-20 prósentum þjóðarinnar sem hafa aflað sér góðrar menntunar, sækja í störf sem slíkri menntun og reynslu hæfir og temja sér lífsmynstur sem samræmist ekki stefnu stjórnvalda í átt að miklu nánari samvinnu við Kína, Indland og önnur ríki utan hinna þróuðu Vesturlanda.
„Vandinn birtist frekar í að þær bitna á þeim hópum sem helst gætu veitt stjórnvöldum mótspyrnu innan Rússlands“
En hvað ættu Íslendingar að taka til bragðs ef saman við búsifjar útgerðarinnar fara réttmætar efasemdir um áhrif þvingana? Sumir þeirra sem hafa skrifað hugleiðingar um þessi mál telja að Íslendingar eigi ekki að taka þátt í viðskiptaþvingunum en setja fram sjónarmið sín við Rússa skýrt og skorinort um framferði þeirra í Úkraínu og kannski víðar. Þegar ég heyri röksemdir af þessu tagi detta mér af einhverjum ástæðum í hug brandarar um mýs og fíla (eða maura og fíla). Smáríki í Atlantshafi sem getur ekki á heilu sér tekið vilji Rússar ekki kaupa af því fiskinn, er álíka líklegt til að gera kyrkt fílinn og Emil í brandaranum góða (ég man ekki lengur hvort Emil var maur eða mús).
Í rauninni er þetta ósköp einfalt. Það sem Ísland hefur fram að færa um viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum, pólitíska stefnu og jafnvel hernaðaraðgerðir á að koma fram á vettvangi NATO, alþjóðastofnana á borð við RÖSE og auðvitað Evrópusambandsins. Þótt íslensk fjölmiðlaumræða bendi til annars, getur maður þó sennilega huggað sig við að á meðan útgerðin hrærir í stjórnmálamönnum, og þeir byrja að segja undarlega hluti, eru embættismenn að að vinna sitt verk þannig að við þurfum ekki að skammast okkar. Það er á vettvangi alþjóðlegra stofnana sem land eins og Ísland getur haft áhrif, ekki með því að leika einhvern kjánalegan einleik sem í besta falli verður gert góðlátlegt grín að sem Rússadekri en setur okkur í versta falli á saman bás og Hvítarússland.
En, gæti einhver spurt, sýnir ekki saga Eystrasaltslandanna að frumkvæði Íslands getur vakið heimsathygli og haft mikil áhrif? Jú, kannski, en slíkt frumkvæði þarf að fara fram í réttu samhengi. Þegar Ísland viðurkenndi Litháen sem sjálfstætt ríki tókst að höggva á hnút – þá stigu Íslendingar skref sem allir vissu að var hið eina rétta og varð til þess að opna fyrir flóðbylgjuna (sem auðvitað hefði farið af stað fyrr eða síðar). Í þessu máli er staðan allt önnur. Með því að fara eigin leiðir í því verða Íslendingar að enn meira athlægi en orðið er – sérstaklega í Rússlandi. Því allir vita (nema kannski íslenska útgerðin) að það er ekki Rússahatur sem stjórnar atburðarásinni núna, heldur miklu flóknara valdatafl sem varðar leikreglur alþjóðasamfélagsins. Þetta er vissulega í augnablikinu pattstaða, en hún krefst þess að vestræn ríki standi saman – jafnvel þótt milli þeirra ríki á sama tíma skoðanaágreiningur. Það væri synd ef græðgin í Rússagull yrði þeim sjónarmiðum yfirsterkara, eftir öll þessi ár.
Athugasemdir