„Þó einhver segi við mig að þetta sé eins og kranavatn, það segir mér ekki að það sé kranavatn. Ég veit betur,“ sagði Júlíus Júlíusson, sölumaður, heilari og framhaldsskólakennari í kvöldfréttum RÚV í gær, eftir að vísindaleg mæling sýndi fram á að kraftaverkavatnið sem hann er að selja á þrjú þúsund krónur flöskuna er nokkurn veginn eins og vatnið sem kemur úr krananum þínum.
Hann fullyrðir að vatn eigi erfitt með að komast inn í frumurnar í líkama okkar og því þurfi að afjóna það svo það losni um sameindirnar og vatnið komist í gegnum frumuhimnurnar. Af darwinískt óskiljanlegri ástæðu hefur mannkynið þróast í milljónir ára með þeim hætti að það getur ekki nýtt vatn nægilega vel til að þrífast almennilega, þótt líkamar okkar séu að mestu leyti vatn.
Handan þekkingar
Vísindavefur Háskóla Íslands er ósammála Júlíusi. En vísindi hafa ekki áhrif á hann, því hann hefur nokkuð sem nær út fyrir vitneskju. Hann trúir.
„Vatnið sem kemur úr krananum okkar, eimað vatn og afjónað vatn er allt saman vatn; eini munurinn er hreinleiki vatnsins, það er aukaefnin sem eru uppleyst í vatninu. Kranavatn inniheldur ýmis steinefni, jónir, lífræn efni og eitthvað af örverum.“
Næsta varan sem þú þyrftir að kaupa í „apótekinu“ þar sem jónaða vatnið var selt væri væntanlega steinefnin sem vantar í vatnið og svo kannski eitthvað til að bæta upp fyrir örverumissinn, því örverur gegna lykilhlutverki í meltingunni.
Eðlisfræði kuklara
Það er rétt hjá Júlíusi að þetta er allt eðlisfræði. Í eðlisfræði er kraftur mældur í Newtonum. Frá félagslegum, sálfræðilegum og hagfræðilegum sjónarhóli eru peningar hreyfiafl sem hefur skýr áhrif á hegðun fólks. Ólíkt lækningarmætti afjónaðs vatns hafa áhrif peninga verið sönnuð með mörgum mismunandi endurtakanlegum tilraunum í stýrðu og/eða opnu umhverfi.
Það sem er vísindalega óútskýranlegt í sölumennsku kuklara má útskýra með krafti peninga. Mannsheilinn og hagkerfið eru of flókin kerfi til að reikna það nákvæmlega út. Peningar eru ekki nauðsynlega eina ástæðan fyrir hegðuninni, en allt sem við vitum um lífverur sýnir að það er ekki tilviljun hvernig þær eyða orkunni sinni. Þær eyða henni yfirleitt til að öðlast næringu til að viðhalda sér. Í náttúrunni þurfa þær að taka þessa næringu annars staðar frá, nærast á öðrum lífverum. Í mannlegu samfélagi eru viðskipti vanalega samkomulag sem felst í því að fólk afhendir öðrum orku í formi peninga til að fá annað æskilegt í staðinn. Í tilfelli kuklara ná þeir hins vegar að öðlast orku með því að fjarlægja hana án raunverulegs endurgjalds frá aðilum af sömu tegund sem eru varnarlitlir vegna veikinda.
Blekkingar í dýraríkinu
Í dýraríkinu eru fjölmörg dæmi um blekkingar þar sem einn aðili nær að fá annan, yfirleitt af annarri tegund, til að „trúa“ einhverju sem er ekki rétt, til að komast yfir orku hans. Í Mið-Afríku þrífst snákur með hala sem er mótaður og hreyfist eins og höfuð, til þess að fórnarlömbin trúi því að árásin komi úr annarri átt en hún kemur síðan raunverulega. Margar snákategundir hafa sérlitan stubb á halanum sem þeir sveifla til að fá fórnarlömb til að trúa því að hann sé ætilegt smádýr og laða þau þannig til sín og nærast á þeim. „Taktískri blekkingu“ í dýraríkinu er gjarnan beitt gegn aðilum af sömu tegund. Sem dæmi hefur hegðun endurtekið sig hjá ákveðnum apategundum sem snýst um að afvegaleiða aðra frá mat, með því að færa fölsk skilaboð.
En líklega fyrirfinnst ekki hjá öðrum en mönnum svona flókið form taktískrar blekkingar, að sannfæra veika um að trúa því sem fær þá til að afhenda lífsnauðsynlegan orkugjafa í formi peninga í tilraun til að bjarga lífi sínu, en án raunverulegs endurgjalds.
Lífríkið og mannlegt samfélag sýna svo ekki verði um villst að sá sem getur sannfært aðra um að heimurinn sé öðruvísi en hann er raunverulega styrkir sig verulega, oft á kostnað annarra.
Salan á trúnni
Að trúa er andstæðan við að vita. Trú getur verið að vita ekki, og líka að vilja ekki vita; að kjósa að sannfærast um annað en það sem rök og vísindi staðfesta eða benda eindregið til.
Þegar miklir erfiðleikar steðja að fólki vaknar hjá því þörf til að trúa. Þá koma prestar og kuklarar oft inn í myndina. Í tilfelli manna eru erfiðleikarnir stöðugt yfirvofandi. Dauðleiki manna veldur því að þeir vita þá þegar að þeir tortímist og þrá lausn sem viðheldur tilvist þeirra. Allar lífverur reyna að viðhalda tilvist sinni. Margir menn hafa tekið upp að trúa því að þeir muni lifa eftir dauðann. Þeir sem dreifa þessari trú meðal manna hafa uppskorið ríkulega. Stærstu byggingar í borgum heims voru lengst af trúarlegar miðstöðvar, hvort sem við horfum á dómkirkjuna í Flórens, dómkirkjuna í Köln og svo framvegis. Í venjulegri evrópskri byggð frá miðöldum fram á 20. öld gnæfði kirkja yfirleitt yfir öðrum byggingum. Í dag eru stærstu byggingar borga gjarnan í eigu þeirra sem stýra flæði peninganna, það er að segja banka sem styrkjast á því að afhenda okkur orku fyrirfram sem við borgum til baka með vöxtum.
Kaþólska kirkjan var ráðandi afl í Evrópu í hundruði ára. Í löndum þar sem íslamismi (alræðissinnuð öfga-íslamstrú) er ráðandi hefur veruleiki trúarinnar yfirtekið raunveruleika og möguleika fólks.
Þjóðernishyggja er trú. Eins og trúin á Guð og himnaríki felur þjóðernishyggja í sér ábata fyrir þann sem trúir. Hún felur í sér að trúandinn sé betri en aðrir og eigi heimtingu á yfirráðum yfir því sem veitir afl og viðheldur lífi.
Trúaðir Gyðingar telja að þeir séu Guðs útvalda þjóð. Trúaðir nasistar halda að þeir séu æðri öllum af öðrum kynþáttum. Sanntrúaðir kristnir trúa því að þeir muni fara til Guðs á himnum eftir dauðann.
Kristin trú er það sem heimspekingurinn Nietzsche kallaði þrælasiðferði, vegna þess að með henni undirgengst trúandinn vald annarra og borgar fyrir að fá sannfæringu um væntanlega himnaríkisvist.
Það er ekki tilviljun að forsetinn, forsætisráðherrann og biskupinn sameinist um þann boðskap í áramótaávörpum sínum til þjóðarinnar að við eigum að trúa og standa saman, hvort sem það er á framtíðina, Guð eða þjóðina. Trúin er ákveðin andstæða við gagnrýna hugsun og alger samstaða þjóðarinnar felur í sér samstöðu með yfirvaldinu. Bæði hentar þeim vel sem eru í æðstu stöðum samfélagsins.
En trúin væri ekki ein farsælasta söluvara mannkynssögunnar ef hún skilaði engu fyrir kaupandann.
Praktískt gildi trúar
Í rannsóknum hefur sýnt sig að það nægir fólki oft að trúa því að það sé að fá meðferð til þess að það verði fyrir æskilegum áhrifum. Lyfleysuáhrifin (e. placebo effect) greinast bæði í rannsóknum á læknismeðferðum og líka í rannsóknum á frammistöðu í ýmsum þrautum, til dæmis í íþróttum. Sá sem trúir því að hann sé blessaður eða útvalinn af Guði getur styrkst af því, hvort sem eitthvað er á bakvið það eða ekki. Margir hafa sótt styrk í trú sína eina og sér til þess að reyna að framkvæma hið óframkvæmanlega, hvort sem það nýtist til sjálfsmorðsárása eða til að yfirstíga persónulega erfiðleika.
Þess vegna getur kuklarinn lifað með sjálfum sér. Hann getur sannfært sjálfan sig um það, sjálfum sér til hagsbóta, að hann hjálpi fólki með því einu að fá það til að trúa því að hann sé að selja því raunverulega meðferð.
Eða eins og Júlíus orðaði það þegar hann hafði sveiflað pendúlnum fyrir framan fréttamann RÚV: „Er ekki jákvætt hugarfar það besta sem þú hefur?“
„Er ekki jákvætt hugarfar það besta sem þú hefur?“
Trúin á trúna er útbreiddari en þetta, allt frá sjálfshjálparbókum til forsætisráðherra Íslands, sem sagði í áramótaávarpi til þjóðarinnar fyrir rúmu ári: „Trúin á betri framtíð ... er forsenda framfara.“ Vísindaleg rannsóknaraðferð og inngróin efahyggja hennar er hins vegar grundvöllurinn að aukinni þekkingu og tæknilegum framförum mannkyns, en ekki blind trú, hversu gagnleg sem hún getur reynst út frá hugarró eða lyfleysuáhrifum.
Það styrkir hvern og einn í sinni virkni að trúa því að það sem hann geri sé réttlætanlegt, hversu heilbrigt eða skaðlegt sem það raunverulega er, hvort sem hann er venjulegur maður, nasisti í útrýmingarbúðum, eiturlyfjasali eða sá sem sannfærir veikasta fólk samfélagsins um að það hafi gott af því að láta hann fá peninga.
Það sem ákveðnar tegundir snáka, snákaolíusölumenn og prestar eiga sameiginlegt á afmarkaðan hátt er að þeir þrífast á því að selja okkur að trúa.
Athugasemdir