Hinn 5. nóvember 1937 hélt Adolf Hitler, foringi Þýskalands, fund með fáeinum æðstu herforingjum sínum í Berlín. Mættir voru fimm karlar auk Hitlers sjálfs og ritara hans: Werner von Blomberg, marskálkur, stríðsmálaráðherra og yfirmaður alls þýska heraflans, Werner von Fritsch, hershöfðingi og yfirmaður landhersins, Erich Raeder, flotaforingi og yfirmaður flotans, Hermann Göring yfirmaður flughersins, og Konstantin von Neurath utanríkisráðherra.
Á fundinum kynnti Hitler stefnumótun sína fyrir næstu ár. Skemmst er frá því að segja að hann boðaði stríð, meira að segja mörg stríð.
Hitler hafði komist til valda snemma árs 1933 þegar hann var skipaður kanslari en tókst síðan á undra skömmum tíma að ná alræðisvöldum fyrir sig og Nasistaflokkinn. Honum hafði, að því er virtist, tekist á þessum fáu árum að vinna bug á gríðarlegum efnahagsörðugleikum Þýskalands og einkum atvinnuleysinu sem hafði verið mjög mikið í kjölfar kreppunnar miklu. Miklar og mannfrekar framkvæmdir hófust um allt þýska ríkið, og atvinnuleysið hvarf eins og dögg fyrir sólu, að minnsta kosti á pappírum, og þjóðarstolt óx stórum skrefum. Hernaðaruppbygging fór af stað af miklum krafti.
Á fundinum í Berlín kom fram að þessi nýi uppgangur var ekki byggður á eins traustum grunni og nasistar vildu vera láta. Fé til allra þessara framkvæmda hafði verið tekið að láni og nú fóru að nálgast fyrstu skuldadagarnir. Þýskaland yrði brátt svo skuldum vafið að miklir erfiðleikar myndu blasa við og stjórn nasista yrði þá völt í sessi.
Lausn Hitlers var einföld. Þýskaland skyldi í nokkrum áföngum leggja undir sig nágrannaríki sín í austri, ræna af þeim eignum og auðlindum og hreinlega peningum, og hneppa íbúana í þrældóm. Þannig yrði Þýskaland sjálfbært og þyrfti ekki að treysta á innflutning frá öðrum ríkjum. Fyrst skyldi ráðist á Tékkóslóvakíu, síðan Pólland og svo á endanum ná allri Austur-Evrópu.
Þessi stefna átti náttúrlega alls ekki eingöngu uppruna sinn í yfirvofandi efnahagsþrengingum Þýskalands. Hitler hafði prédikað það sama allt frá 1925 þegar hann boðaði í bókinni Mein kampf að Þjóðverjar hefðu bæði skyldu og rétt til að afla sér „Lebensraum“, eða „lífsrýmis“, í Austur-Evrópu. En skuldastaða Þýskalands olli því sem sagt að nú var málið orðið aðkallandi.
Hitler hafði komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri seinna vænna að hefja stríð. Þegar á næsta ári – 1938 – ætti að ráðast á Tékkóslóvakíu. Það lægi á, ekki aðeins vegna þess að fjárhagsstaðan krafðist þess, heldur einnig vegna þess að ef strax yrði látið til skarar skríða minnkuðu líkur á að Frakkland og sérstaklega Bretland myndu sletta sér í árásarleiðangra Þjóðverja. Vígvæðing var hafin þar en skemmra á veg komin en í Þýskalandi og Hitler treysti því að stórveldin í vestri myndu ekki hætta á stríð við Þjóðverja.
Eftir að hafa lagt undir sig mestalla Austur-Evrópu – líklega árið 1942 – væru Þjóðverjar hins vegar orðnir svo öflugir að þeir gætu óhikað gengið á hólm við Breta og Frakka.
Tilgangur fundarins var sem sagt að kynna þá niðurstöðu Hitlers fyrir herforingjum hans og utanríkisráðherra að Þjóðverjar þyrftu að vera tilbúnir í allsherjar stríð ekki seinna en 1942 og smærri stríð strax á næsta ári.
Hitler til undrunar mótmæltu tveir fundarmanna harðlega þessum áformum, þeir Blomberg og Fritsch. Þeir höfðu að vísu ekkert á móti hugmyndafræðinni bak við áformin, síður en svo. Báðir voru tæplega sextugir, sannir fulltrúar hinnar alræmdu pinnstífu prússnesku hernaðarhyggju og afturhaldsmenn í stjórnmálum. Blomberg hafði verið skipaður í embætti af Hindenburg forseta 1933 og var beinlínis ætlað að hafa hemil á hinum nýja kanslara Hitler ef hann gerði sig líklegan til að sýna hernum yfirgang. Þýski herinn hafði löngum litið á sig sem „ríki í ríkinu“ sem bæri eingöngu ábyrgð gagnvart keisaranum og síðar forsetanum, en væri ekki á neinn settur undir kanslara eða aðra pólitíkusa. Blomberg fyrirleit hins vegar lýðræði og sannfærðist um að Hitler væri rétti maðurinn til að koma Þýskalandi aftur á rétta braut og blása þjóðinni hernaðaranda í brjóst. Sömu sögu má segja um Fritsch, sem auk þess að vera einræðissinni var stækur gyðingahatari, og féll vel í geð að heyra Hitler hamast móti gyðingum. Þegar hernaðaruppbygging hófst undir stjórn nasista voru þeir Blomberg og Fritsch því hæstánægðir.
Á hinn bóginn höfðu báðir hershöfðingjarnir lítið álit á flestum öðrum forkólfum nasista en Hitler og hötuðust ákaft við allar tilraunir Nasistaflokksins til að byggja upp eigin hernaðararm með SS-sveitunum. Þegar Hindenburg féll frá 1934 og Hitler lét skipa sjálfan sig arftaka hans, með embættisheitinu „foringi“, þá var það Blomberg en ekki Hitler sjálfur sem ákvað að allir þýskir hermenn skyldu þaðan í frá sverja Hitler persónulegan hollustueið. Ekki ónefndum foringja Þýskalands, heldur Adolf Hitler. Með þessu ætlaði Blomberg að gera Hitler hliðhollan hernum og fjarlægja hann um leið Nasistaflokknum. Hitler varð hissa og ánægður þegar Blomberg kom þessum hollustueið á en fjarlægðist aðra forkólfa nasista þó ekki hót og uppbyggingu SS var haldið áfram af fullum krafti undir forystu Heinrich Himmlers sem forkólfar hersins höfðu undantekningarlaust megnustu skömm á.
Þegar fram í sótti varð þessi persónulegi eiður hermanna svo til þess að þeir urðu mjög tregir að snúast gegn Hitler, þótt í ljós væri þá komið út í hvílíkar ógöngur hann var búinn að leiða herinn og þjóðina alla.
Ástæður þess að Blomberg og Fritsch snerust gegn fyrirætlunum Hitlers snerust því ekki á nokkurn hátt um að þeir væru á móti hernaðarstefnu hans. En þeir voru reyndir hermenn og gerðu sér grein fyrir því að enn væri langt í land að þýski herinn væri tilbúinn til að heyja svo mörg og umfangsmikil stríð sem Hitler hafði útlistað. Og Bretar og Frakkar myndu áreiðanlega skerast í leikinn mun fyrr en Hitler vonaði.
Í reynd aftóku þeir með öllu að etja hernum út í stríð fyrr en eftir áratug eða svo.
Hitler gramdist ákaflega. Göring flugherskappi og Raeder flotaforingi samþykktu að vísu áætlun foringjans en hún gat varla orðið að veruleika ef Blomberg og Fritsch drógu lappirnar – auk þess sem Neurath utanríkisráðherra lýsti sig sammála tvímenningunum. Um þetta leyti var Hitler hins vegar enn ekki orðinn svo einráður bæði í orði og á borði að hann gæti einfaldlega losað sig við þá Blomberg og Fritsch. Þeir voru virtir vel í heraflanum og það myndi vekja gríðarlega óánægju og úlfúð herforingja ef þeir yrðu reknir að tilefnislausu. Foringinn beit því á jaxlinn og beið eftir hentugri tylliástæðu til að losa sig við þá.
Og sú ástæða kom óvænt upp í hendurnar á honum strax í janúar 1938. Blomberg hafði misst konu sína fyrir fimm árum en gekk nú að eiga Ernu nokkra Grühn, sem var 35 árum yngri en hann, aðeins 24 ára. Hún var vélritari en athugull lögreglumaður í Berlín vakti nú athygli hershöfðingjans Wilhelms Keitels á því að Erna Grühn væri á sakaskrá. Keitel var einn af nánustu aðstoðarmönnum Blombergs og sonur hans var trúlofaður dóttur stríðsmálaráðherrans en eigi að síður sá Keitel þarna tækifæri til að koma sér áfram á kostnað yfirmanns síns. Hann fór með upplýsingarnar til Görings sem hataði Blomberg eins og pestina, þótt hann hefði raunar verið svaramaður í brúðkaupinu! Göring fór svo til Himmlers sem líka lagði fæð á Blomberg. Saman lögðu þeir málið fyrir Hitler. Hann hafði líka mætt í brúðkaupið og var þar vígsluvottur en sá þarna leik á borði.
Göring og Himmler tjáðu Hitler að Erna Grühn væri á skrá sem vændiskona í sjö þýskum borgum. Það var raunar lygi en móðir Ernu var skráð vændiskona og hún sjálf hafði lent á sakaskrá sem fyrirsæta á klámljósmyndum sem þáverandi sambýlismaður hennar – maður af gyðingaættum – hafði tekið. Þá hafði Erna líka gerst sek um að dreifa myndunum, en hún var aldrei sökuð um vændi.
Nú var það einn af fáum kostum Hitlers að hann lét sig yfirleitt litlu varða hvað fólk gerði í frístundum sínum, hvort heldur í rúminu eða annars staðar. Hann vissi hins vegar að yfirmenn hersins voru ótrúlega siðprúðir og stífir. Þeir höfðu horft upp á og tekið þátt í fjöldamorðum í fyrri heimsstyrjöldinni og voru tilbúnir til að endurtaka það hvenær sem væri, en ef minnsta hætta virtist á einhvers konar kynlífshneyksli, þá sneru þeir upp á sig, rjóðir af hneykslun. Í flestum tilfellum var þetta auðvitað tóm hræsni, en fyrir sumum – ekki síst hinum strangtrúaða Erich Raeder flotaforingja – var þetta djúp alvara.
Hitler lét kalla Blomberg fyrir sig. Hann sagði heiður hersins í hættu ef stríðsmálaráðherrann ætti slíka eiginkonu og fór fram á að marskálkurinn léti ógilda hjónavígsluna. Milli línanna lá auðvitað að eftirleiðis yrði Blomberg svo að sitja og standa eins og Hitler og nótum hans í Nasistaflokknum þóknaðist.
Það má Blomberg eiga að hann þvertók fyrir að segja skilið við Ernu sína. Hann vissi hins vegar af skinhelgi herforingjanna og hann gæti ekki vænst stuðnings undirmanna sinna. Blomberg kvaðst því mundu segja af sér öllum embættum – sem var vitaskuld það sem Hitler sóttist eftir.
Og kortast fór líka ferill Fritsch. Árið áður hafði SS-paddan Reinhard Heydrich lagt fyrir Hitler skýrslu þar sem því var haldið fram að Fritsch væri samkynhneigður, en dátinn sá var staðfastur piparsveinn og hafði ekki verið við kvenmann kenndur að ráði. Samkynhneigð var þá glæpur í Þýskalandi eins og víðar. Á sínum tíma hafði Hitler vísað skýrslu Heydrichs á bug en nú var hún dregin fram að nýju, Fritsch var kallaður fyrir og honum tjáð að siðprýði hersins gæti með engu móti þolað slíkar ásakanir um æðsta mann landhersins. Og Fritsch vissi að hann hafði verið skilinn eftir á berangri hinna siðprúðu herforingja. Hann sagði af sér líkt og Blomberg.
Fréttir um afsögn Blombergs og Fritsch í byrjun febrúar vöktu mikla athygli um víða veröld, til dæmis hér á Íslandi.
Í fyrstu gengu fréttirnar út á að komist hefði upp um valdaránstilraun æðstu manna hersins gegn Hitler en það var fljótlega dregið til baka. Hins vegar blandaðist engum hugur um að afsagnir herforingjanna höfðu í för með sér að Nasistaflokkurinn hafði nú náð öllum yfirráðum yfir hernum. Hitler skipaði sjálfan sig æðsta yfirmann hersins í stað Blombergs og hafði þar með náð þeim tökum á heraflanum sem hann vildi. Hann notaði líka tækifærið og losaði sig við nokkra sjálfstæða herforingja í viðbót, auk þess sem Neurath utanríkisráðherra var látinn segja af sér – þótt ekki sé vitað til að nein „siðferðismál“ hafi þar verið í spilinu.
Staða þýska hersins sem sjálfstætt „ríki í ríkinu“ var nú fyrir bí. Atburðir ársins 1938 virtust staðfesta að yfirgangsstefna Hitlers væri hárrétt en varkárni hershöfðingjanna ekki. Fyrst var Austurríki innlimað í Þýskaland við almenn fagnaðarlæti í báðum löndum, og um haustið heyktust Vesturveldin á að styðja Tékkóslóvakíu þegar Hitler hafði ætlað að hefja hið fyrsta af þeim árásarstríðum sem hann hafði boðað á fundinum í nóvember 1937. Hann þurfti ekki einu sinni að hleypa af skoti því Tékkar létu að vilja hans þegar þeir sáu að þeir fengju engan stuðning úr vestri. Hitler stóð uppi með pálmann í höndunum af því siðprýði undirmanna og félaga Blombergs og Fritsch hafði komið í veg fyrir að þeir styddu tvímenningana í andófi þeirra gegn Hitler. En hér er svo rétt að ítreka að andóf Blombergs og Fritsch snerist ekki um markmið, heldur eingöngu leiðir.
Meðan þýskar hersveitir brunuðu inn í Austurríki í mars 1938 voru Werner og Erna Blomberg í brúðkaupsferð á ítölsku eyjunni Kaprí. Þótt ótrúlegt megi virðast sendi Raeder flotaforingi mann á eftir honum, Konrad von Wangenheim, höfuðsmann í riddaraliði þýska hersins og gullverðlaunahafa í reiðmennsku frá ólympíuleikunum í Berlín 1936. Raeder og Wangenheim voru sannfærðir um að eina leiðin fyrir Blomberg til að bæta fyrir það hneyksli sem hjónaband hans hefði valdið þýska hernum væri að hann svipti sig lífi. Hvert sem Blomberg-hjónin fóru fylgdi Wangenheim þeim fast eftir og hélt ástríðufullar ræður yfir Blomberg um að hann yrði að drepa sig. Eftir að hafa suðað lengi í Blomberg dró hann einu sinni upp skammbyssu og reyndi að þrýsta henni í hönd marskálksins svo hann gæti skotið sig. En Blomberg var ófáanlegur til þess. Hann sneri heim en lét svo lítið fyrir sér fara næstu árin og tók engan þátt í þeim stríðsrekstri Þjóðverja sem hófst 1939.
Það gerði Fritsch hins vegar. Hann hafði neitað því staðfastlega að vera samkynhneigður og haldin voru leynileg réttarhöld í málinu undir forystu Görings. Jafnvel sá undirföruli þrjótur gat ekki fundið neitt til stuðnings ásökunum Heydrichs og taldist Fritsch því hreinsaður. Hann hélt áfram í hernum en ekki kom til álita að hann tæki aftur við sinni háu stöðu. Fritsch reyndi að endurheimta heiður sinn með því að skora Himmler á hólm því hann væri ábyrgur fyrir herferðinni gegn sér. Hitler bannaði hins vegar slíkt einvígi.
Í september 1939 hófst innrás Þýskalands í Pólland, næsti áfangi í stríðsrekstrinum sem Blomberg og Fritsch höfðu lýst sig andvíga. Bretar og Frakkar gengu þá þvert gegn vonum Hitlers og lýstu yfir stríði. Þar með vissi hinn raunsæi Fritsch efalaust að spilið var tapað, þótt það kynni að taka langan tíma áður en óhjákvæmilegur ósigur blasti við Þýskalandi. Hann tók þó sjálfur þátt í innrásinni og var meðal yfirmanna þýska herliðsins sem settist um Varsjá. Þar varð hann fyrir byssukúlu pólskrar leyniskyttu og dó.
Rannsókn á dauða hans gaf til kynna að Fritsch hefði lagt sig í líma við að gera sig að skotmarki og þannig í reynd framið sjálfsmorð.
Af Blomberg er það að segja að í stríðslok var hann handtekinn af bandamönnum og bar vitni við Nürnberg-réttarhöldin yfir forkólfum nasista. Aðrir þýskir fangar sýndu honum tóma fyrirlitningu af því hann hefði ekki verið nógu trúr Hitler. Erna, eiginkona hans, var þá í þann veginn að skilja við hann.
Blomberg dó úr krabbameini 1948.
Athugasemdir