Fyrir nokkru átti ég spjall við bandarískan kunningja minn um dóma yfir bankamönnum sem þá voru nýfallnir og lét í ljós þá skoðun að þrátt fyrir allt sýndu Íslendingar festu gagnvart forystumönnum í fjármálum og pólitík – meiri heldur en til dæmis Bandaríkjamenn. Hvaða refsingu fengu þeir? Tja, fjögur fimm ár, sagði ég – það var eitthvað misjafnt og reyndi að benda á að dómurinn, frekar en refsingin, skipti kannski mestu máli. Honum fannst refsingin skipta máli – og varla geta talist þung í því tilfelli sem við ræddum. Jeffrey Skilling fékk tuttugu og fjögur ár. Það er alvöru refsing. Ég benti á að einnig hefði fyrrverandi forsætisráðherra verið ákærður og dæmdur fyrir vanrækslu í aðdraganda bankahrunsins. Situr hann inni var spurt? Ha, nei, sagði ég. Hann er sendiherra í Washington. Við tókum að þessu loknu upp léttara hjal.
Það var merkilegt að fylgjast með því hvernig viðhorf almennings til Landsdóms og hvort ákæra ætti fyrrverandi ráðherra breyttust eftir framvindu málsins. Eftir útkomu Rannsóknarskýrslu Alþingis var mikill meirihluti fólks hlynntur því, samkvæmt skoðanakönnunum, að fyrrverandi ráðherrar yrðu ákærðir – fæstir trúðu því hins vegar að af því gæti orðið – stjórnmálamenn myndu þegar á hólminn væri komið standa hver með öðrum. Þannig má halda því fram að sú niðurstaða að ákæra einn, sjálfan forsætisráðherrann fyrrverandi, hafi komið á óvart. En þótt hún væri í samræmi við það sem virtist vera ríkjandi skoðun, kom fljótt á daginn að það yrði mjög umdeilt að aðeins einn fyrrverandi ráðherra fengi þessa meðferð.
Hvers vegna? Hvað olli því að fólki fannst erfiðara að réttlæta málshöfðun gegn forystumanni ríkisstjórnarinnar og þeim sem augljóslega bæri mesta ábyrgð á stefnu og aðgerðum hennar? Eftir að dómur féll hefur sú skoðun orðið jafnvel enn meira áberandi að það hafi verið óréttlátt að láta Geir Haarde sæta ábyrgð með þessum hætti og að telja verði það pólitískar ofsóknir. Að minnsta kosti einn þeirra þingmanna sem greiddu atkvæði með ákæru hefur nú snúið við blaðinu og beðið Geir afsökunar á því. Einnig hefur verið vitnað til ályktunar Evrópuráðsins sem komst að þeirri niðurstöðu að málið gegn Geir væri pólitískt í eðli sínu og bæri vott um óljósan greinarmun á pólitískri ábyrgð og refsiábyrgð, sem gengi gegn þeirri meginreglu að stjórnmálamenn ætti ekki að sækja til saka vegna pólitískra ákvarðana þeirra.
„Hvað olli því að fólki fannst erfiðara að réttlæta málshöfðun gegn forystumanni ríkisstjórnarinnar og þeim sem augljóslega bæri mesta ábyrgð á stefnu og aðgerðum hennar?“
Geir sjálfur var ekki feiminn við að láta í ljós vanþóknun sína á dómnum eftir að hann féll og sagði hann „sprenghlægilegan“ og lét ýmis fúkyrði önnur falla um dóminn og þá sem að honum stóðu. Raunar var merkilegt að fylgjast með því eftir að Landsdómur var kveðinn upp, að þeim sem fastast höfðu kveðið að orði um virðingu við formlegar niðurstöður dómstóla eftir að Hæstiréttur kvað upp úrskurð sinn um kosningar til stjórnlagaþings – og ógilti þær – virtist alls ekki umhugað um þessa reglu þegar Landsdómur var annars vegar.
En var þá sakfelling Geirs Haarde óréttlát? Var hann hundeltur og ofsóttur? Það er eiginlega alveg ómögulegt að komast að þeirri niðurstöðu. Hvað sem mönnum finnst um Landsdóm, ákæruna sem slíka eða ákæruefnin þá er 415 blaðsíðna dómur Landsdóms stórmerkileg yfirferð yfir þátt valdamesta manns landsins í hruninu. Geir Haarde hefur staðfastlega haldið því fram alla tíð að Íslendingar hafi fyrst og fremst verið fórnarlömb alþjóðlegra fjármálahamfara. Hann hefur aldrei viðurkennt neina sök sjálfs sín eða samstarfsmanna sinna í því sem hér gerðist og hann hefur lítið lagt til málanna um hvernig hægt sé að draga úr líkum á því að svipaðir atburðir verði hér aftur. Lítill landsföðurbragur á því.
Dómur Landsdóms er mikilvæg greining á þeirri stöðu sem stjórnvöld voru í árið 2008 og sýnir prýðilega að þetta er rangt. Vissulega urðu stóratburðir á alþjóðlegum fjármálamarkaði sem höfðu alvarlegar afleiðingar á Íslandi. En íslensk stjórnvöld höfðu látið reka á reiðanum. Í stað þess að takast á við vandann, reyna að ná tökum á stöðunni, skilja hana og bregðast við henni, létu þau hagsmuni bankamanna stjórna sér. Orðið vanræksla á því prýðilega við um getuleysi og viljaleysi stjórnvalda árið 2008 til að lágmarka tjónið af því sem vita mátti að væri framundan.
Það hefur verið gagnrýnt – og sjálfum fannst Geir það sem fyrr segir „sprenghlægilegt“ að hann hafi verið dæmdur fyrir minniháttar yfirsjón – þá að halda ekki svokallaða ráðherrafundi um aðsteðjandi ógnir. En þegar dómurinn er lesinn sést vel að þessa yfirsjón verður að skilja í stærra samhengi.
„Á endanum snýst þetta ekki um karakter einstaklinganna sem sóttir eru til saka, eru dæmdir, fara í fangelsi - eða verða á endanum sendiherrar.“
Forsætisráðherra landsins ræddi ógnirnar aldrei á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Þó að forystumenn stjórnarflokkanna og kannski einhverjir aðrir hvísluðust á, var aldrei um neinar skipulegar aðgerðir að ræða – ekki fyrr en það var orðið of seint.
Það er þess vegna talsverður sigur fyrir þá sem telja mikilvægt að það sé hægt að gera leiðtoga ríkisins ábyrga fyrir vanrækslu að Geir Haarde skuli raunverulega hafa verið dæmdur fyrir slíkt. Og nú þegar gerðar eru tilraunir á sumum fjölmiðlum og með nýjum bókum til að halda því fram að það sé rangt og óréttlátt að sækja fólk til saka, láta það sæta ábyrgð, þá skiptir verulegu máli að til séu textar á borð við dóm Landsdóms og sömuleiðis Rannsóknarskýrslu Alþingis og úttekt þingmannanefndar á Rannsóknarskýrslunni. Þessi plögg tryggja að það verður ekki hægt að endurskrifa söguna, jafnvel þótt tímabundið sé hægt að sveigja til almenningsálit, eða skapa samúð með einstökum sakborningum.
Því á endanum snýst þetta ekki um karakter einstaklinganna sem sóttir eru til saka, eru dæmdir, fara í fangelsi – eða verða á endanum sendiherrar. Vissulega hefði Geir verið maður meiri ef hann hefði horfst í augu við ábyrgð sína af dýpt og og leyft sér raunverulega sjálfsskoðun. En hann gerði það ekki og þannig er það. Smátt og smátt lýkur málunum. Menn eru sýknaðir eða sakfelldir og sagan af hruninu verður til. Það gerir engum mein þótt einhverjir reyni að endurskrifa söguna eða snúa við dómi hennar. En það skiptir máli að klára málin. Og Guð blessi Geir Haarde og aðrar höfuðpersónur hrunsins.
Athugasemdir