Það var á vetrarkvöldi fyrir nokkrum árum. Ég var í apóteki, sennilega að kaupa mér þrúgusykur eða koffíntöflur. Í röðinni rakst ég á stelpu sem hafði verið með mér í meðgöngujóga nokkrum mánuðum fyrr. Eftir að hafa sagt mér allt um fyrstu vikurnar í lífi barnsins snerti hún mjúkan magann á mér og sagði: „Hvenær átt þú að eiga?“
Nokkrum árum seinna var ég að hlusta á skáldkonuna frænku mína lesa upp ljóð á kaffihúsi. Þar sem ég hlustaði tók ég eftir einum af mínum mörgu frændum hinum megin í salnum. Hann brosti óvenjublítt til mín. Eftir lesturinn, þegar ég stóð og reyndi að ákveða hvort ég ætti að fá mér súkkulaðiköku, croissant eða bæði með kaffinu, heyrði ég hvíslað: „Er það sem mér sýnist?“
Seinna flutti ég til Barcelona, borgar þar sem auðvelt er að finna tækifæri til að gera vel við sig í mat og drykk. Einhvern daginn birti ég montmynd af sjálfri mér þaðan, kátri og glaðri í þröngum kjól í sól. Við myndina skrifaði vinkona: „Er að bætast í barnahópinn? Til hamingju!“
Í fyrsta skipti sem ég var opinberlega grunuð um óléttu kom dálítið á mig. Kannski varð ég dálítið móðguð og mögulega velti ég því fyrir mér með trega að nú þyrfti ég að fara að blanda græna drykki á morgnana og skipta snickersinu út fyrir dökkt súkkulaði. En eftir því sem skiptunum fjölgaði fór ég að sjá fegurðina í þessu. Það er óborganlega skemmtilegt að fylgjast með fólki reyna að snúa sig út úr því að hafa sagt konu að hún hafi fitnað.
Næstu mánuði, þegar einhver góðviljaður kunninginn strýkur mér um kviðinn, tek ég glöð við hamingjuóskum. Í þetta sinn er nefnilega sem sýnist. En þegar barnið mitt verður komið og ég silast út í apótek eitthvert kvöldið, til að kaupa mér koffíntöflur og þrúgusykur, hitti ég örugglega góða manneskju, sem strýkur mér og spyr: „Hvenær áttu að eiga?“ Ég er strax farin að hlakka til.
Athugasemdir