Ég er fimmtugur hvítur karlmaður með víkjandi kollvik. Þetta þýðir að ég framleiði alveg heilan helling af testósteróni. Sem þykir ekkert ofsalega fínt nú á dögum. En ég kom mér ungur upp nokkrum siðareglum sem mér hefur tekist að fara eftir um ævina. Regla númer eitt er að leggja aldrei hendur á konur og börn eða minni máttar. Hins vegar get ég verið með ansi stuttan þráð við kynbræður mína, eins og um daginn þegar sölumaður O2 hringdi í mig um miðjan dag þegar ég var í óða önn að setja upp fartölvu sem var að koma úr viðgerð.
Herr Leifsson?
Það er hann …
Gut, Herr Leifsson. Við höfum tekið eftir að þér eruð með háan símreikning og viljum þess vegna bjóða … (Mikið kjaftæði á þýsku með óræðan hávaða í bakgrunni – þessi náungi er á kóki, það bara hlýtur að fokking vera).
Afsakið, ég er aðeins vant við látinn akkúrat núna.
Þetta er mjög gott tilboð, Herr Leifsson, þér munuð spara fullt af peningum. Þurfið bara að segja já eða nei og þá mun ég senda yður gögnin.
Ok, sendu mér þá bara þessi gögn svo ég geti skoðað þau í rólegheitum þegar ég er búinn að …
Það er ekki hægt! Þér verðið að segja já eða nei núna, þá sendi ég gögnin.
Heyrðu, bíddu ég er aðeins …
Hvað er það sem þér skiljið ekki, herr Leifsson?
Hu?
Hvað af þessu sem ég sagði áðan skilduð þér ekki?
Heyrðu, má maður ekki vinna í friði hérna? Um daginn vorum við feðgar að æfa okkur á gítar og þá hringdi einhver kollegi þinn með sama vælið. Þið eruð alltaf að trufla okkur …
Herr Leifsson! Eins og ég sagði áðan þá …
FICK DIR DU ARSCHLOCH! öskraði ég af öllum mínum lífs og sálar kröftum og slökkti á símanum. Og nei, ég ætla ekki að þýða þessa setningu. Svo sat ég þarna í hálfgerðu sjokki í dágóða stund. Hvern fjandann var ég að gera? Hvítur miðaldra karl með of mikið af testósteróni í blóðinu fríkar út og öskrar á sölumann. Hvað ef þessi sölumaður er á barmi örvæntingar, á síðasta séns að reyna að klára eina sölu? Átti hann þetta skilið? Fullt af fólki af minni kynslóð kann sig miklu betur en ég. Sjáið þingmenn Bjartrar framtíðar sem ég hafði þó vit á að kjósa þegar ég var í sögulegri testósterón-lægð. Ekki færi það sómafólk að öskra á símasölumenn.
„Hvern fjandann var ég að gera? Hvítur miðaldra karl með of mikið af testósteróni í blóðinu fríkar út og öskrar á sölumann.“
Og hvað ef gaurar eins og ég réðu heiminum? Hvað ef ég væri forseti Bandaríkjanna og með atómbombuboðtæki í rassvasanum? En það eru einmitt gaurar eins og ég og Donald Trump, já gaurar með stuttan þráð, sem ráða heiminum. Og vitið þið hvað?
Við erum öll í rosalega vondum málum.
Um daginn sagði Bobbi frændi mér að það væri mér að kenna að Trump var kosinn forseti Bandaríkjanna. Bobbi frændi er ekki einhver einn ákveðinn gaur heldur erkitýpan af miðaldra íslenskum karlmanni. Fráskilinn helgarpabbi sem er hættur að drekka og svolítið smeykur við sterkar konur – með réttu, þær hafa jú valtað yfir hann alla tíð.
Bobbi er samt besta skinn og ég held að það sé kannski bara rétt hjá honum að það sé mér að kenna að Trump er orðinn forseti Bandaríkjanna. Ég er nefnilega það sem gjarnan er kallað „réttlætisriddari“. Alltaf að suða eitthvað um heimsósómann og auglýsa góðmennsku mína – að vísu mun téður sölumaður O2 ekki kvitta upp á þá lýsingu á mér en við skulum láta það liggja milli hluta.
Hvern andskotann erum við réttlætisriddarar alltaf að tjá okkur um mannréttindi? Sum okkar ganga allt of langt í því, sífrandi um blackface og manspreading þar til að hugsandi fólk gefst upp og krossar við Trump og Teflon-Bjarna í örvæntingarfullri tilraun til að þurfa ekki að hlusta á vælið í okkur lengur. Okkur hefði verið nær að halda kjafti!
Eða ekki.
Því þegar upp er staðið verðum við Bobbi frændi að horfast í augu við þá tíma sem við lifum á. Femínistar og aðrir aðgerðarsinnar – sérstaklega þessir sem eru rétt að skríða yfir tvítugt núna – eru einfaldlega byltingarmenn dagsins í dag sem munu breyta heiminum, alveg eins og Bítlarnir og síðan pönkið gerðu þegar við vorum litlir. Og þá gildir engu þótt Bobbi sé voða sorrí út í konur sem hafa hafnað honum og ég sé ekki hrifinn af tónlist Reykjavíkurdætra því átakasvæði samtímans einskorðast ekki við væl á samfélagsmiðlum. The Times They are a Changing eins og Nóbelskáldið söng. Þriðja heimsstyrjöldin er við það að hefjast og Bobbi veit ekki einu sinni af því vegna þess að hann er einhvers staðar úti í skurði að frussa yfir „helvítis rétttrúnaðinum“.
Athugasemdir