Árið 2064 hófst flóttamannastraumurinn frá Íslandi fyrir alvöru í kjölfar þeirra átaka sem geisað höfðu á landinu á milli Rússa og Vesturveldanna. Deiluefnið voru gríðarlegar olíu og gaslindir sem fundist höfðu í landgrunni landsins. Rússar gerðu tilkall til þeirra og réðust inn í Ísland árið 2063 á Austurlandi. Tóku þeir yfir hafnaraðstöðu sem þýskt fyrirtæki hafði látið byggja fyrr á öldinni. Flestir starfsmenn flúðu við komu Rússa, en í bardögum sem stóðu yfir í um sólarhring féllu um 15 starfsmenn átökum við liðsmenn Spetsnaz-úrvalssveita Rússa.
Nokkur fjöldi Austfirðinga gengu til liðs við Rússa og smám saman komu fleiri liðsmenn rússneska hersins til landsins. Viðbrögð ríkisstjórnar Íslands var að senda sérsveit lögreglunnar á vettvang en þeir voru allir handteknir af Rússum þegar þyrlur sem sérsveitin ferðaðist í voru neyddar til þess að lenda í Öxnadal. Nokkrum dögum síðar hertóku Rússar Akureyri og settu síðan upp flugherdeild þar.
NATO dugði ekki til
Íslenska ríkisstjórnin sendi hjálparbeiðni til NATO, sem sem brást við með því að senda 2.500 manna herlið til landsins og þá varð fjandinn laus. Til mikilla bardaga kom á milli Rússa og hermanna NATO og teygði þetta sig á næstum mánuðum til höfuðborgarinnar, Reykjavíkur. Fyrst réðust Rússar á Breiðholt og létu síðan sprengjum rigna yfir miðborgina, sem og úthverfi hennar og nágrannasveitarfélög. Þeir sóttu síðan suður með sjó og náðu að loka Keflavíkurveginum. Þar með var útséð með flugsamgöngur til og frá landinu, þar sem flugvöllur var ekki lengur til staðar í Reykjavík, byggð höfðu verið íbúðarhverfi í stað Reykjavíkurflugvallar á öðrum og þriðja áratug 21. aldarinnar. Herlið NATO megnaði ekki að standa gegn þrautþjálfuðum hermönnum Rússa.
Flúðu á fiskibátum
Margir Íslendingar brugðu því á það ráð að flýja landið á fiskibátum, af öllum stærðum og gerðum. Flestir vildu fara til Danmerkur og Bretlands en einnig fóru margir til Færeyja. Hinsvegar voru þeir sem sóttu um hæli í Bretlandi ekki velkomnir, vegna þess að Bretar voru búnir að herða mjög innflytjendalöggjöf sína eftir að þeir höfðu gengið úr Evrópusambandinu. Og þar sem Ísland hafði sagt sig úr bæði EES og Schengen-samstarfinu gerði þetta málið líka erfiðara fyrir þá sem sóttu um hæli í Danmörku.
Mannskaðar á Norðursjó
Nótt eina í september 2064 gerði svo vitlaust veður á Atlantshafinu og þá voru nokkrir bátar með íslenska flóttamenn á ferð til Evrópu. Einn þeirra fórst á Norðursjónum á milli Skotlands og Noregs. Í honum voru um 200 manns og fórust 170 þeirra, bæði menn, konur og börn. Lík þeirra tók að reka á land í Danmörku, á strandlengjunni við Hirtshals og upp á Skagen. Var þetta eitt mesta sjóslys með Íslendingum það sem af var öldinni. Þeir sem lifðu af fengu hæli af mannúðarástæðum í Danmörku.
Hvað EF þetta, eða eitthvað álíka myndi gerast? Hugsum aðeins um það.
Athugasemdir