
Mér finnst nú eiginlega að ráðgjafar Davíðs Oddssonar ættu að vera honum ráðhollari.
Ekki láta hann fara opinberlega með tómt fleipur.
Nú hefur verið birt á netinu svar Davíðs við spurningu um hvers vegna TIME Magazine setti hann árið 2009 - eins og frægt varð - á lista yfir 25 helstu hrunvaldana, sjá hér.
Davíð gerir að vonum lítið úr málinu, en því miður skjöplast honum illilega þegar hann reynir að gera lítið úr TIME Magazine.
Hann segir:
„Þeir eru nú frægir þarna á Time fyrir þessa lista sína. Það var meira að segja sagt á Time að Jóhanna Sigurðardóttir væri í hópi 25 valdamestu kvenna í veröldinni. Á þeim tíma réði hún ekki einu sinni yfir Samfylkingunni, hvað þá fólkinu sem hún kallaði villiketti í Vinstri grænum og var búin að missa meirihlutann í þinginu.“
Þetta er tóm vitleysa.
Í fyrsta lagi voru 13 konur á lista TIME en ekki 25.
Það er nú kannski ekki stórmál. En í öðru lagi var þetta ekki listi yfir „valdamestu konur í veröldinni“.
Þetta var listi sem birtist árið 2011 yfir „Top Female Leaders Around the World“.
Það er að segja „helstu kvenleiðtoga vítt og breitt um heiminn“.
Þarna var að finna þær konur sem þá voru í valdastöðum í heiminum, hver í sínu landi.
Þarna voru leiðtogar Danmerkur, Taílands, Þýskalands, Argentínu, Brasilíu, Ástralíu, Líberíu, Bangladesj, Kosta Ríka, Finnlands, Litháens og Trínídads & Tóbagó - auk Íslands.
Það segir sig sjálft að TIME ímyndaði sér auðvitað ekki að þessar konur (fyrir utan Angelu Merkel) væru í hópi „valdamestu kvenna í veröldinni“.
Með fullri virðingu fyrir bæði Jóhönnu og Kömlu Persad-Bissessar forsætisráðherra Trínídad.
Hérna er það sem sagt var um Jóhönnu. Þetta eru bara almennar upplýsingar um hana og viðfangsefni hennar.
Og - í þriðja lagi - þar sem þetta var árið 2011 er heldur ekki hægt að kalla það rétt að Jóhanna hafi þá verið búin að missa meirihluta sinn á þingi.
En það er nú reyndar ekki stórmál heldur.
En Davíð ætti semsé að gæta sín á ráðgjöfum sínum, og ekki láta þá fóðra hann á upplýsingum sem eru svo augljóslega tóm tjara eins og það sem hann segir um veru Jóhönnu á þessum lista hjá TIME.
En ekki tekur betra við þegar Davíð heldur áfram:
„En þeir settu met þessir listamenn á Time á listanum hjá Time þegar þeir ákváðu að árið 1936 að Hitler væri maður ársins.“
Nú er Davíð greinilega ófróður um blaðamennsku, en einhver hefði átt að segja honum að „maður ársins“ hjá TIME hefur aldrei verið valinn út frá því hvort viðkomandi sé „góður“ eða falli blaðinu í geð.
„Maður ársins“ er einfaldlega sá sem ritstjórn blaðsins telur hafa haft mest áhrif á rás viðburða á tilteknu ári.
Og þó nokkrir hafa orðið fyrir valinu sem ritstjórn TIME hefur haft augljósa og mikla skömm á.
Þar má nefna Jósef Stalín árið 1939 og 1942, Ajatollah Khomeini 1979 og Vladimir Pútin 2007.
Það er því alls ekki til marks um að ritstjórar TIME hafi haft einhvers konar mætur á Hitler sem hann var valinn maður ársins.
Þetta hefðu ráðgjafar Davíðs átt að segja honum í stað þess að hleypa honum út í ljósvakann með svona hæpinn málflutning.
Alveg fyrir utan að Hitler var alls ekki maður ársins árið 1936.
Hann var valinn maður ársins árið 1938, enda hafði hann sannarlega haft sig mest í frammi það ár af öllum þjóðarleiðtogum - gleypt Austurríki og síðan Súdetahéruð Tékkóslóvakíu.
Það var Wallis nokkur Simpson sem var maður ársins hjá TIME árið 1936.
Ég vona að það séu ekki jafn hressilegar staðreyndavillur í öðru því sem ráðgjafarnir fræða frambjóðandann um.
Athugasemdir