Samkvæmt Dr. Ásgeiri Jónssyni, dósent í hagfræði, er ungt fólk í meirihluta brottfluttra Íslendinga undanfarna níu mánuði, en heildartala brottfluttra síðasta ár var um 3.400. Ingi Björn Eydal, sem stundar mastersnám í dagskrárgerð á Englandi, setti fram skoðun, sem vakti athygli í fjölmiðlum, á því hvers vegna ungir menntaðir Íslendingar flytja úr landi í hundraðatali. Hann sagðist orðrétt vera að flýja „þennan menningarlega rasisma og furðulegu hugmynd um að við séum á einhvern hátt betri en aðrir. [...] Ég er að flýja samfélag sem veltir sér endalaust upp úr minniháttar málum og málefnum, og pælir lítið í stærra samhenginu.“. Þar sem „hæfileikar og hæfni ráða ekki för við ráðningar heldur tengsl og frændsemi.“. Áhugavert er að bera þessar hugmyndir eins fulltrúa brottfluttra Íslendinga saman við bókmenntaheiminn hér á landi.
Bókmenntastofnunin og fræði
Stundum er talað um „bókmenntastofnun“ og er þá átt við alla þá félagslegu krafta sem kanonísera texta eða vinsa þá burt fyrir gleymskuna. Ef þetta hugtak er skilgreint þröngt út frá hinum Íslensku bókmenntaverðlaunum og bókum sem eru tilnefndar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs má lesa gildismat hennar út frá tölfræðisögu hennar. Til dæmis ef fræðirit, sem hafa hlotið hin íslensku bókmenntaverðlaun, eru könnuð, kemur í ljós að 32 prósent þeirra hafa tilbrigði við orðið Ísland í titilinum.
Þetta er vísbending um enn afdráttarlausari tölfræði fræðiritaverðlaunanna; í þau tuttugu og fimm ár sem verðlaunin hafa verið veitt hafa eingöngu fræðirit sem fjalla um Ísland eða Íslendinga fengið þau. Þetta kann að vera ein ástæða þess að fræðimenn sem hugsa út fyrir Íslandsrammann (Ísland er 0,02 prósent af yfirborði jarðar) og Íslendingarammann (Íslendingar eru 0,0048 prósent af mannkyninu) skrifa mikið á ensku. Ljóst er orðið eftir aldarfjórðung að íslensku fræðiritaverðlaunin eru fyrir höfunda sem skrifa um Ísland og/eða Íslendinga og er rétt að benda höfundum og útgefendum annarra fræðirita á það svo þeir eyði ekki peningum sínum í að upphefja hið þjóðlega gildismat með því að senda inn verk í verðlaunapottinn.
Bókmenntastofnunin og fagurbókmenntir
Ef þau rit, sem hlotið hafa hin Íslensku bókmenntaverðlaun í fagurbókmenntaflokki og hafa verið tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, eru könnuð, er vandséð að nokkru sinni hafi verk sem ekki er raunsætt, og ekki er með íslenskan sögumann, íslenskt sögusvið, íslenskan sögutíma, (þjóðgerviramminn) verið valið. Meðal verka eru frelsandi frávik frá þessu, en þetta er grunnramminn í 95-100 prósent tilvika, eftir því hversu þröngt menn kjósa að skilgreina hugtökin. Samkvæmt tölfræði bókmenntastofnunarinnar eru ekki til á Íslandi aðrar bókmenntagreinar, svo sem fantasíur, vísindaskáldsögur, spennusögur, hrollvekjur, og jafnvel ekki raunsæjar skáldsögur utan þjóðgervirammans.
„Engin fræði og engar bókmenntir eru fyrsta flokks nema Ísland og Íslendingar séu í forgrunni sem umfjöllunarefni.“
Er bókmenntastofnunin hagsmunatengd?
Ljóst er af ofansögðu að grundvöllur bókmenntastofnunarinnar er svofelld setning: „Engin fræði og engar bókmenntir eru fyrsta flokks nema Ísland og Íslendingar séu í forgrunni sem umfjöllunarefni.“ Fróðlegt væri að sjá einhvern rökstyðja þessa trúarsetningu. Við erum að virða hér fyrir okkur þjóðernislega íhaldssömustu stofnun landsins. Niðurstaða tölfræðisögunnar er svo hómogen þjóðernissjálfhverf að það er heillandi rannsóknarefni fyrir mannfræðinga að kanna hvernig fag sem á að lýsa víðsýni og framsýni er umlukt kröftum sem byrgja einmitt fyrir þessa þætti og gerir Ísland og Íslendinga eina alvarlega viðfangsefnið.
Sé tölfræðisagan lesin nánar má sjá hvernig þetta gildismat virðist hagsmunatengt. Undanfarin fimm ár er Forlagið með 100 prósent vinningssögu bæði í fagurbókmenntaflokki og barnabókaflokki Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Samt er Forlagið aðeins með eina bók af hverjum fimm á markaði. Ef sagan er skoðuð frá upphafi verðlaunanna sést að rúmlega 92 prósent verðlaunapeninganna eru innanhúss hjá Forlaginu. Aðeins tvisvar hafa önnur forlög en þau sem núna eru undir hatti Forlagsins, hlotið verðlaunin. Það þýðir að það ætti að gerast á rúmlega tíu ára fresti. Til að telja þetta eðlilegt verða menn að álíta líklegt að forlag sem er með fimmta hvern titil á markaði gefi þó út meira en níu af hverjum tíu bestu bókmenntaverkunum. Er kemur að tilnefningum til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs eru yfirgnæfandi líkur, samkvæmt tölfræðisögunni, á að verkin verði Forlagsins á næsta ári.
Rétt er að benda höfundum og útgefendum á að íslensku fagurbókmennta- og barnabókaverðlaunin eru verðlaun Forlagsins, og að peningar sem fara í tilnefningapottinn styrkja þá trú að hið þjóðlega sé öðru fremra.
Peningaleg og menningarleg áhrif
Höfundar sem fá hin Íslensku bókmenntaverðaun taka eðlilega að seljast betur, þeir fá þýðingasamninga sem nýtast Forlaginu, þeir eru meira kynntir af Miðstöð íslenskra bókmennta og þeir fá oftar ritlaun og hærri. Þegar þeir eru langflestir hjá einu forlagi verður þetta til þess að eitt forlag er með flesta söluhöfundana. Tölfræðisagan er það afgerandi að í rauninni er á brattan að sækja fyrir önnur forlög en Forlagið er kemur að því að gefa út fagurbókmenntir á mettuðum markaði. Eins er óraunsætt fyrir höfunda sem skrifa fræði eða bókmenntir, og eru utan Forlagins, og utan við þjóðgervirammann, að líta á bókmenntastofnunina sem eitthvað sem gæti nýst þeim.
Mögulegar umbætur
Forvitnilegt væri að vita hvort menn telji kominn tíma á að breyta aðferð við skipan í nefndir Bókmenntaverðlauna Íslands í ljósi tölfræðisögunnar. Ef nefndirnar væru frá upphafi óháðar Félagi íslenskra bókaútgefanda þá væri ljóst að ef menn vilja halda sig við þjóðernissjálfhverft gildismatið sem nú skín í gegnum verðlaunin þá væri sú lína að minnsta kosti örugglega óháð hagsmunum. Eins mætti íhuga hvort rétt er að tvískipta nefndinni sem tilnefnir bækur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Láta þá aðra nefndina velja þjóðgerviskáldverk eins og venjulega, hina verk úr öðrum bókmenntagreinum, eða raunsæ verk utan þjóðgervirammans.
„Tölfræðisagan gefur mynd sem gæti átt við nýlenduþjóð í harðri sjálfstæðisbaráttu.“
Tímamót?
Öll verkin til grundvallar tölfræðisögunni hér að ofan eru frábær en sagan sýnir að hún ræðst af gildismati, og ef það væri annað mætti í öllum tilvikum finna jafn góð verk sem sýndu fjölmenningarlegt gildsimat. Þetta er því spurning um hvort mætti aðlaga gildismatið samtímanum. Þótt tölfræðisagan líti út eins og spilling kunni að vera á ferð er ekki svo, bókmenntaheimurinn er aðeins skipaður góðu fólki sem gerir sitt besta. Hin sérstaka tölfræðisaga afhjúpar hins vegar þjóðernissolipsískan sofandahátt við mótun menningarpólitíkur. Tölfræðisagan gefur mynd sem gæti átt við nýlenduþjóð í harðri sjálfstæðisbaráttu.
Ein orsökin fyrir því að nú geta verið tímamót, (fyrir utan þá að hér eftir verður tölfræðisaga bókmenntastofnunarinnar trúlega reglulega skoðuð opinberlega), er að hún getur einfaldlega ekki orðið þjóðernissjálfhverfari og virst hagsmunatengdari. Önnur er að nútíma samskiptahættir hafa gert fólk nálægara milli landa en sem nemur aðskilnaðarkröftum landamæra, og því er þjóðgerviramminn löngu brostinn.
Skýrasta teiknið um þessi tímamót er að verk Bergsveins Birgissonar, Geirmundarsaga heljarskinns, sem markar hápunkt þjóðgerviskáldverksins. Með því að skrifa Íslendingasögu betur en þær voru flestar ritaðar þá er stigið inn í helgidóminn að baki trúarsetningu íslensks bókmenntaheims, hann handfjallaður, stallurinn fjarlægður, og goðið látið á gólfið. Bókin mölvar þjóðgervirammann og heimurinn ryðst kaótískur og óskiljanlegur, ekki aðeins inn í hugskot okkar, heldur vonandi líka upp í rúm rumskandi bókmenntastofnunarinnar.
Athugasemdir