Eftir því sem árin líða frá krísunni miklu, sem við köllum ýmist hrunið eða „hið svokallaða hrun“, er eins og krísum fari fjölgandi, frekar en að sigrast sé á þessari stóru. Ég hef á tilfinningunni að tvær krísur hrjái pólitíkina sérstaklega um þessar mundir. Önnur er flokkakrísa af ákveðnu tagi. Hún felst í því að annar flokkur þeirra tveggja sem hafa þingmeirihluta vill örugglega sleppa úr því faðmlagi. Til þess að svo megi verða þurfa aðrir flokkar að bjarga honum (sem þeir gera auðvitað ekki) eða halda þyrfti nýjar kosningar (sem er varla vænlegt fyrri hann heldur þegar Píratar myndu vinna stórsigur). Sem sagt stuðningur við stjórnarflokkana minnkar stöðugt. Annar flokkurinn er kominn niður í þriðjung af kjörfylgi. Í hinum sjá allir að eitthvað þarf að gera en engin leið virðist fær nema fórna völdunum.
Maður getur ekki annað en velt því fyrir sér hvað fólk var að hugsa fyrir tveimur árum, sem kaus flokkana tvo sem í dag stýra landinu og óskaði þar með eftir forystu leiðtoga þeirra. Forsætisráðherrann núverandi telur að hugmyndir hans hafi þótt snjallar og þess vegna hafi fólk kosið flokk hans. Hann furðar sig á því að nú, þegar hann er búinn að láta hrinda þessum hugmyndum sínum í framkvæmd, skuli fylgið samt halda áfram að dvína. En ætli fólk hafi kosið Framsókn vegna þess að „leiðréttingin“ væri svo snjöll hugmynd?
Kannski ekki. Það má hugsa þetta svona: Hvernig á maður að velja á milli þess annars vegar að fá peninga beint í vasann frá stjórnvöldum eða að fá ekkert í vasann í dag, en vera boðið að trúa á skynsamlega fjármála- og efnahagsstefnu sem muni í fyllingu tímans skila hagstæðara efnahagsumhverfi? Ef ég treysti stjórnmálamönnum fullkomlega væri líklega rétt að velja síðari kostinn. En hver gerir það? Í umhverfi vantrausts er augljóslega betra að taka fyrri kostinn fram yfir þann síðari.
Þar höfum við það: Þegar vantraust ríkir eru ákvarðanir skynsamlegar sem væru óskynsamlegar ef stjórnmálamönnum væri treystandi og kannski er hér komin skýringin á því að „leiðréttingin“ eykur fylgi Framsóknarflokksins ekki neitt jafnvel þótt búið sé að framkvæma hana.
En flokkurinn trúir á forsætisráðherrann og forsætisráðherrann trúir á leiðréttinguna og á eitthvað sem hann kallar grundvallargildi þjóðarinnar. Hann óttast meira að segja að þessum grundvallargildum verði kollvarpað komist flokkurinn, sem í dag virðist njóta mestra vinsælda, til valda. Þá verði gerð bylting. Og þar erum við komin að seinni krísunni. Hún er dýpri.
„En flokkurinn trúir á forsætisráðherrann og forsætisráðherrann trúir á leiðréttinguna og á eitthvað sem hann kallar grundvallargildi þjóðarinnar.“
Frá hruni hefur okkur verið boðið upp á tvær ríkisstjórnir. Hvað sem um þá fyrri má segja almennt, þá mistókst henni að vinna tiltrú almennings. Í stað þess að leiðirnar sem hún fór að því að leysa ýmis vandamál eftir hrunið þættu skynsamlegar eða traustar fékk stór hluti almennings á tilfinninguna að svo væri ekki. Næsta stjórn hefur lagt sig í framkróka við að gera allt á annan hátt en fyrri stjórn, kenna henni um allt sem miður hefur farið og snúa við ákvörðunum hennar. Og aftur gerist það sama. Tiltrú almennings er farin út í veður og vind. Það ríkti reiði í garð fyrri ríkisstjórnar. Að þessari er bara hlegið. Afleitur árangur það, því í lýðræðisríki er stuðningur almennings jú kapítalið sem öllu máli skiptir.
Ef ég væri stjórnmálamaður, sem hefði tekið þátt í annarri þessara tveggja ríkisstjórna, myndi ég velta fyrir mér af hverju í ósköpunum þetta hefði farið svona (ég vona að einhverjir þeirra séu að gera það, þessa síðustu daga þingsins). Ég myndi hugsa: „Hver er ástæðan fyrir því að meira en þriðjungur kjósenda segist ekki lengur ætla að kjósa okkur heldur ósamstæða hreyfingu fólks með ýmis markmið?“ (Kannski maður myndi líka fórna höndum og reyta hár sitt, en látum það liggja á milli hluta).
Kannski ástæðan sé sú að undirliggjandi ástæða krísunnar sem ég nefndi hér í upphafi varðar einmitt grundvallargildi. Stjórnmálamönnunum sem hefur verið treyst til að stjórna þessu landi hefur ekki tekist að sýna með neinum trúverðugum hætti að grundvallargildi stjórni stefnu þeirra og ákvörðunum. Þess vegna er líka stefnumálum þeirra tekið af kaldhæðni og jafnvel þótt þeir komi einhverju í framkvæmd sýna kjósendur þeim ekkert þakklæti. Þvert á móti virðist mörgum líklegra að ósamstæð hreyfing fólks með ýmsar skoðanir sé einmitt miklu líklegri til að verja grundvallargildi en þeir sem nú hafa völdin. Þetta er hin krísan.
Úr henni eru tvær leiðir mögulegar. Annað hvort halda „hefðbundnu“ flokkarnir (þessi sem forsætisráðherrann okkar heldur að standi vörð um grundvallargildin) áfram að grafa sér gröf og undirbúa valdatöku byltingarflokksins eða þeir fara í sumarfrí og nota það til að gerbreyta vinnuaðferðum sínum, talsmáta og sýn á lífið og starf sitt. Þá kæmu þeir nýir og betri úr fríinu í haust.
En þar sem kraftaverk þarf til að orðræða stjórnmálanna breytist, er líklega rétt að halda áfram að búa sig undir byltinguna.
Athugasemdir