Ég ætlaði alltaf að verða listamaður þegar ég yrði stór. Ég sat inni og teiknaði á meðan önnur börn í hverfinu voru úti í leikjum og ég myndskreytti allar skólabækur til óbóta. Ég lærði myndlist í tveimur menntaskólum og sótti um í Listaháskólanum. Hafnað. Það var súrt. Ég sem hafði hellt úr hjarta mínu í umsóknarmöppuna, hrárri og angistarfullri tjáningu í myndformi. Þar að auki málaði ég bílinn minn. Af því bara. Svo benti vitur maður mér á að maður lifir ekkert á listinni. Svo óstabíll bransi. Það þarf að hafa alvöru vinnu í bakhöndinni. Ég menntaði mig því í heilbrigðisvísindum og vænti þess að verða þinglýstur þræll ríkisins með hækkandi sól. Hjúkket.
Svo kemur skellurinn ár hvert. Umræðan um listamannalaun brýtur internetið og okkar reiðustu samfélagsþegnar á kommentakerfunum gnísta tönnum á lyklaborðin. Afætur, aumingjar, iðjuleysingjar sem sjúga spenana á harðduglegu vinnandi fólki þessa lands. Hafa þeir ekkert stolt? Hæfileikalaus skríll, blóðsugur á kerfið og skítugir bótaþegar. Eða einfaldlega geðsjúklingar eins og Almar í kassanum var kallaður. Skrifleg afhausun fyrir það að vilja ekki vinna við að berja stál eða sprengja fyrir jarðgöngum. Þetta vekur hjá mér óþægindahroll. Sama hrollinn og maður fær yfir sorgarsögunum í American Idol.
Ég hef samúð með listamönnum. Þeir höfðu manndóm í sér til að láta sköpunarþörfina ráða för og kjósa sér þetta lifibrauð. Að vera hrósað eða úthúðað eftir þeirri vinnu sem þeir skila af sér. Ef verkin þykja góð er þeim líklegast halað niður ólöglega gegnum netið frekar en að þau séu keypt. Og það er ekki hægt að saka alla listamenn um iðjuleysi. The Charlies börðust fyrir frama sínum árum saman í útlandinu, búandi saman í örfáum fermetrum. Þurftu að skeiða hvora aðra allar nætur og lifa á dósamat. Það er metnaður á nýju plani, allt fyrir drauminn um að lifa á listinni. Það eru ekki allir listamenn með alskegg og hatt, hangandi í myrkustu holum miðbæjarins að drekka soyalatte og monta sig af því að vera trúleysingjar og grænmetisætur. Vissulega mætti verja þessum fjármunum sem fara í laun listamanna í þarfari hluti. En þeir færu því miður aldrei í þarfari hluti. Þeir færu líklega beint í að uppfæra bílaflotann hjá ráðherrunum eða í að byggja aðra Hörpu.
Athugasemdir