I´ll tell you what freedom means to me. It means: No fear!“
Þessi orð mælti söng- og baráttukonan Nina Simone í viðtali sem birtist í nýrri heimildamynd um hana. Ég spólaði nokkrum sinnum til baka til að horfa á hana aftur og aftur segja þessi orð. Ég er svo hjartanlega sammála henni. Að vera hamingjusöm er að vera frjáls og ég get ekki verið frjáls nema ég sé laus við allan ótta. Það eru í raun bara til tvær grunntilfinningar. Þær eru kærleikur og ótti. Allar aðrar tilfinningar eiga rætur sínar að rekja til þessara tveggja tilfinninga. Og kærleikurinn getur aldrei verið í sama herbergi og óttinn. Svo ég held þar af leiðandi að leiðin að sannri hamingju sé að losa sig við óttann.
Í gegnum tíðina hefur minn helsti ótti verið óttinn við höfnun. Þá á ég ekki bara við að vera hafnað af manneskju sem ég á í ástarsambandi við - eða langar mjög mikið til að eiga í ástarsambandi við. Heldur bara ótti við höfnun í allri sinni dýrð. Hrædd við að fólki finnist ég einfaldlega ekki nógu dugleg, skemmtileg, traustverðug og svo framvegis. Ég hef smám saman náð að losa mig við þessar hugsanir, þennan innri ótta, sem eru í raun bara hindranir. Hindranir sem koma í veg fyrir að ég upplifi hamingju. Og er í dag nokkuð laus við spá í hvað öðrum finnst og get setið sátt í sjálfri mér og mínum eigin haus. Þetta frelsi veitir mér hamingjutilfinningu.
„Svo lengi sem ofbeldi af öllu tagi er eins algengt og raunin er, þá búum við ekki í friðsælu þjóðfélagi.“
Þetta er í raun mjög einfalt.
En samt ekki. Þrátt fyrir að ég búi í samfélagi sem auðveldlega má kalla friðsælt. Hér er ekki stríð og þar af leiðandi finnst fólki að hér ríki friður. Ég vil nú samt meina að hér ríki bara alls enginn friður. Svo lengi sem ofbeldi af öllu tagi er eins algengt og raunin er, þá búum við ekki í friðsælu þjóðfélagi. Ef einhver manneskja býr við ytri ótta við hverskonar ofbeldi þá er hún ekki frjáls. Ef einhver manneskja sem hefur orðið fyrir ofbeldi og upplifir þar að auki að reynsla hennar er þögguð niður, þá er hún ekki frjáls. Þessi þöggun veldur mér ótta og vanlíðan.
Á þessu ári, á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna, hefur hver byltingin um upprætingu ofbeldis og aukið jafnrétti riðið yfir á eftir annarri. Þörfin fyrir að vera frjáls undan skömminni, óttanum og óréttlætinu er orðin svo mikil að það væri, að mínu mati, auðveldara að stöðva eldgos í virku eldfjalli en að stöðva þessar byltingar. Bara það eitt að þessi kraftmikla orka sé nú leyst úr læðingi vekur með mér von. Von um að hér geti ríkt ofbeldislaust og þar af leiðandi óttalaust samfélag. Þetta er bara rétt að byrja. Þessi von veitir mér sanna hamingjutilfinningu.
Athugasemdir