Undanfarin ár hafa verið í gangi markvissar tilraunir til að svipta okkur Íslandi.
Nú er aftur verið að úthluta einstaklingum úr auðlind Íslendinga með makrílfrumvarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegsráðherra. Einn einstaklingur, Guðbjörg Matthíasdóttir, sem er líka aðaleigandi Morgunblaðsins og vinsælustu fréttasíðu landsins, fær 10 milljarða króna virði af auðlind okkar með frumvarpinu.
Fjórir menn hafa eignast sprengigíginn Kerið í Grímsnesi og við megum ekki sjá hann nema borga þeim fyrir það.
Eigendur þess hluta Íslands sem Námaskarð og Leirhnjúkur við Kröflu fyrirfinnast á byrjuðu að rukka fólk fyrir að sjá svæðin í fyrra.
Eigendur landsins þar sem Geysir, Strokkur og fleiri íslenskar náttúruperlur, fyrirfinnast á, byrjuðu líka að rukka okkur fyrir að sjá þær í fyrra.
Eigendur Bláa lónsins, sem er eitt af 25 náttúruundrum heims samkvæmt National Geographic fengu milljarð í arð af því í fyrra. Það kostar tæpar 20 þúsund krónur fyrir fjögurra manna fjölskyldu að fá að upplifa náttúruundrið okkar.
Fimm ríkustu „eigendur“ fisksins við Íslands eru með 126 milljarða króna af auðlindinni okkar. Margir af þessum eigendum auðlindanna hafa unnið hörðum höndum að því að byggja upp fyrirtæki sín, en þau byggja alfarið á auðlindum Íslands.
Það er að fjölga í hópi eigenda fisksins, þar á meðal eru þeir sem sjálfir eru meðlimir í flokkunum sem setja lög um að eigna þeim auðlindina.
Þegar eins konar eignarréttur var lögbundinn á auðlindinni, þegar leyft var að framselja kvóta, voru lögð drög að ríkidæmi þáverandi sjávarútvegsráðherra, sem mælti fyrir frumvarpinu. Hann varð milljarðamæringur. Við fengum hann síðan sem forsætisráðherra árið 2004.
Eigendur fisksins styrktu einstaka frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins um sjö milljónir króna og aðra um ekki neitt fyrir síðustu kosningar. Í heild fengu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur, sem eru í ríkisstjórn, 80 prósent allra styrkja frá fyrirtækjum, til að sannfæra kjósendur um að kjósa sig. Píratar, sem mælast nú með um 30 prósenta fylgi í skoðanakönnunum, fengu ekkert frá fyrirtækjum.
Forstjóri Century Aluminium sagðist vera spenntur fyrir tilhugsuninni um ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fyrir síðustu kosningar, eftir að hafa hitt Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni ákvað að hækka skatt á matvæli og bækur, en hætta með auðlegðarskatt á ríkasta fólk landsins, og afnema síðan 1,6 milljarða króna skatt á álfyrirtæki, eftir að hann komst til valda. Þeir geta alltaf sagt að þetta hafi verið tímabundin skattlagning, en hvers vegna hefur öll tímabundin skattlagning gegn okkur og verðtrygging bankanna á lánum til okkar ekki verið afnumin?
Þau munu halda áfram að sannfæra okkur um:
- að það sé best fyrir okkur að þurfa að kaupa passa til að sjá landið okkar,
- að ákveðnir einstaklingar eignist óveiddan fisk án réttláts endurgjalds,
- að álfyrirtæki borgi ekki skatt fyrir að menga landið og nýta orkuna okkar,
- að við megum ekki „hrekja“ kjarnameðlimi flokkanna út úr stofnunum samfélagsins sem eiga að vera sjálfstæðar og veita þeim aðhald.
Þau eru ekki slæmt fólk. Flest þeirra, fyrir utan þau sem verða eða hafa beinlínis orðið milljónamæringar af eigin lagasetningum, líta svo á að þetta sé besta leiðin til að skapa verðmæti fyrir heildina. Um leið og við skráum auðlindir Íslands sem eignir einhverra blæs íslenska bókhaldið út. Þeir geta þá veðsett og skapað skuldir út á eignir sínar, sem áður voru okkar. Og nýtt þær skuldir til að kaupa fyrirtæki landsins, og fyrirtæki annarra landa, sem stækkar aftur bókhald Íslands.
Vandamálið er að auðlindir landa ráða ekki auðlegð þjóða. Það er ráðstöfun auðlindanna sem ræður auðlegð fólksins í landinu.
Mestu auðlindir landa heimsins má til dæmis finna í Venesúela, Sádí-Arabíu, Írak, Íran og Rússlandi. Í öllum þessum löndum hefur áróðri þjóðernishyggju og/eða trúarbragða verið beitt til að fylkja fólki að baki valdhöfum í hverju því sem þeir taka upp á. Öll þessi lönd eru á topp tíu listanum yfir þau lönd sem ráða yfir mestu auðlindum heimsins.
Það er í ríkjum þar sem mannauður er mest metinn, menntun er mest, jafnrétti er mest og lýðræði er mest þar sem fólkinu farnast almennt best.
Það gerist ekki með innantómri reiði okkar, samþjöppun valds, misskiptingu eða skipulegum áróðri hagsmuna- og valdaaðila, eins og dæmin hafa sannað um allan heim.
Ef við treystum ríkisstjórn undir stjórn milljónamæringa best til að stýra landinu verðum við að beita því sem við höfum til þess að forða því að réttindi okkar og eignir séu flutt yfir til þeirra sem hafa aðra hagsmuni en við sem heild. Í því felst að þjóðaratkvæðagreiðslur séu virtar, loforð um þær séu ekki svikin og stjórnarskráin sé ekki í einkaeigu fámenns hóps valdhafa sem hefur svipt okkur framangreindu.
Við eigum sameiginlega orkuna, fiskinn og landið, og þeir eiga að borga okkur fyrir að fá að nýta það, frekar en að láta okkur borga fyrir það í nafni stöðugleika eða landverndar.
Athugasemdir