Það hvarflaði ekki að mér þegar ég lagði drög að ríflega þriggja mánaða ævintýraferð fjölskyldunnar um fjarlæg lönd að ég væri að dæma sjálfa mig til versta FOMO-tímabils lífs míns. Nei. Hugmyndaflug mitt dreif ekki þangað. Mér fannst ég öllu heldur hafa öll tromp á hendi, þarna í byrjun árs þegar skammdegið hélt landinu enn í heljargreipum og rigningarsumarið™ var ilmandi ferskt í minningunni. Ég, sem var á leið til lands þar sem tré standa í blóma árið um kring og hunangið – tja, agaveið – drýpur af hverju strái.
FOMO, fyrir þá sem ekki vita (eða fletta ekki reglulega upp í slangurorðabókum á netinu í langveikri von um að halda í við ungdóminn) er ensk skammstöfun yfir fear of missing out. Þetta er auðvitað ný uppfinning, eingetin af samfélagsmiðlum og þarlendum stöðugum straumi áminninga um að við séum ekki að gera jafn mikið og aðrir, upplifa jafn mikið. Vera jafn mikið.
Mér fannst þetta góð hugmynd þegar við flettum upp flugmöguleikum, farangursheimildum og bólusetningum í vor. Að sleppa haustrigningunni, jólastressinu, myrkrinu sem fikrar sig sífellt nær. Snúa aftur þegar sól er tekin að hækka á lofti. Ég gleymdi. Ég gleymdi að taka jólabókaflóðið með í reikninginn.
Þetta eru fatal mistök, augljóslega, og ef ég væri ekki sjálfstætt starfandi væru allar líkur á því að ég yrði rekin. Ég starfa við bókmenntir. Tala um þær, skrifa um þær, kenni þær, fjalla um þær. Og hér sit ég, í 7.563 kílómetra fjarlægð frá Reykjavík í beinni loftlínu, og engist. Kvelst. Ég hef ekki lesið stafkrók af öllu því lostæti sem kemur út þessa dagana. Ég hef ekki tætt í mig verðlaunaljóðabækur eða samfagnað vinum mínum, hef ekki svo mikið sem fundið ilminn af brakandi nýjum kili sem opnast í fyrsta skipti. Mínir samfélagsmiðlar svella af bókafréttum, bókadómum, bóklesandi fólki og bókelskandi og ég er hér stödd með fjórar gamlar Andrésar Andar syrpur keyptar í Góða hirðinum fyrir syni mína og einn Nesbø.
Aldrei aftur. Og ef ég má biðja ykkur um einn greiða? Njótið. Fyrir mig.
Athugasemdir