Feðraveldið á sér margar og fjölbreyttar birtingarmyndir. Metoo byltingin afhjúpaði hversu algengt kynferðislegt ofbeldi og áreitni er gagnvart konum. Konur á öllum mögulegum sviðum samfélagsins stigu fram með sambærilegar sögur. Frásagnir af hegðun karla sem konur hafa þekkt í gegnum tíðina og samfélagsleg öfl hafa normalíserað með klisjum um að það ,,sé nú bara svona að vera kona“.
Drusluskömmun kvenna fyrir kynhegðun er önnur birtingarmynd á meðan karlar fá verðlaun fyrir kynferðislega virkni. Þöggun fer fram með skömmun, háði og smánun á konum sem ræða kynferðisofbeldi og nú síðast hafa karlar viljað fá konur dæmdar fyrir að tala um reynslu sína. Staðalmyndir og æskudýrkun á konum eru þeim ekki í hag og skortur á valdeflandi fyrirmyndum fyrir stúlkur, t.d. í atvinnulífinu, barnaefni, í fjölmiðlum, og samfélagsmiðlum er sláandi. Að það séu efasemdir til staðar á Alþingi, æðstu valdastofnun okkar, um að konur eigi að hafa forræði yfir eigin líkama er bein kúgun. Kynþokkavæðing á líkömum kvenna gegnsýrir menningu okkar, hvert sem augað lítur. Konur hafa verið skrifaðar markvisst úr sögunni, það er með hreinum ólíkindum hversu viðtekið það hefur verið í gegnum tíðina að konur hafa ekki fengið viðurkenningu fyrir afrek sín og mark sem þær hafa sett á samtíma sinn. Launamunur kynjanna er veruleiki sem hefur alltaf fylgt okkur þrátt fyrir aðgerðir og þá staðreynd að konur eru betur menntaðar og fá hærri einunnir þegar litið er heilt yfir skólakerfið.
Litið á konur sem frávik
Í menningunni er litið á karla sem viðmið og konur sem frávik, sem endurspeglast í tungumálinu okkar. Blandaðir hópar eru ávarpaðir í karlkyni. Við nefnum ekki kyn þegar karlar eru annars vegar en gerum það um konur. Karlar eru einstaklingar, konur eru kyn - hópur. Kröfur til kvenna eru meiri en til karla á öllum sviðum. Á meðan körlum fyrirgefast stór og smá mistök og jafnvel brot af yfirlögðu ráði, er konum hengt fyrir smæstu yfirsjónir og kyni þeirra haldið gegn þeim. Kannski er það svívirðilegasta, klámið og klámvæðingin, þar kristallast kjarni ofbeldis og kvenfyrirlitningar gegn konum. Þegar kynlífi og ofbeldi er blandað saman til kynörvunar fyrir gagnkynhneigða karla, er botninum náð í menningu sem við viljum kalla siðmenntaða. Hér eru aðeins örfá dæmi nefnd af mýmörgum. Útilokun, undirskipun og í versta falli kúgun og ógnun er upplifun kvenna af feðraveldinu.
„Nú er hinsvegar sá tími kominn að femínisminn er farinn að rífa verulega í gaddavírsgirðingu feðraveldisins“
Bent hefur verið á (upphaflega af femínistum) að karlar tapi líka í kerfi feðraveldisins. Forréttindin hafa verðmiða. Karlar falla frekar fyrir eigin hendi og eru líklegri til að sitja í fangelsum en konur. Strákum er bannað að sýna tilfinningar því það er veiklyndi og þeir hæddir og spottaðir ef þeir eru kvenlegir (sem er vitaskuld kvenfyrirlitning). Gagnkynhneigðarremba er gegnumgangandi í karlmennskunni. Það blasir við að það er karlmennskan sjálf sem fjötrar karla. Hegðun, gildi og staðalmyndir sem er þvingað uppá drengi og karla geta verið skaðleg – bæði þeim sjálfum og öðrum. Drengir og karlar þurfa líka frelsi frá kúgandi karlmennskuhugmyndum. Þessu verða karlar sjálfir að breyta, og geta treyst á stuðning femínista í þeirri vegferð.
Skjaldborg slegið um samtryggingu karlægrar menningar
Skjaldborg samtryggingar karllægrar menningar nær til allra sviða samfélagsins. Nú er hinsvegar sá tími kominn að femínisminn er farinn að rífa verulega í gaddavírsgirðingu feðraveldisins. Þegar rætt er um meinta öfga í málflutningi femínista, þá skal það haft í huga að enginn femínisti hefur notað hvassara orðfæri eða harkalegri aðferðir í málflutningi sínum eða aðgerðum, en það sem feðraveldið hefur beitt gegn konum í gegnum alla söguna. Femínistar komast ekki með tærnar þar sem feðraveldið hefur hælana í öfgum. Gagnrýni á feðraveldið er ekki stríðsyfirýsing á karlmennsku heldur ákall um endurskilgreiningu, körlum og öðrum kynjum til heilla. Konur hafa í gegnum tíðina barist af hetjuskap gegn hverskonar misrétti og uppskorið, þrátt fyrir að feðraveldið hafi alla tíð varist smæstu breytingum. Nú er samstaðan víðtækari, konur og önnur kyn snúa bökum saman og hópur karla tekur þátt í baráttunni. Við sjáum vissulega árangur þó bakslög hafi fylgt hverju fótmáli. Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur öll á því að hvert skref í átt að jafnrétti hefur kostað baráttu. Enginn sigur hefur unnist baráttulaust. Það er því ansi ódýrt að segja ,,þetta er allt að koma“ – sagan segir okkur að það kemur ekkert af sjálfu sér þegar jafnréttismál eru annars vegar. Þess vegna þarf að viðhalda öllum áfangasigrum með áframhaldandi baráttu, þar til jöfnuði hefur verið náð og við getum farið að slaka á og njóta okkar á grundvelli sanngirnis og réttlætis. Sú barátta verður aðeins háð með samstöðu og upplýstri umræðu þar sem við vinnum markvisst að frelsi einstaklinganna og farsældar samfélagsins.
Líklega munum við ekki upplifa jafnrétti kynjanna nema karlar átti sig á forréttindum sínum og verði reiðubúnir að láta af þeim. Að karlar sjái hagsmuni sína í frelsi undan oki skaðlegrar karlmennsku.
Við þurfum að fræða fólk og skólakerfið ber mikla ábyrgð. Í öruggu rými kennslustofunnar getum við skoðað samfélagið, greint það, rýnt og rætt. Til þess þarf vel undirbúinn kennara og skólasamfélag sem vinnur með jafnréttishugsjóninni í öllum sínum störfum.
Athugasemdir