Í dag, 29. júlí, hefur mannkynið klárað allar þær auðlindir sem jörðin getur endurnýjað á einu ári. Það sem eftir lifir árs mun mannkynið ganga á auðlindir jarðar og jafngildir þetta því að mannkynið sé að ganga á auðlindir jarðar 1,75 sinnum hraðar en vistkerfi jarðarinnar geta endurnýjað sig. Á síðasta ári rann þessi dagur, sem nefna má yfirskotsdaginn, einnig upp 29. júlí og hefur hann aldrei verið fyrr á árinu.
Gögnum hvað þetta varðar er safnað saman og birt á síðunni Earth Overshoot Day en að baki þeirri vinnu er nokkur fjöldi samtaka þó Global Footprint Network sé þar leiðandi afl. Meðal annars taka stærstu náttúruverndarsamtök heims, World Wildlife Fund, þátt í verkefninu. Unnið er með gögn Sameinuðu þjóðanna fyrir einstök lönd og yfirskotsdagar þeirra reiknaðir sérstaklega en einnig yfirskotsdagur jarðarinnar í heild. Í ár er unnið með tölur frá 2016 þar eð ekki liggja fyrir nýrri tölur hjá Sameinuðu þjóðunum frá þeim löndum sem eru undir í gagnasafninu.
Gögnin sem safnað hefur verið saman á vefsíðu Earth Overshoot Day ná aftur til ársins 1970 en þá rann yfirskotsdagurinn upp 29. desember. Það þýðir að fyrir rétt tæpum 50 árum var neysla mannkyns um það bil á pari við það sem jörðin réði við að endurnýja á ári. Aukning í mannfjölda og aukin neysla hafa fært yfirskotsdaginn sífellt framar á árinu sem þýðir að mannkynið þarf nú í raun 1,75 jarðir nema því aðeins að snúið verði af braut ofneyslu.
Gögn um Ísland er ekki að finna á síðu Earth Overshoot Day. Tiltekið er að ekki fari öll lönd fram yfir í neyslu og því séu ekki birtar upplýsingar um þau, en ekki er ljóst hvort það eigi við í tilfelli Íslands. Af þeim löndum sem gögn eru birt um má sjá að yfirskotsdagurinn rann fyrst upp í Katar, 11. febrúar, og síðan í Lúxemborg, 16. febrúar. Vestræn ríki raðast almennt fyrst á árið þó það sé ekki algilt. Þannig er yfirskotsdagurinn í Bandaríkjunum 15. mars og 18. mars í Kanada. Norðurlöndin raðast frá lokum mars og fram í miðjan apríl. Í Danmörk er yfirskotsdagurinn 29. mars, í Svíþjóð 3. apríl, í Finnlandi 6. apríl og í Noregi 18. apríl.
Athugasemdir