Ég gúglaði þetta um daginn: 'what ism are we living in now?' Niðurstaða leitarinnar var ekki afgerandi. Upp komu hugtök eins og post post modernism og cynicism og ýmsar vangaveltur um það hvort yfir höfuð væri hægt að greina líðandi stundu. Hvort eiginlegt heiti á samtímanum þyrfti ekki að koma frá fólki framtíðarinnar sem horfir til baka á núið sem er núna. Svo ekkert konkret svar kom út úr þeirri google-leit, en ég rakst á hugtak sem vakti athygli mína. Hugtakið cultural hauntology. Menningarlegur draugagangur. Í grófum dráttum er það umdeild menningarleg greining á samtímanum frá níunda áratug síðustu aldar, þar sem dregin er sú ályktun að við séum komin á menningarlega endastöð.
Hvað þýðir að vera á menningarlegri endastöð? Ef við spáum í það þá erum við búin að vera að gera svo til sömu hlutina í nokkur þúsund ár. Kannski ekki alveg nákvæmlega sömu hlutina í alveg nokkur þúsund ár, en Aristóteles var uppi eitthvað þrjú hundruð fyrir Krist og við erum enn að nota formúluna hans til að segja sögur. Sama form til þess að tjá. Formið er auðvitað búið að þróast og breytast síðan, en það eru komin alveg góð 30 ár síðan formið var fullkomnað.
„Upplifanir okkar af þessum draugum eru svo að segja draugar hinna upprunalegu upplifana“
Lög eru samin eftir forminu kórus, vers, kórus, vers, brú, kórus kórus, eitthvað þannig. Kvikmyndir eru gerðar eftir forminu og nánast sama kvikmynd er gerð aftur og aftur, aðalpersónan skiptir í mesta lagi um hárlit milli mynda. Skáldskapur snýst um að vinna með formið. Leikrit eru skrifuð eftir forminu og í leikhúsinu eru verk endurnýtt að fullu á sirka 10 ára fresti. Þar er allt endurnýtt, nafn verks, saga þess, framvinda, nöfn persóna, allt. Það er eiginlega verið að skapa drauga þess sem nú þegar hefur verið skapað. Upplifanir okkar af þessum draugum eru svo að segja draugar hinna upprunalegu upplifana.
Sýninguna Ríkharður III í Borgarleikhúsinu sá ég á dögunum, sú sem fékk flest Grímuverðlaun fyrir núlíðandi leikár. Þegar ég sá sýninguna fattaði ég eitthvað sem ég er búin að vera að hugsa í undirmeðvitundinni í mörg ár. Ríkharður III er virkilega vönduð sýning, vel að henni staðið, vel leikin, vel leikstýrt, allt vel gert. Mér leið bara vel á þessari sýningu. Og ég fór að spá. Af hverju líður mér svona vel að sitja hérna? Það er verið að segja mér sögu um ofbeldi. Sorglega sögu um ógeðslega siðblindu. Ég fattaði það, þar sem ég sat í áhorfendasalnum. Það er náttúrlega verið að flytja hér fullkomið leikrit. Handverkið sjálft er fullkomið. Uppsetningin er líka fullkomin. Ég var í rauninni að njóta fullkominnar sögu sem var sögð á fullkominn hátt, út frá forminu.
Mig langar að segja að formið sé karllægur frásagnarháttur, þetta er rosa mikið kallar að hampa köllum og fáeinar konur að hampa köllum, en það er víst orðið eitthvað þreytt að tala svona um karl og kven, hvort það hreinlega má lengur, ég veit það ekki. Þessi brjálæðislega tvíhyggja líka, ég bara í alvöru veit ekki betur, ég er alin upp við þessa vitleysu. Reyndar langar mig ekki að kalla menninguna karllæga þar sem kvenmenn hafa skapað eftir forminu, og hafa karlmenn skapað út fyrir formið alla tíð. Kannski hentar að kalla hana akademíska? Samt ekki, menntastofnanir framleiða alveg „kvenlæga“ listamenn. Helst vil ég kalla þetta einhverju fræðilegu menningarlegu hugtaki sem leggur tvíhyggju. Ekki til. Sko, ég sé þetta svona. Formið er dómínerandi frásagnarháttur sem hefur haft yfirhöndina í menningu í tvöþúsund og eitthvað ár. Karlar og konur hafa hampað list af þessum toga og menning yfir höfuð hefur verið af þessum toga síðan alltaf. Við fórum þarna í gegnum póstmódernismann sem braut formið niður og hafði í för með sér eins konar andsköpun, sem fól þó alltaf í sér sköpun út frá formúlunni. Að þessu leyti er hægt að segja að við séum ásótt af formúlunni. Það er reimt. Eftir stöndum við og afhendum draugum Óskarinn eða keppumst við að gera listaverk sem hreppa verðlaunagripi. Tjáning og sköpun af öðrum toga hefur verið falin, söbmissíf. Hún hefur verið til, jafn lengi og jafn mikið og hin dómínerandi menning, en hún hefur verið ósýnileg.
„Það er miklu erfiðara að neyta listaverka sem ná handan við fullkomleikann“
Sem listamaður hef ég reynslu af því að vera ásótt af forminu. Fyrsta leikrit sem ég skrifaði, skrifaði ég í háskóla og það var fullkomlega eftir formúlunni, fullkomlega óvart. Það er svo rótgróið í kerfið okkar að það þarf að velja meðvitað að skapa ekki eftir forminu. Mér finnst alveg brjálæðislega gott að sitja í leikhúsi og horfa á fullkomið leikrit. Það er miklu erfiðara að neyta listaverka sem ná handan við fullkomleikann.
Rökrásin, útvarpsleikrit eftir Ingibjörgu Magnadóttur, þurfti ég að hlusta á í pörtum. Verkið kallaði á að ég væri umlukin vatni við hlustun þess, og áður en ég vissi sjálf af var ég búin að láta renna í bað, klæða mig úr fötunum og leggjast ofan í baðið. Verkið náði svoleiðis inn að beini að ég þurfti að hlusta á það í baði! Hvernig á maður að greina svona listaverk? Það er ekki hægt að segja frá þessu, þetta er á svo flóknu tilfinningalegu plani.
Ég sá Hlustunarpartý eftir Ásrúnu Magnúsdóttur árið 2017. Sýning þar sem sirka 20 unglingar dansa sóló, hver unglingur við sitt uppáhalds lag og endar á danspartíi. Fyrst vissi ég ekki hvað mér átti að finnast. Ég vissi ekki hvað þetta var, hvers konar uppbygging þetta var, hver skilaboðin voru, UM HVAÐ ER ÞESSI SAGA? Svo áttaði ég mig. Það er ekki hægt að nálgast þetta listaverk með þessum hætti. Verkið krefst þess ekki af mér að ég svari þessum spurningum. Það er ekki verið að segja mér sögu. Verkið er í tómi og svífur um í formleysunni sjálfri og er einungis til í huga þess sem skynjar, ef þá þar. Upplifunin verður andleg og erfitt að tjá hana eða greina.
KOK eftir Kristínu Eiríksdóttur er listaverk sem slær akademísku greiningartólin úr höndum manns og biður um líkamlega og tilfinningalega hlustun. Skynjun. Það er eins og það verk gleypi líkama manns í heild við lesturinn, og heilinn ræður engu um það. Upplifunin við lesturinn er hárfín og sensitív og orð og þeirra takmörkun lýsir henni heldur ekki. KOK krafði mig um tegund af læsi sem ég er ekki með þjálfun í.
„Þessi tegund tjáningar kallar á að listamaðurinn kúpli sig að einhverju leyti frá samfélaginu, loki af kapítalískan hraða þess“
Rökrásin, KOK, og Hlustunarpartý eru dæmi um hið söbmissíva form. Söbmissíva tjáningu. Þar sem listamaðurinn er á öðru tempói, annarri bylgjulengd. Þessi tegund tjáningar kallar á að listamaðurinn kúpli sig að einhverju leyti frá samfélaginu, loki af kapítalískan hraða þess. Sköpunin verður aftur einhvers konar spiritúal atferli þar sem uppsprettan er ekki tengd nútímasamfélagi. Listamaðurinn er ekki að penitreita með sköpun sinni, heldur er neytandinn gleyptur af verkinu. Listamaðurinn er ekki að brjóta niður formúluna eða skapa út frá henni. Listamaðurinn nær einfaldlega tengingu við aðra uppsprettu sem virkar öðruvísi. Og kannski öfugt. Úr verður tjáning á forsendum listamannsins sem er að skapa. Tjáning þar sem hin fullkomna, tilbúna formúla er ekki faktor.
Massinn er ekki kominn með læsi fyrir þetta. Leiðinlegt og yfirlætisfullt að nota orðið massi, en það er pínu gaman og líka bara satt. Við höfum þróað fullkomið læsi á efni sem gefið er út samkvæmt forminu og það sem skapað er útfrá þessari formúlu hefur hingað til fengið áheyrn, annað ekki. Við erum ekki í æfingu á söbmissívri tjáningu, það er ekki enn orðið þægilegt að fá þannig frásögn. Þess er krafist af neytandanum að nota líkamann. Skynja, finna, hlusta, horfa, vera. Ekki skilja og hugsa.
Athugasemdir