Aðeins lítill hluti aðgerðaáætlunar ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum hefur verið útfærður með nógu skýrum og skilgreindum hætti til að hægt sé að áætla hvaða ávinningi aðgerðirnar munu skila að því er varðar samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.
Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu Umhverfisstofnunar þar sem losun Íslendinga næstu árin er framreiknuð með hliðsjón af yfirlýstum áformum ríkisstjórnarinnar.
Óhætt er að fullyrða að engin ríkisstjórn hafi sett sér jafn háleit markmið í loftslagsmálum og sú sem nú situr. En markmiðin eru fjarlæg og helsta stefnuplaggið, Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum 2018–2030, hefur sætt harðri gagnrýni umhverfisverndarsamtaka sem segja stefnumiðin óljós og illmælanleg.
„Áætlunin er hvorki magnbundin né tímasett,“ segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, í samtali við Stundina. „Hún nær til þröngra og einangraðra sviða, og þar er jafnvel sneitt hjá sviðum sem ríkið gæti auðveldlega stigið inn á, til dæmis að því er varðar landbúnað og fjármálakerfið.“
Athugasemdir