Sjö þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði með breytingartillögu Páls Magnússonar um að rétturinn til þungunarrofs miði við 20 vikur í stað 22 vikna.
Þetta eru þeir Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Haraldur Benediktsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Óli Björn Kárason og Páll Magnússon.
Með tillögunni var lagt til að réttur kvenna til að gangast undir þungunarrof vegna vansköpunar, erfðagalla eða sköddunar fósturs yrði skertur um tvær vikur frá því sem nú er. Hins vegar hefði breytingin rýmkað réttinn til þungunarrofs af félagslegum ástæðum um fjórar vikur.
Átta þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðust gegn stjórnarfrumvarpinu í heild, meðal annars formaðurinn Bjarni Benediktsson og Birgir Ármannsson þingflokksformaður.
Breytingartillagan hefði skert rétt kvenna
Tillaga Páls Magnússonar um 20 vikna vikufjölda var tilraun til að miðla málum og koma til móts við gagnrýnisraddir. Sigurlaug Benediktsdóttir fæðingalæknir gagnrýndi tillöguna harðlega í viðtali sem birtist í nýjasta tölublaði Stundarinnar.
„Í dag býðst verðandi mæðrum fósturgreining í 19. eða 20. viku. Ef grunur vaknar um fósturgalla, þá getur það tekið 1–2 vikur að gera endurteknar skoðanir og rannsóknir þar til niðurstaða liggur fyrir og konan stendur frammi fyrir þeirri ákvörðun hvort hún kýs að halda áfram meðgöngunni eða rjúfa hana,“ sagði hún.
Á undanförnum árum hafa á bilinu 7 til 10 konur á ári rofið þungun eftir að gallar greindust við 20 vikna fósturgreiningu.
„Það er ekki hægt að þvinga konur til að ákveða undir eins hvort þær vilji gangast undir þungunarrof eftir fósturgreininguna, svo væntanlega þyrfti að flýta skoðuninni, láta hana fara fram í 17. eða 18. viku. Fyrir vikið yrði greiningin ekki nærri jafn nákvæm og hún er í dag. Mér sýnist þetta ekki vera hugsað til enda. Að færa mörkin niður í 20 vikur væri að skerða rétt þess hóps kvenna, hvers fóstur er með alvarlegan fósturgalla. Það væri sömuleiðis mun lakari þjónusta fyrir þann stóra hóp kvenna sem óskar eftir fósturgreiningu, að framkvæma skoðunina í viku 17–18. Þetta væri mikil afturför og skerðing á gæðum þjónustunnar.“
Afgerandi stuðningur frá Samfylkingu, Pírötum og Viðreisn
Frumvarpið um þungunarrof var samþykkt með 40 atkvæðum gegn 18.
Eins og sjá má hér að ofan studdi stór hluti stjórnarandstöðunnar frumvarpið, meðal annars allir þingmenn Pírata, Samfylkingarinnar og Viðreisnar.
Þá greiddu allir þingmenn Vinstri grænna og Framsóknarflokksins atkvæði með því en minnihluti þingmanna Sjálfstæðisflokksins.
Hópur fólks mætti á þingpalla og fagnaði eftir að atkvæðagreiðslunni lauk.
Athugasemdir