Þrátt fyrir vinsældirnar er þekkingin á ágætum þeirra sem viðbót við annars hollt mataræði enn nokkuð takmörkuð. Nýlegar niðurstöður rannsóknar á músum bendir til þess að mikil inntaka á svokölluðum BCAA amínósýrum geti í raun valdið meiri skaða en ávinningi.
Meginniðurstaða rannsóknarinnar, sem framkvæmd var af rannsóknarhópi við Sydney-háskóla, var sú að inntaka á of miklu próteini geti leitt til neikvæðra áhrifa á borð við þyngdaraukningu, neikvæðra áhrifa á lund og jafnvel stytt líf viðkomandi.
Lífsnauðsynlegar amínósýrur
Amínósýrur eru byggingarefni próteina og eru þær sem mannslíkaminn nýtir 20 talsins. Af þeim eru níu sem lífsnauðsynlegt er að við fáum úr fæðunni okkar. Ef við fáum nægilega mikið af þeim getur líkaminn sjálfur framleitt hinar 11.
Mörg bætiefni innihalda BCAA eða greinóttar amínósýrur (e. branched chain amino acids). BCAA amínósýrurnar eru þrjár lífsnauðsynlegar amínósýrur: leucine, isoleucine og valine. BCAA amínósýrur er meðal annars að finna í rauðu kjöti, linsubaunum, hnetum, fiski, kjúklingi og eggjum. Þær einkennast af því að þær eru brotnar niður í vöðvum ólíkt hinum sex nauðsynlegu amínósýrunum sem brotnar eru niður í lifrinni.
Flest próteinbætiefni innihalda BCAA amínósýrur en algengt er að þeir sem stunda líkamsrækt taki auk þess inn BCAA til viðbótar við það. Með snjallri markaðssetningu hefur BCAA ekki síður notið vinsælda meðal þeirra sem ekki endilega stunda mikla líkamsrækt heldur heillast af góðu bragði, fallegum umbúðum og koffíninnihaldi drykkja á borð við Nocco og Amino Energy.
„Inntaka á of miklu próteini geti leitt til neikvæðra áhrifa á borð við þyngdaraukningu, neikvæðra áhrifa á lund og jafnvel stytt líf viðkomandi“
Áhrif á mýs könnuð
Í rannsókninni sem um ræðir voru áhrif BCAA amínósýra og annarra lífsnauðsynlegra amínósýra á mýs könnuð. Músunum var ýmist gefinn hefðbundinn skammtur af BCAA amínósýrum, tvöfaldur skammtur, hálfur skammtur eða einn fimmti skammtur af því sem telst eðlileg BCAA inntaka.
Þær mýs sem fengu tvöfaldan skammt af BCAA reyndust í kjölfarið éta marktækt meira en aðrar mýs í rannsókninni. Þessi hegðun leiddi til ofþyngdar og styttri ævi samanborið við aðra hópa í rannsókninni.
Ástæðan fyrir þessu var rakin til þess að aukið magn á BCAA amínósýrum keppti við flutning á annarri amínósýru, tryptophani, til heilans. Tryptophan er eini undanfarinn fyrir hormónið serótónín. Serótónin er meðal annars vel þekkt vegna áhrifa þess á lund fólks og er gjarnan kallað hamingjuhormónið. Í músunum í rannsókninni leiddu lægri gildi af serótóníni í heilanum til þess að líkaminn fékk merki um að það að innbyrða meiri fæðu með fyrrgreindum afleiðingum.
Áhrif á mannfólk
Mýs og menn er augljóslega um margt ólíkar dýrategundir svo ljóst er að erfitt er að draga ályktanir um það hvort það nákvæmlega sama sé upp á teningnum þegar við mannfólkið tökum inn ofgnótt af BCAA amínósýrum.
Niðurstöðurnar minna okkur þó á það hversu mikilvægt það getur verið að huga að jafnvægi í mataræði okkar. Bætiefnin sem slík eru ekki endilega slæm fyrir heilsuna. Þessar niðurstöður ítreka fremur mikilvægi þess að ekki sé lögð of mikil áhersla á eina gerð próteingjafa. Fremur sé lykilatriði að gæta að því að valdir séu fjölbreyttir orkugjafar af prótein, fitu og kolvetnum til að koma í veg fyrir ójafnvægi í inntöku á næringarefnum.
Athugasemdir