„Það einhvern veginn hentar mér bara ekki lengur að greiða svona mikið í heilbrigðisþjónustu til að fyrirbyggja það að drepast fyrir fertugt. Þess vegna hef ég farið fram á það við nokkra af þínum forverum í starfi að reglugerðinni verði breytt, svo hún harmoneri við það hvernig hlutirnir eru framkvæmdir í alvöru velferðarsamfélagi.“
Þetta segir Lára Guðrún Jóhönnudóttir í opnu bréfi til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra sem hún birtir á Facebook. Lára Guðrún greindist með krabbamein árið 2017 og hefur vakið athygli á þeim miklu fjárhagsbyrðum sem lagðar eru á krabbameinsveika hér á landi.
Í dag birtir hún bréf til heilbrigðisráðherra, eins konar eftirlíkingu af tölvupósti sem Kristján Loftsson, eigandi Hvals hf., sendi Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Fréttablaðið greindi frá því í morgun að Kristján hefði sent nafna sínum bréf, beðið um að reglugerð um hvalskurð yrði breytt og orðið að ósk sinni. Bréfið hófst á orðunum „Sæll Kristján Þór, Mér þykir leitt að þurfa að hvabba á þér vegna eftirfarandi.“
Svona hljóðar opið bréf Láru Guðrúnar til heilbrigðisráðherra:
Kæra Svandís,
Mér þykir leitt að þurfa að hvabba á þér vegna eftirfarandi tittlingaskíts en ég geri að sjálfsögðu ráð fyrir því að ég sé jafn mikilsmetinn þjóðfélagsþegn og Krissi hvalamorðingi, en hann virðist hafa fundið töfraformúluna þegar kemur að því að breyta reglugerðum sér í hag og sýnir okkur hinum gott fordæmi með því að eiga frumkvæði að persónulegum breytingum til hins betra. Við viljum jú öll græða meiri pening og það einhvernveginn hentar mér bara ekki lengur að greiða svona mikið í heilbrigðisþjónustu til að fyrirbyggja það að drepast fyrir fertugt.
Þess vegna hef farið fram á það við nokkra af þínum forverum í starfi að reglugerðinni verði breytt, svo hún harmoneri við það hvernig hlutirnir eru framkvæmdir í alvöru velferðarsamfélagi.
Tóku þeir vel í málaleitan mína.
Þetta hefur staðið yfir í meira en tvö ár.
Í meðfylgjandi viðhengi hef ég sett inn breytingar þær, sem ég fer fram á að verði gerðar með rauðu í “track changes” á reglugerð sem snýr að lyfjakostnaði og komugjöldum krabbameinssjúklinga á Landspítalanum. Ætlun mín var að afhenda forvera þínum, Óttarri Proppé þetta skjal, en fundi okkar var aflýst vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna.
Ég breytti lágmarksgreiðslu sjúklinga úr 73.950 kr. í 0 kr. fyrir komugjöld og læknisþjónustu og einnig úr 62.500 kr. Í 0 kr. fyrir lyfjakostnað. Gildir þá engu hvort um er að ræða niðurgreiðslu á samheitalyfi eða frumlyfi, enda treystum við sjúklingum til þess að bera ábyrgð á eigin heilsu og eiga kost á að velja það besta fyrir sig óháð fjárhagi. Annað er auðvitað mismunun.
Ef þú gætir ljáð mér hálftíma viðtal, þá væri ég þér mjög þakklát, en þá get ég farið yfir röksemdir mínar fyrir breytingartillögunum í ítarlegra máli.
Kveðja,
Lára
Athugasemdir