Bæring Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri og um skamma hríð forsetaframbjóðandi, hefur boðist til að gefa Reykjavíkurborg tvö pálmatré og spara þannig borginni „tugi milljóna“ eins og hann orðar það. Þetta gerir Bæring í færslu á Facebook síðu sinni.
Bæring sem er búsettur á Manila á Filipseyjum birtir mynd af tveimur pálmatrjám í garðinum sínum og segir að þau megi borgin eiga. Hann geti sent þau til Íslands í 20 feta gámi fyrir 200 þúsund krónur. „Var að tjékka á flutningskostnaðnum rétt áðan..... get sparað Reykjavíkurborg tugi milljóna með þessu. Bara láta mig vita, tekur 9 vikur í flutningum, verður komið í fyrstu vikunni í maí.“
Bæring er með þessu að tala, líklega í léttum dúr, inn í umræðu um útilistaverkið Pálma sem setja á upp í nýrri Vogabyggð ef allt gengur eftir. Það er hins vegar ofsögum sagt hjá Bæring að hann myndi með þessu spara borginni tugi milljóna. Samkvæmt kostnaðaráætluna kosta pálmatrén tvö sem stefnt er að því að setja upp um 1,5 milljónir króna svo sparnaður borgarinnar, ef rausnarlegu boði Bærings yrði tekið, væri um 1,3 milljónir króna. Mestur kostnaður við uppsetningu verksins er hins vegar fólgin í gróðurhúsunum eða stokkunum utan um þau, en hvor þeirra kostar um 43 milljónir króna.
Athugasemdir