Sú niðurstaða Hæstaréttar Íslands að veita ekki áfrýjunarleyfi til réttarins í Aurum-málinu svokallaða felur það í sér að Jón Ásgeir Jóhannesson verður ekki dæmdur fyrir nein lögbrot sem tengjast bankahruninu og rekstri Glitnis banka. Aurum-málið var hið eina þar sem gefin var út ákæra á hendur honum í málum sem tengdust Glitni en hann var stjórnarformaður FL Group, stærsta hluthafa bankans, og var hann kallaður „eigandi“ Glitnis af starfsmönnum hans. Jón Ásgeir var talinn hafa, sem eigandi bankans, þrýst á starfsmenn bankans svo þeir gerðu hluti sem hann vildi og naut góðs af.
Í samtali við Stundina segir Ólafur Hauksson héraðssaksóknari, áður sérstakur saksóknari, að hann geti ekki og vilji ekki tjá sig um þessa niðurstöðu í Aurum-málinu. Ólafur flutti Aurum-málið sjálfur í héraði og fyrir Landsrétti sem saksóknari og hefur því varið drjúgum tíma í það í gegnum árin. Embætti ríkissaksóknara sótti svo um áfrýjunarleyfið en fékk synjun.
Athugasemdir