Orðræða þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins á Klaustri Bar 20. nóvember síðastliðinn minnir á orðfæri sem beitt er í stríði. Konur, sem þingmennirnir litu á sem andstæðinga sína, voru smættaðar niður í kynferðisleg viðföng og ofbeldishótanir hafðar í frammi, um að beita eigi konur sem ekki þýðist karlmennina kynferðislegu ofbeldi. „Þú getur riðið henni, skilurðu.“
Þetta er mat Þorgerðar Einarsdóttir, prófessors í kynjafræði við Háskóla Íslands. Gyða Margrét Pétursdóttir, dósent í kynjafræði, tekur í sama streng og bendir einnig á að þrátt fyrir að nánast enginn vilji nú kannast við að tala með sama hætti og þingmennirnir töluðu, eða hafa orðið vitni að slíkum talsmáta, þá sé sams konar orðræða viðtekin og algeng vítt og breitt um samfélagið. Þannig hafi fyrir ekki svo mörgum árum verið gefin út bók, Mannasiðir Gillz, þar sem orðræðan er um margt mjög keimlík því sem fram kom á upptökunum af fundi þingmannanna á Klaustri. …
Athugasemdir