Helmingur landsmanna sækir sér helst fréttir af vefsíðum fréttamiðla og níu prósent landsmanna sækja fréttir sínar af samfélagsmiðlum. Verulegur kynslóðamunur er á neyslu frétta landsmanna. Þannig sækir elsti aldurshópurinn sér fréttir úr sjónvarpi í miklum mæli en yngsti aldurshópurinn nánast ekki í neinum mæli. Þá eru segjast aðeins fjögur prósent sækja sér fréttir í dagblöð.
Þetta eru niðurstöður nýrrar könnunar MMR á því hvert Íslendingar sækja sér helst fréttir. Þar kemur í ljós að þó helmingur landsmanna sæki fréttir af vefsíðum fréttamiðla fer hlutfallið lækkandi með aldri. Aðeins 15 prósent þeirra sem eru 68 ára og eldri sækja sér þannig fréttir af vefsíðum fréttamiðlanna á meðan að hlutfallið er 62 prósent í yngsta aldurshópnum, 18 til 29 ára.
18 prósent svöruðu því til að þeir sæktu sér helst fréttir í sjónvarpi en þar er sem fyrr segir gríðarlegur kynslóðamunur. Svarendur í elsta aldurshópnum sóttu sér helst fréttir í sjónvarp, eða í 43 prósentum tilfella. Í yngsta aldurshópnum hins vegar var varla nokkur sem sótti sér fréttir í gegnum sjónvarp, aðeins 2 prósent sögðust helst sækja sér fréttir þaðan.
Þá sögðust 9 prósent einkum sækja sér fréttir í útvarp og var elsti aldurshópurinn líklegastur til þess en 26 prósent svarenda 68 ára gamalla og eldri sóttu fréttir sínar einkum þangað. Aðeins 1 prósent yngsta hópsins gerði það hins vegar.
9 prósent sögðust helst sækja sér fréttir á samfélagsmiðla og voru konur mun líklegri til þess en karlar. Þrettán prósent kvenna sögðust helst sækja sér fréttir af samfélagsmiðlum en aðeins fimm prósent karla. Þá var yngra fólk einnig mun líklegra en hinir eldri til þess.
Athygli vekur að einungis 4 prósent aðspurðra sögðust sækja sér fréttir í dagblöð. Þar var elsti aldushópurinn líklegastur en þó svöruðu aðeins 12 prósent aðspurðra því til að það væri helsti vettvangur þeirra til að kynna sér fréttir. Yngsti aldurshópurinn aftur á móti les varla fréttir í blöðum, aðeins eitt prósent svarenda sögðust sækja fréttir þangað.
Athugasemdir