Orð eru verkfæri sem við notum til að komast nær gagnkvæmum skilningi. Þegar viljinn til þess skilnings er hins vegar ekki fyrir hendi verða orð að vopnum og tapa notagildi sínu (utan þess að vera barefli). Einu orði hefur undanfarnar vikur verið misbeitt til þess að þagga niður umræðu um ofbeldi og afleiðingar þess; til að reyna að leggja að jöfnu ofbeldisverknað og reiðina yfir þeim verknaði. Til þess er orðið „skömm” skrumskælt og því full ástæða til að fara ofan í saumana á því hugtaki til að greiða úr þessari flækju. Til að byrja með þarf að gangast við því að í ofangreindri skrumskælingu er að finna sannleikskorn.
Ofbeldi og sjálfstraust
„Kannski er á einhvern hátt óviðeigandi að tala um skömm sem „tilfinningu“ því að þó svo að skömm valdi sársauka til að byrja með þá leiðir stöðug smánun til þess að tilfinning deyr. Skömm er, á sama hátt og kuldi, að grundvelli til, fjarvera hlýju. Og þegar hún verður yfirþyrmandi í ákefð þá upplifir einstaklingurinn hana, svipað og kulda, sem deyfðar- eða dauðatilfinningu.“
Svona lýsir sálfræðingurinn James Gilligan þeirri kennd sem hann segir búa að baki hverjum einasta ofbeldisverknaði sem rataði inn á borð hans þegar hann starfaði sem fangelsissálfræðingur í Massachussets í Bandaríkjunum. „Allt ofbeldi er tilraun til að öðlast sjálfstraust í stað skammar,“ fullyrðir hann. Skömm er ætandi og það sem hún étur er mennska okkar. Þess vegna staldraði ég lengi við eina Facebook-athugasemd. Þær fá ekki oft mikla prósentu af hugarrými mínu, enda yfirleitt frekar fyrirsjáanlegar, en þessi fangaði athygli mína. Ég vistaði hana ekki en innihald hennar var á þessa leið:
„Hvers vegna er alltaf verið að tala um að „skila skömminni“? Jú, endilega lyftum skömminni af þolendum, en þarf alltaf að „skila“ henni eitthvert? Er ekki bara hægt að útrýma henni?“
Mig grunar reyndar að þessi athugasemd hafi litast fremur af geðvonsku yfir skriðþunga #metoo-umræðunnar en af einlægum frumspekilegum áhuga en mér þótti þessi einstaklingur þó hafa nokkuð fyrir sér. Skömm, eins og James Gilligan lýsir henni, er engum til gagns og þjóðfélaginu til mikils ama. En eftir nánari íhugun þóttist ég verða þess áskynja að við höfum enn og aftur flækt fætur okkar í trjáþykkni orðanna. Þeir þolendur ofbeldis sem tala um að „skila skömminni“ óska engum, ekki einu sinni árásarmönnum sínum, þess hlutskiptis að marinera í sjálfsfyrirlitningu það sem eftir er ævinnar eins og íbúar Bridgewater-fangelsisins þar sem James Gilligan starfaði. Þegar fórnarlömb slíkrar ómennsku tala um að skila skömminni eru þau að vísa til annarrar tilfinningar; tilfinningar sem gerir engan að samviskulausu kjötvopni. Sú tilfinning ber heiti sem skipulögðum trúarbrögðum hefur því miður tekist að skíta allhressilega út í gegnum aldirnar.
Sú tilfinning heitir iðrun.
Við skulum ræða hana aðeins frekar.
Iðrun vs. skömm
Skömm elur af sér meiri skömm. Hún er eins og sýfillis. Einn fær hana og gefur öðrum. Enginn er þakklátur fyrir slíka gjöf. Iðrun elur hins vegar af sér yfirbót. Iðrun er í raun ekkert nema hvöt til þess að bæta fyrir misgjörð; að laga það sem maður braut (eins vel og hægt er). Þessi tvenn viðbrögð við eigin sekt eru þó aðallega ólík hvað takmarkið varðar. Skömm hefur ekkert upp á sig þannig að ef maður vinnur sér hana inn þá reynir maður ekkert annað en að losa sig við hana. Maður reynir öll tiltæk ráð til að skrúbba skarlatsbókstafinn af sér, meðal annars að klína honum á einhvern annan. En hver sá sem reynir að hrista af sér skömm eins og spörð úr feldi smyr henni bara yfir breiðari flöt.
Iðrun er önnur saga. Hún felur í sér að leggja sjálfið til hliðar og hlúa að þeim sem maður beitti rangindum. Að líta ekki inn á við („oj hvað ég er ógeðslegur“) heldur út á við („hvernig get ég orðið að gagni?“). Skömm er hægt að þvinga fram með ýmiss konar valdbeitingu en iðrun kemur bara frá samviskunni. Eftir því sem ég kemst næst er hún það eina sem þolendur ofbeldis sækjast eftir; að gerandinn finni innra með sjálfum sér einhverja hvöt til að bæta fyrir það sem hann gerði. Ekki að hann leggist flatur og biðjist slepjulega afsökunar með hátimbruðu orðalagi og fögrum fyrirheitum. Afsökunarbeiðnin er ekki aðalmálið heldur eðli iðrunarinnar.
Sönn iðrun mun ekki endilega leiða til fyrirgefningar eða færa ofbeldismanni (eða fyrrum ofbeldismanni) mannorð sitt aftur. Hún snýst ekki heldur um það. Hún leitar ekki sjálfs sín. Hún reynir ekki að kaupa aflausn. Maður gæti þurft að sitja ævilangt uppi með afleiðingar af verknaði sem maður er fullur einlægrar iðrunar yfir að hafa framið. Iðrun er ekki aðgöngumiði aftur inn í aldingarðinn. Hún er bara viðbrögð heilbrigðs einstaklings við þeim sársauka sem hann hefur valdið öðrum. Og hún er eini valkosturinn í boði fyrir þann sem hefur brotið af sér og vill ekki gera illt verra.
Hál braut réttvísinnar
Eitt það asnalegasta sem ég verð vitni að í umræðunni um ofbeldismál er vandlæting þeirra sem af einhverjum ástæðum finna sig knúna til að bera blak af einstaklingum sem hafa gert sig seka um ofbeldi. Svo það sé sagt þá eru öll ofbeldisverk framin af mannverum og engin mannvera er alill (þótt margar skauti ansi nálægt þeirri brún). Fólk sem manni er einkar vel við gæti jafnvel hafa framið eitthvert slíkt ódæði. Þegar það kemur í ljós þurfum við sem samfélag að búa yfir nægilegum þroska til að geta kyngt þeirri staðreynd að mannlegt eðli er margslungið og að skuggahliðar þess fólks sem við þekkjum eru stundum beinlínis hryllilegar. Afneitun á því er ekki í boði.
Þegar alþingismaður ávítar einstakling fyrir að hafa bent á ofbeldisverk annars manns og grípur til þeirrar launillsku að óska honum þess að hann komi aldrei til með að misstíga sig á „hálli braut réttvísinnar“ þá opinberar hann hversu skammt á veg tilfinningaþroski hans er kominn. Í fyrsta lagi er það aulaleg vörn fyrir fremjanda hrottalegrar árásar að segja „enginn er fullkominn.“ Í öðru lagi er það til marks um siðblindu á háu stigi að tala um slíka árás sem einhvers konar mistök. Sem slæma ákvörðun sem allir geti lent í því að taka.
Að misstíga sig á hálli braut réttvísinnar væri viðeigandi orðalag ef viðkomandi hefði keyrt bílinn sinn of hratt eða brotið rúðu í boltaleik. Ótrúlegt að þurfa að útskýra þetta fyrir fullorðnum manni en það að ganga í skrokk á annarri manneskju er einbeittur viljaverknaður sem fæstir (sem betur fer) finna á sér hvöt til að fremja. Alþingismaður þessi þarf svo að eiga það við sig hvort hann er einn þeirra en hann hefur einmitt áður ætlað öðrum þá hvöt að vilja beita fólk ofbeldi. Við sjáum jú heiminn eins og við erum sjálf.
Nóg um þann mann. Hann hefur fengið næga athygli fyrir tröllaummæli sín í gegnum tíðina. Kannski ættum við að gera okkur sjálfum þann greiða að hætta að bíta á agnið og leyfa honum bara að hverfa í gleymskunnar haf.
Góða fólkið
Þær afleiðingar sem opinber einstaklingur lendir í þegar mál af þessu tagi kemur aftur í dagsljósið eru að hluta til kapítalískar. Fyrirtæki sem hafa fram að því keypt sér hlutdeild í viðkunnanleika þess manns sjá að sá viðkunnanleiki hefur rénað. Óbragðið í munni almennings yfir opinberun sem þessari er sjálfsprottið. Það er ekki sköpunarverk „góða fólksins“ nema verjendur ofbeldismanna séu farnir að nota „góða fólkið“ sem samheiti yfir samfélagið í heild (það væri reyndar fallega búddískt af þeim). Handhafi valdsins er hér ekki einhver ein manneskja eða einn hópur heldur hin margrómaða „ósýnilega hönd“ markaðarins. Samkvæmt hugmyndafræði áðurnefnds alþingismanns sjálfs er þetta óhjákvæmilegt og æskilegt.
Félagslegt taumhald er þó margslungnara fyrirbæri og mikið eldra en markaðshyggjan. Samfélagið er ekki handahófskennt samansafn aðskilinna einstaklinga heldur lífræn heild. Suma hluti sættir þessi heild sig við og aðra ekki. Sem betur fer er kynferðisofbeldi komið ofar á hinn síðarnefnda lista og tími til kominn. Þetta þýðir auðvitað að launhliðar fólks sem maður metur mikils geti sprottið skyndilega fram í dagsljósið og komið manni í opna skjöldu. Þá er jafnvel freistandi að ýja að því að ef brot séu lagalega fyrnd sé jafnframt skilafrestur á skömminni útrunninn.
Þjóðkirkjan lenti nýverið í þessu og sumir starfsmenn hennar brugðust við með því að lasta fjölmiðlaumfjöllunina, ýmist kurteislega eða síður svo. Þeir ættu að sjá sóma sinn í því að halda sig til hlés ef þeir eru ekki færir um að koma með verðugra innlegg í þessa umræðu. Að reyna að bjarga vini sínum undan þeirri kvöð að horfast í augu við misgjörð sína og iðrast er hvorki gagnlegt fyrir vininn né samfélagið. Rétt er að minna klerkana á orð frelsarans:
„Sá sem vill sjá lífi sínu borgið, mun týna því, en sá sem týnir því, mun öðlast líf.“
(Lúkas 17:33)
Athugasemdir