Enginn veit hvað hún hét í raun og veru en þegar hún fannst árið 1975 var hún kölluð Luzia. Þetta var í Brasilíu, rétt utan við borgina Belo Horizonte, 350 kílómetrum fyrir norðan Rio de Janeiro. Árið áður höfðu fornleifafræðingar að störfum í Eþíópíu grafið upp mjög merkilegar beinaleifar af ungri stúlku og kölluðu hana Lucy af því Bítlalagið Lucy in the Sky with Diamonds hljómaði í útvarpinu meðan þeir grófu hana upp. Þeir frönsku og brasilísku fornleifafræðingar sem voru að róta í jarðlögunum í helli nálægt Belo voru líklega ekki með útvarpið á því þeim datt ekkert sérstakt nafn í hug yfir líkamsleifarnar í hellisgólfinu en ákváðu að nefna beinin eftir hinni eþíópísku Lucy. Það varð að vísu fljótlega ljóst að þær Lucy og Luzia áttu ekki margt sameiginlegt annað en að vera ungar og steingerðar. Það voru ekki bara 10.000 kílómetrar og heilt Atlantshaf sem var á milli þeirra í rúmi, heldur líka meira en 3 milljónir ára í tíma. Lucy var suðurapi, merkilegur áfangi í þróunarsögu mannsins en Luzia var sannlega homo sapíens, hinn viti borni maður, hún var ein af okkur.
Varð jagúar henni að bana?
En þó var Luzia að ýmsu leyti einstök í sinni röð, það skildu þeir fljótt, fornleifafræðingarnir sem fundu hana. Raunar fundu þeir hana hvergi nærri alla, höfuðkúpan fannst, nema neðri kjálkinn, mjaðmabein fundust og nokkur bein úr handleggjum og fótleggjum, það var allt og sumt. En þetta dugði fræðimönnum til að átta sig á stærð hennar, aldri og útliti að einhverju leyti. Hún reyndist hafa verið einn og fimmtíu á hæð, rétt rúmlega tvítug og það voru merki á beinunum um að hún hefði lent í átökum. Kannski hafði stórt dýr ráðist á hana, þá líklega jagúar, þótt líka kæmi til mála að hún hefði einfaldlega dottið í hellinum og brotnað svo illa að ekki greri.
Þá er þó ótalið tvennt af því sem allra merkilegast þótti við líkamsleifar Luziu.
Brunað frá Berinssundi?
Í fyrsta lagi aldur hennar. Menn reiknuðu út með einhverjum þeim aðferðum sem ég kann ekki að útlista að Luzia hefði lifað og dáið í þessum helli fyrir allt að 11.500 árum. Það þýddi samkvæmt því sem best var vitað árið 1975 að hún var í hópi allra elstu íbúa Ameríku. Um þær mundir töldu flestir að ekki væru nema rúmlega 13.000 ár síðan þeir komu fyrst yfir Beringssund milli Asíu og Norður-Ameríku og byrjuðu svo að feta sig suður á bóginn. Frá Beringssundi til Belo Horizonte eru 14.000 kílómetrar í beinni loftlínu, en leiðin fyrir fótgangandi steinaldarmenn yfir fjöll og firnindi, gegnum frumskóga og yfir stórfljót, hún er að sjálfsögðu miklu lengri. Svo það var nánast með ólíkindum að Luzia hafi verið komin svo djúpt inn í Suður-Ameríku svo snemma.

Óvenjulegir andlitsdrættir
Í öðru lagi kom mörgum í opna skjöldu að andlitsdrættir Luziu, eftir því sem hægt var að lesa þá af höfuðkúpunni, virtust ekki sérlega svipaðir andlitsdráttum þeirra frumbyggja sem vitað var að bjuggu á Minas Gerais-svæðinu þar sem hellirinn við Belo Horizonte er að finna. Þótt neðri kjálkann vantaði mátti lesa stöðu hans út úr efri hluta höfuðkúpunnar og hann hafði greinilega verið voldugri en tíðast er hjá frumbyggjum Ameríku og forfeðrum þeirra í Síberíu. Þá var Luzia heldur ekki eins breiðleit og höfuðlagið óvenjulegt. Og var hún ekki undarlega varaþykk?
Raunar komst einn helsti mannfræðingur Brasilíu að þeirri niðurstöðu að útliti Luziu hefði helst svipað til frumbyggja Ástralíu en aðrir nefndu til sögu Suðaustur-Asíu. Þá var kallaður til einn frægasti réttarmeinafræðingur, Bretinn Richard Neave, og hann beðinn að skoða höfuðkúpu Luziu. Neave er frægur fyrir furðulega nákvæmar eftirmyndir sínar af útliti fólks sem hann gerir eftir höfuðkúpunum einum og hans niðurstaða var sú að Luziu hefði helst svipað til svartra íbúa Afríku og/eða afkomenda þeirra.
Ekki af Indíánaættum?
Luzia virtist því geta orðið eitt öflugasta vopnið í vopnabúri þeirra sem halda fram öðrum kenningum en hinum algengustu um hvernig Ameríka byggðist. Það eru ekki allir sammála um þá mynd af landnámi mannsins í nýja heiminum sem ég rakti áðan, að menn hafi komið gangandi frá Síberíu og yfir Beringssundið á einum hápunkti ísaldarinnar þegar sjávarmál var mun lægra en nú. Sú kenning var gjarnan kölluð Clovis-kenningin af því einar elstu mannvistarleifar sem menn tengja þessari kenningu fundust í Clovis í Nýju-Mexíkó. Þær leifar eru 13.000 ára gamlar og Clovis-fólkið er talið hafa komið gangandi skömmu áður frá Alaska eftir íslausri rönd gegnum Kanada.
En öðlist einhver kenning fjöldafylgi, þá sprettur upp önnur henni til höfuðs. Það er nefnilega líka til sú kenning að siglingamenn upprunnir og búsettir í Suðaustur-Asíu hafi náð fyrstir manna til Ameríku. Fyrir rúmlega 12.000 árum hafi þeir siglt á bátskænum sínum norður með Asíuströndum, framhjá Kamtsjaka og yfir til Alaska. Þaðan hafi þeir svo siglt á skömmum tíma suður með ströndum Norður-Ameríku og hreiðrað um sig í Perú eða þar um slóðir. Þetta á að hafa gerst fyrir 20.000 árum, jafnvel 30.000. Og bátsverjar hafi svo haldið upp frá ströndinni og komist á furðu skömmum tíma yfir Andesfjöll og inn í frumskóga Amasónsvæðisins og meðal annars inn til Brasilíu.
Dularfullur karl finnst í jörðu
Luzia var ein af þessu fólki, sögðu þessir kenningasmiðir. Þetta væri eina mögulega skýringin á því af hverju svona mjóleit stúlka væri komin svo langt suður svo snemma. Og er ekki líka eitthvað merkilegt við að í hellinum við Belo hafa ekki fundist nein önnur mannabein þrátt fyrir mikla leit? Luzia verður eitthvað svo einstæð, sérstök og einmanaleg þegar maður sér hana fyrir sér, aleina í hellinum með mölvuð bein, er hún ekki eins og frumherji, könnuður, komin ein langt á undan öðru fólki sem er að brjótast gegnum skógana?
Árið 1996 fundust svo líkamsleifar karlmanns þar sem heitir Kennewick í Washington-ríki í Bandaríkjunum og mörgum fannst hann líka svo ólíkur flestum frumbyggjum Ameríku að hann og Luzia urðu á næstu árum eins og táknmyndir hinna nýju hugmynda um landnám Ameríku. Kennewick-karlinn var gjarnan talinn af sömu ætt og Ainú-fólkið í Japan en fyrrum gældu menn mjög við þá hugmynd að það væri evrópskt að uppruna einhvern tíma fyrir langa löngu. Og þar með voru bæði Luzia og Kennewick-karlinn orðin hápólitísk. Alls konar hópar sem vildu gera lítið úr frumbyggjum Ameríku (þeim ættflokkum sem fyrrum voru kallaðir einu nafni „Indíánar“ en það heiti er nú að leggjast af), þessir hópar gripu fegins hendi hugmyndir um að allra fyrstu íbúar Ameríku hefðu ekki verið Indíánar, heldur komnir beint frá Suðaustur-Asíu og jafnvel með einhverjar leifar af evrópsku blóði í æðum.
Var Luzia kannski frá Spáni?
Þegar genarannsóknum fleygði fram kom reyndar á daginn að í blóði amerískra frumbyggja var meira af evrópsku DNA en nokkur átti von á. Gat átt sér stað að fólk hefði komið í árdaga frá Pýreneaskaganum í Evrópu, fylgt hafísrönd ísaldarinnar, út á Atlantshaf, framhjá Íslandi, suður með Norður-Ameríku og allt til byggða Clovis-fólks og jafnvel suður til Brasilíu?
Var Luzia kannski spænsk að einhverju leyti eftir allt saman?
Var Luzia kannski spænsk að einhverju leyti eftir allt saman?
En á meðan um þetta var deilt fram og til baka, þá var Luzia hvað sem öðru líður viðurkennd sem elsti íbúi Brasilíu og henni var búinn sérstakur heiðursstaður á Þjóðminjasafninu í Rio de Janeiro, einhverju stærsta og glæsilegasta fornminjasafni í samanlögðum Ameríkunum. Þangað kom fólk hvaðanæva úr Suður-Ameríku og víða til að líta leifar hennar augum og það var partur af skyldunámi krakkanna í Rio að fara á safnið og heilsa upp á Luziu.
Genaflökt skýrir útlitið
Svo – upp úr árinu 2010 eða þar um bil – þá gerðist tvennt. Eitt er nú það að vísindunum fleygði fram og þar á meðal genarannsóknum. Menn hafa til dæmis á seinni árum gert sér betri grein en áður fyrir virkni genaflökts í litlum hópum. Hið tilviljanakennda genaflökt getur – ef ég skil þetta rétt – valdið því að meiri og sneggri breytingar verði á genum og þar með til dæmis útliti fólks í litlum hópum heldur en ættu að verða ef náttúruvalið eitt réði ferðinni. Genaflöktið þykir nú fyllilega nægja til að skýra af hverju Luzia þykir ekki sérlega „indíánaleg“ í útliti. Jafnframt fóru fram miklar rannsóknir á Aimoré-fólkinu, sem byggði austurhluta Brasilíu um það leyti sem Evrópumenn komu þangað um 1500 e.Kr., og þær sýndu fram á að ekkert var því til fyrirstöðu að Luzia væri af sama stofni. Hún var vissulega einhvers konar frumkvöðull því byggð virðist hafa verið furðulega lítil í Brasilíu í mörg þúsund ár eftir að dýrið réðist á Luziu eða hún datt og dó. Það er eiginlega ekki fyrr en um 500 e.Kr. sem verður vart við verulega skipuleg samfélög á svæðinu sem þýðir að mannfjöldinn var orðinn töluverður.
En þarna var samt fólk eins og Luzia.
Kennewick-karlinn jarðsettur á laun
Um sama leyti og Luziu var fundinn staður í ættboga frumbyggja, þá sýndu genaflökt og auknar rannsóknir líka fram á að Kennewick-karlinn var náskyldur frumbyggjum á vesturströnd Norður-Ameríku, sem komu gangandi yfir Beringssundið, og það þurfti ekkert að skýra tilveru hans með Ainú-fólkinu, dularfullri nærveru Evrópumanna eða samskiptum við Suðaustur-Asíu. Vísindamenn eru nú reyndar flestir á því að flutningur fólks yfir Beringssund hafi líklega átt sér stað nokkur þúsund árum áður en hin hefðbundna mynd af Clovis-menningunni kvað á um, en flóknari sé myndin varla. Strax og viðurkennt var að Kennewick-karlinn væri frændi og kannski forfaðir fimm skyldra ættbálka á núverandi landamærum Kanada og Bandaríkjanna, þá fengu þeir yfir honum að segja og karl var jarðsettur á leynilegum stað einhvers staðar í Oregon.
Sparað fyrir ólympíuleikana
En hitt sem gerðist um eða upp úr 2010? Jú, Brasilíumenn, uppfullir af heilagri trú á að þeir yrðu næsta stórveldi heimsins, að minnsta kosti efnahagslega, þeir fylltust gleði og hófu smíðar, eins og þar stendur. Þeir pöntuðu sér bæði heimsmeistaramótið í fótbolta 2014 og ólympíuleikana í Rio 2016 og alls konar mikilfenglegar framkvæmdir aðrar hófust í landinu. En innan skamms runnu á embættismenn landsins tvær grímur. Allar þessar framkvæmdir og allir þessir viðburðir kostuðu sitt. Hvar átti að taka þá peninga?
Jú, sagði einhver, er ekki hægt að spara í brunavörnum á Þjóðminjasafninu? Fresta endurnýjun á þessu gamla húsnæði? Er ekki mikilvægara að sýna dýrð Brasilíu með ólympíuleikum?
Og jú, það varð úr – þeir ákváðu að spara peningana með því að búa Þjóðminjasafnið ekki brúklegum brunavörnum. Og meðal þeirra þúsunda, þeirra milljóna ómetanlegra muna sem fuðruðu upp í eldinum um daginn, þá voru líkamsleifar elsta íbúa Brasilíu, hennar Luziu. Í meira en 11.000 ár höfðu bein hennar varðveist, nú urðu þau að ösku.
Athugasemdir