Meirihluti bæjarstjórnar Grindavíkur klofnaði þegar kom að því að ráða bæjarstjóra á aukafundi bæjarstjórnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði með áframhaldandi ráðningu sitjandi bæjarstjóra, Fannars Jónassonar, en fulltrúi Framsóknarflokksins vildi að Þorsteinn Gunnarsson yrði ráðinn. Fór svo að bæjarfulltrúi Miðflokksins, sem situr í minnihluta, greiddi atkvæði með ráðningu Fannars og fékk hann því fjögur atkvæði en Þorsteinn þrjú.
Nokkur órói mun hafa verið meðal starfsmanna Grindavíkurbæjar með samstarf við bæjarstjóra og hefur meðal annars verið kvartað undan samskiptaörðugleikum. Meðal annars mun það hafa verið mat bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar, Páls Vals Björnssonar, að í því ljósi væri það bæjarfélaginu fyrir bestu að nýr bæjarstjóri tæki við. Ekki varð hins vegar af því, sem fyrr segir.
Sigurður Óli Þórleifsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, segir í samtali við Stundina að það hafi verið orðið að samkomulagi við gerð málefnasamnings í vor að auglýsa eftir bæjarstjóra. „Við ákváðum að láta málefnin ganga fyrir. Við vissum að við værum ósammála um bæjarastjóramálin og ákváðum því að fara þessa leið, að auglýsa eftir bæjarstjóra og fara með málið fyrir bæjarstjórn. Það varð að samkomulagi að báðir aðilar myndu una niðurstöðu kosningar innan bæjarstjórnar. Okkur fannst þetta bara vera lýðræði í sinni fallegustu mynd.“
Spurður hvort hann hafi áhyggjur af því að hefja meirihlutasamstarfið með þessum hætti, að ekki náist eining um ráðning bæjarstjóra, neitar Sigurður Óli því. „Þetta er auðvitað óvanalegt en við berum fullt traust til Fannars. Hann kom hins vegar inn á miðju síðasta kjörtímabili og við vildum bara kanna hvort að aðrir hæfari hefðu áhuga á starfinu. Þorsteinn er heimamaður og við þekkjum hann vel og hann hefur gert góða hluti fyrir norðan. Það er ekki það að við treystum ekki Fannari enda er hann afbragðsmaður. Svona fór þetta bara. Það var ljóst frá því að við hófum samstarf að svona ætti að fara að því og það er því alveg eining milli okkar og Sjálfstæðisflokksins.“
Sigurður Óli segist ekki hafa áhyggjur af því að hans samstarf við Fannar verði erfiðara fyrir vikið. „Ég hef engar áhyggjur af því. Við erum báðir, að því er ég tel, bara miklir fagmenn og ég hef engar áhyggjur.“
Athugasemdir