Lágflug herþotna sem eru við loftrýmisgæslu hér á landi í námunda við fuglabjörg er áhyggjuefni og nauðsynlegt að náttúrunni sé sýnt tillit. Þetta er mat Kristins Hauks Skarphéðinssonar, sviðstjóra dýrafræði hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.
Stundin fékk á dögunum ábendingu um að herþotur danska flughersins sem eru við loftrýmisgæslu hér við land hafi flogið lágflugi yfir Hjaltadal í Skagafirði og þaðan út yfir fjörðinn sjálfan, í mjög lágri hæð að því er vitnum fannst. Fékk Landhelgisgæslan jafnframt ábendingar um málið.
Á Skagafirði er líflegt fuglalíf í tveimur eyjum, Málmey en ekki síður í Drangey. Framkvæmdastjóri varnarmálasviðs Landhelgisgæslunnar segir að vélarnar hafi ekki farið niður fyrir leyfilega hæð á fluginu.
Mikill hávaði fylgdi þotunum
Atvikið átti sér stað í síðasta mánuði, 17. apríl síðastliðinn. Tvær orrustuþotur sáust þá fljúga út Hjaltadal og þótti þeim sem til sáu þær vera lágt á lofti og lækka enn frekar flugið þegar þær komu út yfir sjó. Mikill hávaði mun þá hafa fylgt flugi þeirra sem truflaði fólk og lýstu þeir sem til vélanna sáu áhyggjum af því að þær hefðu flogið mjög lágt yfir Skagafjörðinn og nálægt Drangey.
Ekki í fyrsta skipti sem kvartað er
Kristinn Haukur Skarphéðinsson, sviðsstjóri dýrafræði hjá Náttúrufræðistofnun Íslands segir að í einhverjum tilfellum séu fuglar mættir á varpstöðvar um miðjan apríl og mögulega sé varp farið af stað en það sé þá í mjög litlu mæli. Engu að síður geti lágflug haft neikvæð áhrif á fuglalífið.
„Það eru ákveðnar reglur um flug og lágflug, bæði yfir landi og sjó, en svo kemur raunar í ljós að her og Landhelgisgæsla þurfa ekki að fylgja neinum slíkum reglum, nema sínum eigin. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta kemur upp. Það hefur ítrekað verið bent á þetta og ég man til þess að fyrir tíu árum var kvartað sérstaklega yfir lágflugi herþota yfir Hornstrandir, um hávarptímann, þegar þotur flugu þar yfir Hælavík og Hornvík. Menn urðu þá vitni að því að fuglinn sópaðist úr bjarginu og væntanlega hefur eitthvað misfarist af eggjum og ungum. Í kjölfarið sendi Náttúrufræðistofnun erindi til Flugmálastjórnar sem þá var og bentum á að ákveðnir staðir væru viðkvæmir fyrir lágflugi sem þessu á varptíma. Raunar höfðum við einhverjum nokkrum árum áður sent hnitaskrá til þar til bærra aðila yfir staði sem ætti að forðast flug yfir.“
„Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta kemur upp“
Kristinn segir að flug sem þetta sé mjög óþægilegt fyrir fugla, og raunar menn líka. „Þeir ættu í það minnsta að forðast að fljúga yfir fuglabjörg, þar sem til dæmis svartfuglar sitja á mjög þröngum syllum. Á þessum tíma núna hefur vonandi ekki orðið tjón af þessu þar eð varp er tæpast farið í gang af krafti hjá svartfugli, en það gæti þó verið farið af stað hjá skarfi og súlu. Það ætti hins vegar að beina þessari flugumferð frá varpsvæðum, og alveg sérstaklega frá svartfuglabjörgum.“
Reglur voru ekki brotnar
Jón B. Guðnason framkvæmdarstjóri varnarmálasviðs hjá Landhelgisgæslunni, sem skipuleggur loftrýmiseftirlitið, segir að það hafi menn fengið ábendingar um að þoturnar hafi verið mjög lágt. Því hafi hann látið kanna flughæð þeirra og í ljós hafi komið að reglur hafi ekki verið brotnar.
„Vélarnar voru þarna í leyfilegri flughæð. Yfir landi má fljúga í 5.000 fetum en yfir sjó má fara niður í 300 fet. Við hins vegar almennt viljum það ekki, að svo lágt sé flogið. Áhorfendur mistúlka stundum hvernig vélar fljúga, það er að segja fyrir venjulegan mann á jörðu niðri getur verið erfitt að meta hvað er hátt og hvað er lágt, það er kannski túlkunaratriði. Ég hef fengið kvartanir þegar vélar eru hátt upp, í 30 fetum, yfir hávaða frá þeim.“
Líklega bara að „dást að íslenskri náttúru“
Jón segir jafnframt að herþotunum sé bannað að fljúga yfir ákveðin svæði sem teljist viðkvæm og þeim sé úthlutað ákveðnum svæðum, boxum, yfir landinu sem þær megi fljúga yfir og þá í ákveðinni hæð. „En þegar þær fljúga út úr þessum fyrirfram ákveðnu svæðum þá fá þær svokallaðar sjónflugsheimildir, sem eru samkvæmt alþjóðlegum lögum. Við höfum reyndar sett þrengri reglur hér á landi en almennt gildir. Það er talsvert mikið eftirlit með þessu. Við erum síðan með ákveðin svæði á kortum sem eru bannsvæði og ætlum að bæta Drangey inn á það kort, hún var þar ekki. Það er mögulegt að þeir hafi flogið í lágflugi yfir Skagafjörðinn en þá ekki nær Drangey heldur en tvær sjómílur, það eru reglur hjá okkur hvað það varðar. Menn eru náttúrulega bara allir af vilja gerðir og enginn hefur áhuga á að valda tjóni á dýralífi eða ónáða fólk frekar en nauðsynlegt er. Í þessu tilviki voru vélarnar að koma frá Akureyri úr aðflugsæfingum, Akureyrarflugvöllur er varaflugvöllur fyrir Keflavík, og þeir hafa bara verið að dást að íslenskri náttúru á leiðinni til baka.“
Athugasemdir