Tveir fyrrverandi nemendur Ragnars Þórs Péturssonar, verðandi formanns Kennarasambands Íslands, segja hann hafa „borið rangt um ýmsar staðreyndir“ þegar hann hefur varist ásökunum um blygðunarsemisbrot á Tálknafirði. Þeir staðfesta að hafa verið heima hjá Ragnari Þór á því tímabili sem „meint brot“ áttu sér stað og segjast „kannast við heimboð Ragnars Þórs Péturssonar kennara í fleiri en eitt skipti“.
Nafni Ragnars, Ragnar Þór Marinósson, sem hér eftir verður kallaður Raggi til aðgreiningar frá kennaranum, steig fram í viðtali við Vísi.is í fyrra ásamt fjölskyldu sinni og greindi frá því að tilkynningin um óeðlilega háttsemi sem Ragnar fjallaði um á vettvangi fjölmiðla og í bloggskrifum árið 2013, hefði snúist um sig og atburði sem áttu sér stað á Tálknafirði fyrir um 20 árum. Kennarinn hefði sýnt sér klám á heimili sínu þar sem kúkur kom við sögu. Ragnar hefur hafnað því að hafa boðið drengjum heim til sín en sagt Ragga einu sinni hafa bankað upp á hjá sér með hópi af krökkum.
Tveir fyrrum nemendur Ragnars Þórs og æskuvinir Ragga hafa nú undirritað yfirlýsingu þar sem þeir staðfesta að hafa verið heima hjá Ragnari Þór Péturssyni sem nemendur hans, auk annarra drengja sem hann kenndi og voru samtíða þeim í grunnskóla í Tálknafirði, á því tímabili sem um ræðir.
Yfirlýsingarnir, sem Stundin hefur undir höndum, voru afhentar Kennarasambandi Íslands með milligöngu lögmanns fyrir sambandsþingið sem nú stendur yfir. Þingið var sett í gær en Ragnar Þór tekur formlega við formannsembætti á föstudag.
Titringur innan Kennarasambandsins
Ásakanir fyrrum nemanda Ragnars og umræða um þær hafa valdið talsverðum titringi innan Kennarasambandsins. Ragnar birti bloggpistil á Stundinni í gær þar sem hann sagði að sér hefði borist til að eyrna að búið væri að „skipuleggja lokatilraun“ og jafnvel „sýndarréttarhöld“ til að koma í veg fyrir að hann tæki við formennsku í félaginu. Hann rekur þetta til þess að „sumir óttast breytingar eða byltingar“. Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara sem bauð sig fram á móti Ragnari sem formaður Kennarasambandsins, gagnrýnir Ragnar í athugasemd við bloggfærsluna, frábiður sér „samsæriskenningar“ og furðar sig á því að á fyrsta degi Kennarasambandsþingsins kjósi hann að „halda áfram skítkasti á félaga [s]ína innan sem utan stjórnar KÍ“.
Ragnar Þór hætti að kenna um tíma árið 2013 eftir að Reykjavíkurborg barst ábending undir nafnleynd um að hann hefði sýnt af sér óeðlilega háttsemi gagnvart nemanda. Ragnar gagnrýndi harðlega hvernig staðið var að meðferð málsins, fékk mikinn stuðning frá nemendum og kennurum, kom fram í Kastljósi og skrifaði fjölda greina um málið. Í einni þeirra talaði hann um „óbermið sem nýtti sér nafnleynd til að ráðast á mig […] til að svala illsku sinni og heift“. Á þeim tíma vissi Ragnar Þór ekki hvaðan ásökunin kom, en síðar kom í ljós að systir Ragga, Ragnars Þórs Marínóssonar, fyrrum nemanda Ragnars Þórs á Tálknafirði, hafði greint yfirmanni sínum hjá félagsmiðstöð Norðlingaskóla frá því sem Raggi hafði sagt henni, án vitundar Ragga, og yfirmaðurinn komið upplýsingunum áfram til Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Raggi kærði svo málið til lögreglu í janúar 2014 en málið var fyrnt og því ekki rannsakað.
Eftir að Ragnar Þór hafði lesið lögregluskýrsluna og komist að því hvaðan ásökunin kom sagði hann í bloggfærslu að ljóst væri að „í miðju málsins væri manneskja sem ætti mjög erfitt“. Hann hefði aldrei opnað málið upp á gátt í fjölmiðlum hefði hann vitað það. „Ég veit ekkert hvað hann hefur lifað þótt ég viti að þetta er ekki eitt af því. Og ég ætla ekki að dæma hann eða leita hefnda. Ég vona heitt og innilega að líf hans sé betra í dag en það var miðað við lýsinguna sem ég las á lögreglustöðinni. Og ég vona að líf hans batni enn. En ég er fokvondur við kerfið. Bullandi reiður,“ skrifaði hann.
Telja Ragnar Þór hafa gengið harkalega fram
Raggi og fjölskylda hans telja Ragnar Þór hafa gengið harkalega fram og talað með niðrandi hætti um aðilann sem sé hið raunverulega fórnarlamb í málinu. „Raggi hefur ekki bara verið ásakaður um lygar heldur einnig verið bendlaður við samsæriskenningar um valdabaráttu innan Kennarasambandsins,“ sagði fjölskyldan í yfirlýsingu sem birtist á Vísi þann 11. desember 2017. Töldu þau kennarann hafa „nýtt þá stöðu sína að vera eini nafngreindi aðilinn í málinu“ og ítrekað kastað rýrð á Ragga. „Svo heldur hann bara áfram og áfram og áfram. Svo núna málar hann mig sem eitthvað grey í þessari grein,“ sagði Raggi í viðtali við Vísi.
Fram kom í máli fjölskyldunnar að nokkrir ungir menn, á sama aldri og Raggi, hefðu sagt þeim frá því að þeir hefðu verið nokkrir saman heima hjá Ragnari Þór. Yfirlýsing tveggja samnemenda Ragga, sem nú hafa verið lagðar fram, styðja þetta. „Ég, ásamt fleiri fyrrum nemendum Ragnars Þór Péturssonar frá Tálknafirði, hef orðið var við þá umræðu sem hlaust af málinu, enda hefur Ragnar Þór Pétursson birt pistla það varðandi á Stundinni auk færslna á facebook síðu sinni,“ segir í yfirlýsingunni. „Hefur Ragnar Þór Pétursson verið óvæginn í umfjöllun sinni um Ragnar Þór Marinósson og staðhæft ýmislegt um hann sem ekki fæst staðist og fer gegn því sem okkur félaga hans frá barnaskóla hefur birst, bæði í nútíð og frá fyrri tíð.“
Fram kemur að meint blygðunarsemis brot hafi átt sér stað á Tálknafirði á þeim tíma sem drengirnir voru 12 til 14 ára. „Þá hefur Ragnar Þór Marinósson greint mér og fleirum frá meintum atvikum oftar en einu sinni, löngu áður en mál þetta kom upp. Ég set fram yfirlýsingu þessa án þess að málið varði mig að öðru leyti en því að sannleikurinn hefur a.m.k. verið lagfærður í frásögn Ragnars Þórs Péturssonar,“ segir í undirrituðu yfirlýsingunum.
Ragnar Þór svaraði fjölskyldu Ragga í athugasemd á Vísi.is á sínum tíma og sagðist aldrei nokkurn tímann hafa reynt að draga Ragnar Þór Marínósson inn í umræðuna um ásakanir á hendur sér. „Ég fann til með honum og taldi víst að ásökunin stafaði af verulegum erfiðleikum – frekar en meinfýsni eða illsku,“ skrifaði hann. Þá vísaði hann því á bug að hafa boðið nemendum í heimsókn til sín. „Ég man að hópur nemenda þáverandi sambýliskonu minnar kom í heimsókn til hennar.
„Það má vel vera að einhverjir hafi bankað
upp á – en það var aldrei í mínu boði og
ég sýndi þeim svo sannarlega ekki klám“
Ég man eftir einum nemanda mínum sem kom og gaf mér kveðjugjöf skömmu áður en ég flutti. Og þegar ég talaði við þáverandi sambýliskonu mína mundi hún eftir einum öðrum nemanda sem heimsótti hana. Það má vel vera að einhverjir hafi bankað upp á – en það var aldrei í mínu boði og ég sýndi þeim svo sannarlega ekki klám eða vonda framkomu. Það er einfaldlega ekki sú manneskja sem ég er – og þótt ég hafi þroskast heilmikið frá því ég var tvítugur er það heldur ekki sú manneskja sem ég var.“
Hér má sjá yfirlýsingu nemendanna tveggja í heild, en þær eru samhljóða:
Stundin ræddi við Ragnar Þór Pétursson við vinnslu fréttarinnar en hann hefur fjallað ítarlega um málið á bloggi sínu, í fjölmiðlum og á Facebook.
Uppfært: Ragnar Þór Pétursson hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna yfirlýsingar nemendanna tveggja. Þar segir meðal annars að hann geri enga athugasemd við það atriði að nemendur hafi komið í heimsókn til hans og sambýliskonu hans þegar þau kenndu á Tálknafirði. „Ekkert kemur fram um að neitt óeðlilegt hafi verið við þær heimsóknir – enda var það ekki,“ segir Ragnar Þór. Þá segist hann hafa reynt að sýna Ragnari Þór Marinóssyni og fjölskyldu hans nærgætni í málinu „þrátt fyrir að ýmsu hafi verið haldið fram sem hvorki er forsvaranlegt né löglegt. Ýmsir hafa hvatt mig til að ganga miklu harðar fram og leita réttar míns,“ skrifar Ragnar Þór. Hér má lesa yfirlýsingu hans í heild.
Athugasemdir