Ásta Dís Guðjónsdóttir er frá Ísafirði, ættuð úr Djúpinu. Hún byrjaði 14 ára að vinna með skóla, „til að tryggja að ég væri ekki fjárhagsleg byrði á fjölskyldunni,“ segir hún. „En vinnan bitnaði á mætingunni og þrátt fyrir góða stöðu námslega þá féll ég á mætingu og flosnaði frá námi. Ég fór síðan í bókhalds og skrifstofutækninám þar sem ég dúxaði,“ segir hún. Síðar, þegar hún reyndi framhaldsnám, sem einstæð móðir, varð hún fyrir því að sonur hennar veiktist af sjaldgæfum frumusjúkdómi.
„Fljótlega eftir að heilsa sonar míns var komin í réttan farveg veiktist ég svo sjálf. Ég fór á stuttum tíma úr því að vera alheilbrigð ófrísk kona yfir í að veikjast illa aftur og aftur og fá alltaf nýjar og nýjar greiningar.“
Næstu ár á eftir komu greiningarnar á færibandi og fjaraði undan fjárhagnum. Hún var greind með vefjagigt, síþreytu, fibromyalgiu, mígreni, háþrýsting, óþol, síversnandi ofnæmi, þyngdaraukningu, exem, útbrot, liðagigt, þunglyndi, slitgigt, hjartsláttartruflanir, iktsýki, meltingartruflanir, bætiefnaskort, óhemju miklar blæðingar og svo brjósklos sem skildi eftir sig varanlega taugalömun í hægri fæti.
„Á þessum tíma bjó ég við mikla fátækt enda þurfti ég að þiggja fjárhagsaðstoð frá mínu sveitarfélagi í töluverðan tíma áður en fór á örorkulífeyri. Þetta olli mér mikilli vanlíðan og félagslegri einangrun – ég var niðurbrotin af heilsubresti og skömm vegna aðstæðna minna, varð algjörlega vanvirk og fór varla út úr húsi í nokkur ár.“
Ásta Dís deilir lærdómi sínum af því að lifa við fátækt á Íslandi vegna veikinda.
1. Að glata ekki virðingunni. Maður glatar virðingunni þegar maður býr við fátækt. Það sem er kannski verst að maður glatar virðingunni fyrir sjálfum sér. Sjálfsmyndin brotnar og þegar maður ber ekki virðingu fyrir sjálfum sér og finnur það að aðrir bera ekki virðingu fyrir manni þá liggur leiðin bara niður á við. Þannig að um leið og við getum unnið í því að gefa þessu fólki virðinguna aftur þá breytist allt.
2. Að fólk þarf að vera gerendur í eigin lífi. Það er mjög erfitt að vera alltaf þiggjandi og fólk gerir sér ekki grein fyrir því. Þegar maður býr við fátækt þá þarf maður að taka með útréttri hendi öllu sem að manni er rétt en það sem er rétt að manni er kannski eitthvað sem hentar manni ekki. Um leið og maður tekur ekki við því sem að manni er rétt þá er maður vanþakklátur og þá snúa allir við manni baki. Það er eins og maður megi ekki gera kröfu eða óska einhvers sem hentar manni betur. Það sem ég hef lært svo sterkt í sambandi við það að vera þiggjandi er að ef við finnum aðstæður þar sem fólk sem býr við fátækt getur verið gefandi eða gerandi í staðinn fyrir að vera þiggjandi þá verður ákveðin uppbygging.
3. Að komast út úr vítahringnum. Langvarandi peningaleysi veldur ákveðnum skorti sem veldur félagslegri einangrun sem aftur veldur þunglyndi sem verður til þess að fólk fær verkkvíða sem veldur almennri vanvirkni sem aftur lokar fólk inni á heimilum sínum og veldur jafnvel sjálfsvígshugsunum eða öllu alvarlegra sem eru sjálfsvígstilraunir. Þannig er fólk komið í ákveðinn vítahring. Þetta þekki ég vel sjálf og þetta sé ég hjá öðrum.
Athugasemdir